Síðasta haustið eftir Yrsu Roca Fannberg og Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson keppa um titilinn Norræn heimildamynd ársins á Nordisk Panorama. Gullregn Ragnars Bragasonar hefur verið valin á Toronto hátíðina.
Marta Sigríður Pétursdóttir kvikmyndarýnir Lestarinnar á Rás 1 segir Gullregn vera tragikómískan sálfræðitrylli um rasisma og vítahring ofbeldis sem flyst frá einni kynslóð til annarrar. Þó henni fatist aðeins flugið í blálokin sé hún á heildina litið mjög vel gerð kvikmynd sem skilji eftir sig óþægilega tilfinningu að áhorfi loknu.
„Sé litið á Gullregn sem stúdíu á mannlegri hegðun, þar sem stjórnsemi, þöggun og skömm ráða för, er hún uppfull af áhugaverðum atriðum þar sem hinn sterki leikhópur myndarinnar nýtur sín vel,“ segir í umfjöllun Heiðu Jóhannsdóttur um kvikmyndina Gullregn í Menningunni á RÚV.
"Ádeilutónn Gullregns hljómar jafn skýrt tæpum áratug eftir að það sló í gegn í Borgarleikhúsinu," segir Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðinu um kvikmynd Ragnars Bragasonar.
Alls er útlit fyrir að fimm íslenskar bíómyndir verði í sýningum þetta haustið. Héraðið eftir Grím Hákonarson er nýkomin í sýningar, en væntanlegar eru Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason, Hæ hó Agnes Joy eftir Silju Hauksdóttur, Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson og Gullregn eftir Ragnar Bragason sem kemur rétt eftir áramót. Auk þess verður kvikmyndin End of Sentence eftir Elfar Aðalsteinsson sýnd á RIFF.
Hvergi bólar á þeim framlögum til sjóðsins sem vilyrði voru gefin um í Samkomulaginu 2016. Kristinn Þórðarson formaður SÍK segir félagið munu þrýsta á um þessi framlög. Ýmsir kvikmyndagerðarmenn tjá sig um frumvarpið og láta sér fátt um finnast.
Stundin birti á dögunum ítarlegt viðtal við Ragnar Bragason leikstjóra þar sem hann fer yfir feril sinn, segir frá upprunanum, ræðir um Fanga og einnig framtíðarplön.
Ragnar Bragason og Margrét Örnólfsdóttir eru tilnefnd til nýrra norrænna sjónvarpsverðlauna fyrir handrit þáttaraðarinnar Fanga, sem veitt verða á Gautaborgarhátíðinni í febrúarbyrjun. Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn stendur að verðlaununum.
Menningin á RÚV ræddi við Ragnar Bragason, Unni Ösp Stefánsdóttur og Nínu Dögg Filippusdóttir, helstu aðstandendur þáttaraðarinnar Fanga, sem hefst á nýársdag á RÚV.
Bandaríska áskriftastöðin TBS hefur óskað eftir svokölluðum „pilot“ eða prufuþætti af amerísku útgáfunni af Heimsendi, íslenskri sjónvarpsþáttaröð í leikstjórn Ragnars Bragasonar. Þættirnir eru byggðir á handriti Jonathan Ames eftir íslensku þáttunum. Með aðalhlutverkin í „pilot“-þættinum fara leikararnir Hamish Linklater og Wanda Sykes.
Þáttaröðin Fangar fékk á dögunum tæplega 27 milljóna króna styrk frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Verkefnið, sem fer í tökur í vor undir stjórn Ragnars Bragasonar, hefur þegar verið selt til norrænu sjónvarpsstöðvanna og víðar auk RÚV. Mystery framleiðir.