spot_img

Hvað ef HYGGE væri íslensk og VILLIBRÁÐ dönsk?

Hér er smá leikur að tölum þar sem bornar eru saman ýmsar lykiltölur aðsóknar í Danmörku og á Íslandi á því herrans ári 2023. Lengi lifi Friðrik konungur tíundi og heill sé forseta vorum og fósturjörð!

Í tilefni þess að kvikmyndirnar Hygge og Villibráð, sem byggðar eru á ítölsku kvikmyndinni Perfetti sconosciuti, voru báðar frumsýndar 2023, annarsvegar í Danmörku og hinsvegar á Íslandi (framleiddar af sama aðila og báðum leikstýrt af Íslendingum sem námu í Danska kvikmyndaskólanum), er freistandi að bera saman nokkrar tölur varðandi aðsókn. Já, þetta er smá samanburðarrannsókn á stærð og umfangi kvikmyndamarkaðar beggja landa, sem segir ákveðna sögu um áhuga beggja þjóða gagnvart kvikmyndum frá eigin landi.

Lykiltölur

Fyrst lykiltölur beggja landa og um leið forsendur. Danir eru rúmlega 5,9 milljónir. Íslendingar eru rúmlega 375 þúsund. Danir eru 15,74 sinnum fleiri. Íslendingar eru 6,35% af fjölda Dana.

Heildaraðsókn í báðum löndum

Kvikmyndamarkaðir landanna líta svona út í megindráttum. Danir fóru að meðaltali 1,7 sinnum í bíó 2023. Íslendingar fóru 2,7 sinnum. Það er reyndar mikið fall. Fyrir nokkrum árum var þetta hlutfall 4,5. En látum það vera.

Heildaraðsókn á allar kvikmyndir í Danmörku 2023 var 10.032.000 gestir. Sambærileg aðsókn á Íslandi var 1.003.602 gestir. Danski markaðurinn virðist því vera um 10 sinnum stærri, en það segir ekki alla sögu. Hlutfallslega er íslenski markaðurinn 157,5% af stærð þess danska. Um leið er danski markaðurinn hlutfallslega 63,5% af stærð þess íslenska.

Aðsókn á heimamyndir

Danir frumsýndu 26 bíómyndir 2023. Um 2,5 milljónir gesta sáu þær og því er markaðshlutdeild danskra mynda um 25%. Íslendingar frumsýndu 8 bíómyndir á sama tíma. Um 145 þúsund sáu þær og markaðshlutdeildin er rúm 14,5%. Danir velja því frekar að sjá heimamyndir þegar þeir fara í bíó enda eru þær miklu fleiri en hjá okkur. Við erum samt með vel yfir helming af markaðshlutdeild Dana, með meira en þrisvar sinnum færri myndum. Sem þýðir að hlutfallslega miklu fleiri Íslendingar sjá íslenskar myndir en Danir danskar myndir.

Meðalaðsókn á heimamyndir 

Þá er komið að meðalaðsókninni. Meðalaðsókn á danskar myndir 2023 var rúmlega 95 þúsund gestir. Það samsvarar rúmlega 6 þúsund gestum á Íslandi. Meðalaðsókn á íslenskar myndir 2023 var yfir 18,300 gestir. Meira en þrisvar sinnum hærri meðalaðsókn hlutfallslega. Sambærileg meðalaðsókn í Danmörku væri yfir 288 þúsund gestir.

Hygge og Villibráð

Þá komum við að Hygge og Villibráð.

Hygge hefur gert það mjög gott í miðasölunni í Danmörku. Hún er enn í sýningum og alls hafa selst 180,571 miðar. Hún er sjötta vinsælasta danska kvikmyndin 2023. Á Íslandi samsvarar þessi aðsókn 11,466 gestum.

Villibráð er svolítið öðruvísi. Hún fékk alls 56,236 gesti 2023. Hún er langvinsælasta íslenska kvikmyndin á Íslandi á síðasta ári. Sambærileg aðsókn í Danmörku væri hvorki meira né minna en rúmlega 885 þúsund gestir. Slík aðsókn á danskar myndir í Danmörku er sjaldgæf en gerist þó af og til. Vinsælasta myndin í Danmörku í fyrra var Meter í sekundet með 351,100 gesti. Það samsvarar 22,295 gestum á Íslandi. Það er ekki oft sem vinsælustu íslensku myndirnar ár hvert hljóta svo litla aðsókn, en gerist þó af og til.

Niðurlag

Þetta er bæði til gamans gert, en einnig til að undirstrika að þrátt fyrir allt er íslenskur almenningur áhugasamur um íslenskar kvikmyndir. En íslenski kvikmyndamarkaðurinn er að sjálfsögðu örmarkaður (þó hann sé hlutfallslega stór miðað við Danmörku og önnur Evrópulönd).

Skoðum aðeins ekónómíuna í þessu. Á meðan munurinn á kostnaði við gerð myndanna er líklega ekki mjög mikill, segir það sig sjálft að miðasölutekjur af Hygge eru margfalt hærri en tekjur af Villibráð og þar með hlutur framleiðanda/dreifingaraðila. Þetta skiptir að sjálfsögðu verulegu máli þegar upp er staðið.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR