Stockfish hátíðin haldin í febrúar

stockfish logo 2015Kvikmyndahátíðin Stockfish European Film Festival in Reykjavík verður haldin í fyrsta sinn dagana 19.febrúar – 1.mars 2015 í Bíó Paradís og á nokkrum öðrum stöðum í borginni. Það er sjálfseignarstofnunin Heimili kvikmyndanna – Bíó Paradís ses. sem stendur fyrir hinni endurvöktu hátíð. Stockfish European Film Festival in Reykjavík er sjálfseignarstofnun sem starfar með það að markmiði að efla og styrkja kvikmyndamenningu og -iðnað á Íslandi og er hátíðin ekki haldin í hagnaðarskyni.

Þetta kemur fram á vef hátíðarinnar. Þar segir einnig:

Markmið með endurvakningu Kvikmyndahátíðar í Reykjavík, nú Stockfish European Film Festival in Reykjavík er að skapa viðburð í samvinnu og samstöðu allra sem málið varðar og annast framkvæmd hennar og stjórnun á sem faglegastan hátt. Hátíðin mun veita almenningi aðgang að rjómanum af þeim kvikmyndum sem hafa hlotið verðlaun og viðurkenningar á stærstu kvikmyndahátíðum heims þar sem áherslan er lögð á gæði frekar en magn kvikmynda. Áhorfendaverðlaun hátíðarinnar verða veitt við hátíðlega athöfn á lokahófi hennar, en einnig verður alþjóðlegur verðlaunaleikstjóri heiðraður.

Á meðal gesta, verða þekktir verðlaunaleikstjórar og aðrir alþjóðlegir kvikmyndagerðarmenn. Áhersla verður lögð á að sýna það nýjasta úr kvikmyndagerð heimsins og einnig verður sérstök áhersla lögð á tengslamyndun íslenskra og erlendra kvikmyndagerðarmanna.

Hátíðin verður samstarfsverkefni allra hagsmunaaðila í kvikmyndageiranum á Íslandi. Markmiðið með hinni endurvöktu hátíð er að þjóna samfélaginu sem hún sprettur úr, efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi árið um kring og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng bæði erlendis og innanlands. Allt kapp verður lagt á að starfrækja Kvikmyndahátíð í Reykjavík, nú Stockfish á faglegan, gagnsæjan og lýðræðislegan hátt með stjórn skipaðri úr fagfélögum kvikmyndaiðnaðarins.

Starfsfólk hátíðarinnar mun tileinka sér fagleg og ábyrg vinnubrögð gagnvart samstarfsaðilum, gestum og öðrum starfsmönnum. Erlendum blaðamönnum úr helstu og þekktustu fjölmiðlum heims verður boðið að sækja hátíðina heim en sérleg upplýsingamiðstöð hátíðarinnar verður stofnuð til að taka á móti gestum hennar.

Kvikmyndahátíð um allt land verður haldin samhliða hátíðinni í Reykjavík, en sýndar verða valdar myndir á nokkrum stöðum út á landi en nánari staðsetningar verða kynntar þegar nær dregur hátíð. Þannig gefst tækifæri fyrir áhorfendur að njóta kvikmyndahátíðarinnar óháð búsetu, á sama tíma og hún fer fram í Reykjavík. Einnig er möguleiki fyrir gesti hátíðarinnar að kynna myndir sínar á landsbyggðinni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR