Rætt við aðstandendur „Fanga“

Nína Dögg Filippusdótir í Föngum.

Menningin á RÚV ræddi við Ragnar Bragason, Unni Ösp Stefánsdóttur og Nínu Dögg Filippusdóttir, helstu aðstandendur þáttaraðarinnar Fanga, sem hefst á nýársdag á RÚV.

Á vef RÚV segir:

„Ég held að við séum að gera eitthvað sem skiptir máli,“ segir Ragnar Bragason leikstjóri sjónvarpsþáttanna Fangar, sem verða frumsýndir á RÚV á nýársdag. Upphaf þáttanna má rekja til þess þegar þær Unnur Ösp Stefánsdóttir og Nína Dögg Filippusdóttir heimsóttu Kvennafangelsið í Kópavogi fyrir að verða áratug og ræddu við fangana þar.

Mæður bakvið lás og slá

„Fyrir bráðum níu árum síðan lásum við grein í blaðinu Ísafold um mæður í fangelsi,“ segir Nína Dögg. „Við vorum sjálfar nýorðnar mæður og það fékk eitthvað svo á okkur að það væru mæður í svona aðstæðum. Við hringdum beint upp í fangelsi og spurðum hvort við mættum koma í heimsókn. Það var tekið vel á móti okkur og nokkrir fangar sem höfðu áhuga á að hitta okkur.“

Í framhaldinu höfðu þær samband við Ragnar Bragason leikstjóra, Davíð Óskarsson og Árna Filipiusson framleiðendur og í framhaldinu bættist Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur við. „Þetta er lykilteymið á bakvið þetta sem er búið að vinna hörðum höndum í ansi mörg ár en loksins núna erum við að fæða barnið,“ segir Unnur Ösp.

Kvennavinkillinn heillaði

Fangar eru fjölskyldudrama, sem fjalla um Lindu, og hvernig líf hennar hrynur þegar hún er færð í kvennafangelsi í Kópavogi eftir að hafa ráðist á föður sinn. „Bróðurparturinn gerist í fangelsinu, þannig að við kynnumst föngunum vel,“ segir Nína Dögg. „Þetta fjallar mikið um afleiðingar hennar glæps á fjölskyldu hennar. Aðallega fjallar serían um þöggun.“

Ragnar leikstjóri segir að kvennavinkillinn hafi verið það sem heillaði hann mest við þættina. „Maður sá fyrir sér að geta gert eitthvað sem maður sér ekki á hverjum degi. Saga með mörgum kvenkarakterum. “

Unnur Ösp segir að það í raun tilviljun að þau hafi verið að vinna þættina á sama tíma og krafan um aukna þátttöku kvenna í kvikmyndagerð og bitastæðari kvenhlutverk hafi orðið háværari. „Þannig að þetta vann allt saman að því að uppfylla ansi margar mikilvægar þarfir.“

Tók á að vera í fangelsinu

Þættirnir voru teknir upp í Kvennafangelsinu í Kópavogi, sem var lokað haustið 2015. „Það var ótrúlega magnað að fá að vera hérna inni, fá að koma hérna inn,“ segir Nína, „vera hér og taka upp þessa seríu þar sem þær hafa verið í mörg ár og lifað. Það setur ákveðna tilfinningu inn í mann.“

Unnur Ösp viðurkennir að það hafi líka tekið á andlega. „Maður fékk mikla samkennd með fólki sem er í þessari stöðu. Ég held að það hafi einmitt verið erindið, það kallaði alltaf á okkur aftur. Það var kannski vegna þess að við vorum búnar að mæta þessum konum, sem eru á þessum stað í samfélaginu sem er mikið tabú, og fólk vill ekki vita af, en af því að við vorum búnar að kynnast þeim fannst okkur við skulda þeim og samfélaginu að segja þessar sögur af því að þetta eru raddir sem heyrast eiginlega aldrei. Þessi saga öskrar á það að þurfa að komast út.“

Sjá nánar hér: „Þessi saga öskrar á að komast út“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR