Viðhorf | Nú verða (ekki) sagðar fréttir

Fyrirætlanir stjórnvalda um lækkun útvarpsgjalds virðast ætla að ganga eftir, þó ekki sé útséð enn hvernig það fari. Erfitt er að koma auga á skynsemina í þessu plani þegar búið er að skerða opinbera fjármögnun stofnunarinnar um fjórðung á undanförnum áratug þannig að henni er illkleift að standa við skyldur sínar samkvæmt lögum.

Um fjórðungs niðurskurður á áratug

Opinber fjármögnun RÚV hefur síðastliðinn áratug dregist saman um rúmlega 22% miðað við verðlag dagsins í dag.

  •  Tekjur af afnotagjöldum 2005 ca. 4.5 milljarðar króna (uppreiknað).
  •  Þjónustutekjur af útvarpsgjaldi skv. fjárlagafrumvarpi 2015:  3.5 milljarðar króna.
Hér vantar því um milljarð króna. Peninga sem hefðu væntanlega að miklu leyti farið í eflingu innlendrar dagskrár og til að ná markmiðunum um 65% hlutfall innlends efnis á kjörtíma samkvæmt upphaflegum þjónustusamningi frá 2006 (það er nú um 56% samkvæmt nýjustu tölum).

Stjórnin er að fara fram á óskert útvarpsgjald, sem þýddi þá um 400 milljónir króna til viðbótar inní rekstur RÚV á ári. Þetta er semsagt beiðni um síðbúna leiðréttingu að hluta til.

En stjórnvöld stefna í öfuga átt. Boðuð hefur verið enn frekari lækkun, um það bil 6-7% raunlækkun á framlögum að mér sýnist. Það gerir heildarlækkun á áratug um 26%.

Með þessu er þó ekki öll sagan sögð. Auglýsingatekjur, önnur helsta fjármögnun RÚV, eru einnig á rangri braut.

RÚV treystir að verulegu leyti á auglýsingatekjur, meðan flestar almannastöðvar byggja eingöngu á notendagjöldum

Auglýsingatekjur RÚV voru um 1.7 milljarður 2005 (uppreiknað). Á síðasta rekstrarári (2013-2014) námu auglýsingatekjur um 1.8 milljarði. Auglýsingatekjur hafa því aukist um 6% á áratuginum. Hinsvegar hefur hlutfall auglýsingatekna af heildartekjum hefur farið úr rúmum fjórðungi í rúman þriðjung á þessu tímabili. Að litlu leyti er þetta vegna hlutfallslegrar aukningar á auglýsingatekjum en fyrst og fremst vegna mikils samdráttar í opinberu framlagi.

Þetta er slæmt fyrirkomulag margra hluta vegna.

  • Hátt hlutfall auglýsingatekna af heildartekjum þrengir möguleika RÚV til að sinna hlutverki sínu sem almannaþjónustumiðill (í því felst að sýna bæði vinsælt efni sem og efni sem höfðar til þrengri hópa), því það neyðir stofnunina til að leggja meiri áherslur en ella á efni sem nýtur mikilla vinsælda á kostnað fjölbreytninnar.
  • Um leið takmarkar þetta fyrirkomulag möguleika einkarekinna miðla til að sinna innlendri dagskrárgerð þar sem RÚV er nauðugur einn kostur að halda uppi harðri samkeppni við einkamiðla um auglýsingafé.
  • Og meira; niðurskurður á þjónustutekjum mun draga úr dagskrárgerð og þar af leiðandi auglýsingatekjum. Þetta þýðir að slagurinn um auglýsingar verður enn harðari milli RÚV og einkamiðlanna, því RÚV mun þurfa að sækja auglýsingatekjur sínar enn fastar en áður. Afhverju? Jú, RÚV er að reyna að finna fjármagn til að standa við það sem þeim er uppálagt samkvæmt lögum.

Á meðan virðast stjórnvöld leggja sig fram um að gera RÚV afar erfitt fyrir.

Einstæð yfirlýsing stjórnar RÚV

Stjórn RÚV, sem skipuð er af Alþingi og að meirihluta fulltrúum núverandi ríkisstjórnarflokka, sendi frá sér einstæða yfirlýsingu á dögunum. Í grunninn er hún aðvörun til Alþingis um að við svo búið megi ekki standa; RÚV muni ekki geta uppfyllt skyldur sínar verði áfram haldið á niðurskurðarbraut. Í yfirlýsingunni bendir stjórnin á að gerð hafi verið sjálfstæð úttekt á fjármálum félagsins síðastliðið vor:

Niðurstaðan var sú að félagið er yfirskuldsett og er stærstur hluti skuldanna gamlar lífeyrissjóðsskuldbindingar. Þá blasir við að tekjur duga ekki fyrir þeirri þjónustu sem félagið veitir og grundvallast á útvarpslögum. […] Gangi þessar fyrirætlanir eftir blasir við stórfelld breyting á hlutverki, þjónustu og starfsemi Ríkisútvarpsins með stórtækari niðurskurðaraðgerðum en áður hafa sést hjá félaginu. Augljóst má vera að sú þjónusta sem Ríkisútvarpið veitir tæki  stakkaskiptum við þessa breytingu með samdrætti á öllum sviðum.

Stjórnin (já þessi sem kjörin var af Alþingi) virðist eðlilega ekki skilja upp né niður í fyrirætlunum stjórnvalda:

Stjórn Ríkisútvarpsins hefur ítrekað að samræmi verði að vera milli þeirrar þjónustu sem félaginu ber að veita og þeirra tekna sem félagið fær til að standa undir þjónustunni. […] Útvarpsgjaldið á Íslandi er með því lægsta sem þekkist meðal nágrannaþjóða þrátt fyrir að þær séu allar mun fjölmennari. Framlag hvers Íslendings til Ríkisútvarpsins er t.d. mun lægra en þegnar Bretlands og Noregs (BBC, NRK) greiða til sinna ríkisstöðva og sambærilegt því sem þegnar Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands (DR, YLE og SVT/SR) greiða til sinna ríkisstöðva.

Þetta er kurteislega orðað hjá stjórninni, sem minnist ekki einu sinni á þá staðreynd að auðvitað er mun dýrara að reka sjónvarpsstöð í litlu landi en stóru þar sem fleira bera kostnaðinn, því munur á kostnaði við dagskrárgerð er í raun ekki mikill.

Stjórnin bendir og á að niðurskurðurinn leiði til þess að Alþingi verði sjálft að taka ákvarðanir um hvaða þætti starfseminnar eigi að leggja niður:

Ef það er vilji Alþingis að gjörbreyta hlutverki Ríkisútvarpsins og skyldum, þá er eðlilegt að fram fari umræða og þá með tilheyrandi breytingum á útvarpslögum áður en tekin er ákvörðun um að lækka útvarpsgjald.

Þetta er að sjálfsögðu grafalvarleg yfirlýsing og væntanlega ekki sett fram nema að vel ígrunduðu máli.

Kostnaður fer að stærstum hluta í dagskrá

RÚV er fyrst og fremst dagskrá; tæpir 3/4 hlutar kostnaðar fara í dagskrárgerðina (um 4 milljarðar á síðasta rekstrarári). Rúmlega fjórðungur er fastakostnaður; dreifing, sölukostnaður, yfirstjórn, húsrekstur og fjármagnsgjöld. Mest af þeim kostnaði er snúið að draga saman, nema ef vera skyldi húsnæðið að einhverju leyti eins og stjórnendur RÚV hafa rætt um. Fjármagnsgjöldin (rúmar 325 mkr. á síðasta rekstrarári) eru að stærstu leyti vegna lífeyrisskuldbindinga skv. RÚV.

Því er nokkuð ljóst að fyrirhugaður niðurskurður er ávísun á skerta þjónustu RÚV, það er samdrátt í dagskrá.

Staðan er semsagt í stuttu máli þessi:

  • Tekjur RÚV hafa dregist verulega saman, eða um fjórðung á áratug. Reksturinn stendur ekki undir sér.
  • Langt er í að takmarkið um 65% innlenda dagskrá á kjörtíma náist. Það er nú um 56% en líklegt er að það byrji að dragast saman.
  • Hið háa hlutfall auglýsingatekna af heildartekjum mun gera það að verkum að niðurskurður á dagskrárgerð bitnar fyrst á því efni sem aðrir miðlar sinna ekki; menningarefni hverskonar í sjónvarpi og útvarpi (Rás 1 útvarps er sérstaklega undir, einnig margskonar sjónvarpsefni sem fær minna áhorf en vinsælasta efnið).

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Alþingi hyggst bregðast við þessari stöðu.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR