Hrönn Kristinsdóttir og Carolina Salas taka við Stockfish hátíðinni

Hrönn Kristinsdóttir er nýr listrænn stjórnandi Stockfish og mun hún ásamt Carolina Salas, nýráðnum framkvæmdastjóra hátíðarinnar, halda áfram að þróa Stockfish sem gott rými fyrir samtal greinarinnar á opnum og faglegum nótum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stockfish og þar segir einnig:

Stockfish er hátíð sem opnar tækifæri fyrir fagfólk bæði hér- og erlendis. Áhersla er lögð á að fagmennska, gagnsæi og lýðræði séu í hávegum höfð í starfsemi hátíðarinnar. Stjórn hátíðarinnar er skipuð 6 aðilum frá hagsmunafélögum úr greininni, þeim Antoni Mána Svavarssyni (SÍK), Arnari Þórissyni (FK), Kristínu Andreu Þórðardóttur (SKL), Ragnari Bragasyni (FLH), Tómasi Erni Tómassyni (ÍKS) og Þórunni Lárusdóttur (FÍL).

Í gegnum árin hefur Stockfish, í nánu samstarfi við Kvikmyndamiðstöð Íslands , Reykjavíkurborg og Bíó Paradís, fest sig í sessi sem áhugaverður og öflugur tíu daga viðburður sem tengir saman innlent og erlent fagfólk en býður almenningi jafnframt innsýn í það nýjasta og ferskasta úr kvikmyndaheiminum.

Verk í vinnslu

Að vanda verður boðið upp á „Verk í vinnslu“ þar sem sýnt verður frá nýjum og spennandi íslenskum kvikmyndum og sjónvarpsefni sem eru enn í framleiðslu. Atburðinum verður einnig streymt beint fyrir þá sem hafa ekki tök á að mæta á staðinn. Tilgangurinn er að kynna verkin fyrir mögulegu samstarfsfólki, sölu-og dreifingaraðilum sem og kvikmyndahátíðum.

Fókus á fagið

Að þessu sinni mun Stockfish bjóða sendinefnd, fagfólki og kvikmyndum frá Slóvakíu til þátttöku á hátíðinni. „Fókus á fagið“ (Industry Focus) sem verður árlegur viðburður þar sem eitt land er í brennidepli hvert ár. Í ár er Slóvakíu fókusinn í samvinnu Kino Usmev og Bíó Paradís.

Heiðursverðlaun í fyrsta sinn

Í fyrsta sinn mun Stockfish nú veita heiðursverðlaun fyrir „Framúrskarandi framlag til kvikmyndaiðnaðarins,“ þar sem fagmanneskja úr kvikmyndafræðum, -framleiðslu, -dreifingu, markaðsmálum eða kvikmyndahátíð, hlýtur verðlaun.

Framtíðarfólkið

Stuttmyndakeppnin Sprettfiskur verður á sínum stað en þar keppa um 20 stuttmyndir í fjórum flokkum: Besta stutta frásögnin, besta stutta heimildarmyndin, besta tónlistarmyndbandið og besta stutta tilraunamyndin. Vinningsmyndirnar hljóta vegleg verðlaun og möguleika á dreifingu hérlendis. Meginmarkmið Sprettfisks er áhersla á kynningu og uppgötvun nýs hæfileikafólks sem og að auðvelda þeim næstu skref í kvikmyndagerð. Umsóknarfrestur verður auglýstur síðar.

Hreyfimyndahátíðin á sínum stað

Annað hvert ár í seinni tíð hefur Physical Cinema (Hreyfimyndahátíð) sett svip sinn á Bíó Paradís og miðbæ Reykjavíkur í tengslum við Stockfish undir stjórn Helenu Jónsdóttur. Gestir Stockfish og aðrir eiga því von á skemmtilegum uppákomum víðsvegar um borgina á meðan á hátíðinni stendur.

Fagfólk og stjörnur sitja fyrir svörum

Stockfish mun einnig standa fyrir metnaðarfullri dagskrá fyrir almenna hátíðargesti og sýna valdar alþjóðlegar verðlaunamyndir auk ýmissa sér- og yfirlitssýninga. Að vanda munu leikstjórar/aðstandendur myndanna fylgja myndum sínum eftir og sitja fyrir svörum að sýningum loknum.

Á dagskrá Stockfish frá 23. mars -2. apríl verða sýndar í Bíó Paradís um 25 hágæða, nýjar alþjóðlegar verðlaunamyndir sem ekki hafa verið sýndar hér áður.

HEIMILDStockfish
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR