Meðalaðsókn á íslenskar kvikmyndir dregst saman

Tölur sýna að meðalaðsókn síðustu fimm ár hefur dregist nokkuð saman miðað við síðustu fimm ár þar á undan. Myndum sem fá aðsókn yfir 20 þúsund gesti hefur einnig fækkað mjög. Myndum í heild á tímabilinu hefur ögn fjölgað.

Hvernig eru íslenskar kvikmyndir að ná til almennings? Aðsókn á einstakar myndir er mjög mismunandi. Heildaraðsókn hvers árs sveiflast einnig mjög. Ágæt leið til að skoða þróun aðsóknar er að reikna út meðaltalsaðsókn yfir lengra tímabil. Þá er fjölda mynda á gefnu tímabili deilt í gestafjölda sama tímabils.

Tekið skal fram að með þessum samanburði er aðeins verið að veita upplýsingar. Klapptré lætur lesendum eftir að meta hvað tölurnar segja um samband íslenskra kvikmynda við áhorfendur, en bendir á nokkra þætti sem hægt er að hafa í huga.

Meðalaðsóknin á íslenskar kvikmyndir á síðasta ári var mjög há, eða 18,322 gestir. Árin þar á undan markast nokkuð af Covid faraldrinum og meðaltalsaðsóknin því lægri, þó vissulega komu þá út kvikmyndir sem nutu mikilla vinsælda. Sé horft víðar yfir sviðið hefur meðaltalsaðsókn þó  dregist nokkuð saman síðustu fimm árin.

Fyrir fimm árum skoðaði Klapptré meðaltalsaðsókn og heildaraðsókn yfir tiltekin tímabil ásamt fleiri þáttum. Nú er því kominn tími til að skoða síðustu fimm ár, 2019-2023 og bera saman við tvö fimm ára tímabil þar á undan.

TÍMABIL MEÐALTALSAÐSÓKN HEILDARAÐSÓKN FJÖLDI MYNDA
2019-2023 11,309 gestir 431,775 gestir 43
2014-2018 16.452 gestir 564.792 gestir 35
2009-2013 12.987 gestir 527.317 gestir 41
Samanburðurinn sýnir því að bæði meðal- og heildaraðsókn hefur dregist saman á undanförnum árum, þó myndum hafi fjölgað lítillega. Bent skal á að Covid faraldurinn takmarkaði kvikmyndasýningar verulega á árunum 2020-2022 og 2019 var sérlega pasturslítið ár aðsóknarlega séð.

Hér er samanburðartafla yfir myndir sem fengu yfir 20 þúsund gesti, skipt eftir sömu tímabilum.

TÍMABIL YFIR 20 ÞÚS HEILDARFJÖLDI
2019-2023 7 (16,3%) 43
2014-2018 11 (31,4%) 35 
2009-2013 11 (26,8%) 41
Myndum sem fara yfir 20 þúsund gesti hefur því fækkað verulega á síðustu fimm árum samanborið við síðustu tvö fimm ára tímabil.

Ágætt er að hafa í huga að aðsókn í kvikmyndahús segir aðeins hluta sögunnar. Kvikmyndir hafa ýmsar aðrar dreifileiðir, til dæmis VOD-leigur og sýningar í sjónvarpi. Tölur eru aðeins teknar saman í sjónvarpi, en nokkuð ljóst að áhorfendahópurinn stækkar mikið í þessum dreifileiðum.

Gott dæmi um þetta er kvikmyndin Villibráð, sem var vinsælasta íslenska myndin í bíó 2023 (rúmlega 56 þúsund gestir). Hún var sýnd á RÚV þann 1. janúar 2024 og samkvæmt mælingum horfðu um 74 þúsund manns allan tímann eða að hluta á hana í útsendingu og spilara viku á eftir. Ekki er ólíklegt að áhorfendahóparnir skarist að einhverju leyti, en óhætt er að gera ráð fyrir að vel á annað hundrað þúsund manns hafi séð myndina í bíó, á VOD eða í sjónvarpi.

Annað atriði sem hafa má til hliðsjónar er samdráttur í bíóaðsókn á undanförnum árum. Covid faraldurinn er þar stærsta breytan, en aðsókn hefur hinsvegar aukist jafn og þétt með hverju ári síðan Covid hófst, sjá nánar hér.

Hér er staðan á fimm ára fresti 2013-2023:

ÁR FJÖLDI GESTA Í BÍÓ +-%
2013 1.369.901 gestir /
2018 1.445.445 gestir +5,5%
2023 1.003.602 gestir -30,5%
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR