Saga | Þegar Ísland komst á kvikmyndakortið

Um leið og Klapptré óskar lesendum sínum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs, birtist hér samantekt Eggerts Þórs Bernharðssonar sagnfræðings um gerð kvikmyndarinnar Sögu Borgarættarinnar sumarið 1919. Þetta var fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem tekin var upp hér á landi.

Saga Borgarættarinnar: viðburður í þjóðlífinu

Sumarið 1919 kom fyrsti alvöru kvikmyndaleiðangurinn til landsins. Hann var frá „Nordisk Film Kompagni“, sem þá var stórveldi í kvikmyndagerð, og tilgangurinn var að taka upp atriði í myndina Borslægtens historie eða Saga Borgarættarinnar, sem byggð er á samnefndri skáldsögu Gunnars Gunnarssonar en með þessari sögu varð Gunnar frægur um öll Norðurlönd.

Um leið og fréttist að von væri á leikurum og tökuliði til landsins urðu Íslendingar afar spenntir enda ekki á hverjum degi sem þeir gátu barið hetjur hvíta tjaldsins augum í eigin persónu. Blöðin fylgdust af athygli með framvindu mála, einkum Morgunblaðið sem birti reglulegar fregnir af kvikmyndaleikurunum, bæði undirbúningi þeirra í Danmörku og ferðum á Íslandi. Eftir að útlendingarnir komu til landsins fóru þeir vítt og breitt um Suður- og Vesturland, þar sem ýmis atriði voru tekin upp, og með þeim í för var sérstakur fréttaritari Morgunblaðsins, Árni Óla, sem skrifaði ítarlega ferðapistla í blað sitt. Sá sem undirbjó komu erlendu leikaranna til Íslands var Bjarni Jónsson, forstjóri Nýja bíós, en hann hafði þá um langt skeið skipt við „Nordisk Film Kompagni“. Aðalfylgdarmaður þeirra á Íslandi var hins vegar Ögmundur Sigurðsson skólastjóri.[64]

Múgur og margmenni var samankominn niður á bryggju í Reykjavík hinn 4. ágúst 1919 til að taka á móti leikurunum sem komu með „Gullfossi“. Mikið starf beið þeirra, því að um 800 „senur“ átti að filma, margar í Reykjavík. Þekktastur útlendinganna var leikstjóri myndarinnar, Gunnar Sommerfelt, sem jafnframt lék síra Ketil og Gest eineygða. Inga Sommerfelt lék dönsku frúna á Hofi, Frederic Jacobsen fór með hlutverk Örlygs, Ove Kuhl lék Örn hinn unga, Elisabet Jacobsen lék Snæbjörgu, Ingeborg Spangsfeldt lék Rúnu. Aðalhlutverkið í myndinni, Ormar Örlygsson, var hins vegar í höndum Íslendings, listamannsins Guðmundar Thorsteinsson, „Muggs“. Í önnur hlutverk hafði ekki verið skipað þegar leikhópurinn kom til landsins en gert var ráð fyrir að fá nokkra Íslendinga til liðsinnis og leita m.a. aðstoðar Leikfélags Reykjavíkur í þeim efnum. Kvikmyndatökumaður var Lois Larsen, sem þótti standa afar framarlega á sínu sviði, en Valdimar Andersen og Gunnar Sommerfelt höfðu „filmatiserað“ Sögu Borgarættarinnar eins og samning handrits var nefnd.[65]

Með í för var Gunnar Gunnarsson skáld, en hann hafði m.a. það hlutverk að „gæta þess að ekkert fari í handaskolum vegna ókunnugleika leikendanna.“[66] Jafnframt var ætlunin að gera allt „til þess sem unnt er, að kvikmyndin verði eins íslensk, bæði um leik og sýningarsvið, eins og hægt er.“ Þetta var talið mikilvægt. Íslendingar höfðu nýlega séð aðra kvikmynd sem tengdist Íslandi og byggir á leikriti eftir Jóhann Sigurjónsson, sænsku myndina Berg Ejvind och hans hustru eða Fjalla-Eyvind, sem var páskamynd Gamla bíós 1919. Hún var gerð árið áður og það var enginn annar en sænski kvikmyndajöfurinn og leikstjórinn Victor Sjöström sem stóð að henni og lék aðalhlutverkið á móti Edith Erastoff. Myndin var hins vegar ekki tekin upp á Íslandi heldur í Svíþjóð og Lapplandi. Það þótti mörgum misráðið:[67]

Útlend kvikmyndafélög eru nú farin að gefa Íslandi gaum, og íslenskum efnum. Fjalla-Eyvindur hefur verið kvikmyndaður – ekki hér heima, heldur norður í Lapplandi, og hafa Reykvíkingar átt kost á að sjá með eigin augum, að þrátt fyrir allan tilkostnað og vandvirkni hefur hann eigi fengið á sig þann blæ, sem íslenskur geti talist. Hann er ósönn og villandi „Íslandslýsing“, eins og hlaut að verða, fyrst íslenskur leiðbeinandi var eigi með í ráðum við myndatökuna.

Nú átti að standa öðruvísi að málum. Sett var upp „kvikmyndaver“ við svokallað Amtmannstún í Reykjavík, þar sem síðar reis kirkja aðventista við Ingólfsstræti. Reist var „baðstofa“ og kirkja byggð skammt frá. Til þess að baðstofan gæti orðið sem „íslenskust“ lánaði fornminjavörður kvikmyndafélaginu ýmsa gamla húsmuni.[68] Á tökustöðum utan Reykjavíkur var einnig reynt að búa svo um hnúta að allt væri sem „íslenskast“ og í samræmi við söguna.[69]

Daginn eftir komu leikaranna hófu þeir æfingar suður á Melum en 11. ágúst héldu þeir út á land. Með í för voru nokkrir íslenskir leikarar, m.a. Stefanía Guðmundsdóttir, Guðrún Indriðadóttir, Marta Indriðadóttir og Stefán Runólfsson. „Statista“ fékk kvikmyndahópurinn síðan úr sveitum í grennd við tökustaði. Farangur var gríðarmikill, á 40 hestum og flutningabifreið, en leikararnir lögðu af stað í bifreiðum en síðan tóku hestar við. Búist var við að ferðin tæki 4-5 vikur. Myndað var í Borgarfirði, við Gullfoss og Geysi, á Keldum á Rangárvöllum, í Kaldadal, við Hvítársíðu og víðar. Á ýmsu gekk í þessum fyrsta kvikmyndaleiðangri á Íslandi því að breyta þurfti um tökustaði oftar en einu sinni, kvikmyndataka tafðist af ýmsum ástæðum og veður setti strik í reikninginn.[70]

Þegar mánuður var liðinn frá því að kvikmyndaleiðangurinn lagði upp frá Reykjavík höfðu verið tekin upp um 300 atriði myndarinnar og „filmað“ í 16 daga. Alls staðar þar sem hópurinn fór um vakti hann mikla athygli og stundum voru svo margir áhorfendur samankomnir að horfði til vandræða með tökur.[71] Um miðjan september komu leikararnir aftur til Reykjavíkur en þá var búið að filma allt sem átti að taka í sveit. Hafist var handa um kvikmyndatöku í bænum og umhverfis hann, m.a. í Hafnarfirði. Sviðsmyndin við Amtmannstún vakti forvitni Reykvíkinga og ósjaldan var krökkt af fólki uppi á túnum umhverfis hana, sem fylgdist með því sem var að gerast. Um miðjan október var kvikmyndatöku á Sögu Borgarættarinnar loks lokið á Íslandi og þá fóru útlendingarnir til síns heima, nema Gunnar Sommerfeldt sem dvaldist nokkru lengur og las upp úr verkum þekktra skálda við góðar undirtektir Íslendinga.[72]

Kostnaður við Sögu Borgarættarinnar var afar mikill en hagnaður góður.[73] Myndin var frumsýnd í tveimur hlutum á Íslandi í upphafi árs 1921 og Íslendingar flykktust á hana í Nýja bíói. Góður rómur var gerður að henni í heild en leikarar þóttu þó standa sig misjafnlega. Sagt var um Frederik Jacobsen, að honum hefði tekist að gera íslenska bændahöfðingjann Örlyg á Borg sérlega geðþekkan og vafamál væri hvort nokkrum útlendingi hefði tekist betur að lifa sig inn í þann anda, sem yfir myndinni ætti að ríkja. Hið sama væri ekki hægt að segja um Gunnar Sommerfeldt. Presturinn hans væri útlend „Teaterfigur“, fjarri allri raunveru. Mestur vandinn hvíldi þó á Ormari Örlygssyni í höndum Guðmundar Thorsteinsson. Eðli hans væri margbreytilegt, hann hvarflaði frá einu í annað og fyrir honum væru erfiðleikarnir til þess eins að sigrast á þeim. Þegar sigurinn væri unninn væri viðfangsefnið búið fyrir honum. Guðmundi Thorsteinsson þótti takast einkar vel að sýna þennan mann og hann þótti eiga heiður skilinn fyrir leik sinn í myndinni. Því var haldið fram að sá hluti myndarinnar sem Ísland hefði lagt til, væri bæði landi og þjóð til hins mesta sóma.[74] Raunar hefði það sýnt sig, að öll vinna við myndina á Íslandi hefði heppnast svo vel að það ætti ekki að fæla aðra frá því að leita til landsins til kvikmyndatöku.

Sjá nánar grein Eggerts Þórs hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR