Tyrfingur Tyrfingsson: Maður á alltaf bara að búa til list fyrir vini sína

Tyrfingur Tyrfingsson, annar handritshöfunda hinnar íslensku bíómyndar Villibráðar, segist vera steinhissa á vinsældum myndarinnar. Hann segist í viðtali við Fréttablaðið fyrst og fremst hafa skrifað handritið fyrir vini sína og svo hafi komið í ljós að almenningur sé jafn óvandaður.

Segir á vef Fréttablaðsins:

Ég er alla vega mjög hissa,“ segir leikskáldið Tyrfingur Tyrfingsson um vinsældir kvikmyndarinnar Villibráðar sem Tyrfingur skrifar handritið að ásamt leikstjóranum Elsu Maríu Jakobsdóttur.

„Þegar við tókum þetta að okkur ákváðum við Elsa að við myndum bara skrifa einhverja mynd um vini okkar fyrir vini okkar,“ segir Tyrfingur hlæjandi en þetta er í fyrsta sinn sem þau skrifa handrit að kvikmynd í fullri lengd.

„Svo bara kemur í ljós að almenningur er bara jafn ómerkilegur og vinir okkar og alveg eins óvandaður,“ segir hann enn hlæjandi. „Fólk var mjög bjartsýnt, en ég var það eiginlega ekki. Ég hugsaði að þetta væri bara fyrir einhverja perverta og eitthvert skrítið lið.“

Villibráð gerist í matarboði í Vesturbænum þar sem sjö vinir fara í háskalegan samkvæmisleik sem gengur út á að allir leggja síma sína á borðið og samþykkja að öll skilaboð og símtöl sem þeim berast verði afgreidd upphátt og fyrir opnum tjöldum. Þannig geti þau öll sannað að þau hafi ekkert að fela.

Myndin er byggð á dökkri ítalskri kómedíu, Perfetti sconosciuti, eða Fullkomlega ókunnugir, frá 2016. Myndin er mest endurgerða mynd sögunnar. Tyrfingur útskýrir að sér og Elsu hafi verið fengið fullkomið frelsi í hendurnar við handritsskrifin, eini fastinn væri hinn umtalaði samkvæmisleikur.

„Við Elsa vorum saman í MH og eigum mikið af sameiginlegum vinum og vorum svo bara eitthvað að slúðra og tala um fólk,“ segir Tyrfingur sem segir það hafa komið sér sérlega vel við handritsskrifin. Hann ber framleiðandanum Þóri Snæ Sigurjónssyni vel söguna, enda hafi þau Elsa fengið frjálsar hendur.

„Svo vorum við mjög heppin með Önnu Maríu [Karlsdóttur] hjá kvikmyndasjóðnum. Hún las yfir fyrstu drög og sagði okkur að ganga enn lengra. Ég man að ég spurði hana hvort hún væri að grínast,“ segir Tyrfingur hlæjandi.

Handritið hafi því orðið enn villtara. „Þetta varð enn meira lókal og eitthvert rugl og pródúsjónin fór algjörlega úr böndunum,“ segir Tyrfingur á léttu nótunum. „Þess vegna var ég bara: „Æi, þetta er nú meira ruglið. Jæja, maður á alla vega einhvern hittara í leikhúsinu,“ segir Tyrfingur og á þar við leikritið Sjö ævintýri um skömm í Þjóðleikhúsinu.

„En svo bara kemur í ljós að fólk er ekkert eins vandað og maður heldur, maður á greinilega ekki að ofmeta almenning,“ segir handritshöfundurinn í gríni.

„Við göngum svo langt líka að við notum bara nöfn vina okkar. Stína Gunn, ég notaði nafnið hennar Grúnu bara af því að ég vildi fá einhver viðbrögð frá henni. Ég hafði áhyggjur af því að þau yrðu ógeðslega sár og reið en svo var þeim bara alveg sama. Þau bera enga virðingu fyrir þessu,“ segir Tyrfingur.

Hann segist ekki síst hafa reynt að hugsa handritið mikið fyrir vinkonu sína. „Því hún hefur ekki gaman af neinu, horfir aldrei á bíómyndir og hlustar ekki einu sinni á útvarp. Hún hlustar bara á Bubba Morthens en hefur ekki einu sinni gaman af því,“ segir Tyrfingur hlæjandi.

Hann segir markmiðið hafa náðst, Grúna hafi haft gaman af myndinni. „Eða hún segir það alla vega,“ segir Tyrfingur sem er himinlifandi yfir viðbrögðunum. „Oft er verið að reyna að búa til eitthvað fyrir heimsmarkaðinn, sem gengur ekkert í listum. Maður á alltaf bara að búa til list fyrir vini sína og vona svo að annað fólk sé jafn óvandað og vinir manns.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR