Ný útgáfa af SÖGU BORGARÆTTARINNAR sýnd á RIFF

Endurunnin útgáfa af Sögu Borgarættarinnar (1920) eftir Gunnar Sommerfeldt verður sýnd á RIFF í tilefni hundrað ára afmælis kvikmyndarinnar.

Saga Borgarættarinnar markar upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi. Myndin var gerð af Nordisk Film eftir samnefndri skáldsögu Gunnars Gunnarssonar sem færði honum frægð og frama þegar hún kom út í Danmörku á árunum 1912-1914. Myndin var að stærstum hluta tekin upp á Íslandi haustið 1919 og frumsýnd í Danmörku ári síðar.

Sjá meira um Sögu Borgarættarinnar á Klapptré hér.

Leikstjóri myndarinnar var Gunnar Sommerfeldt sem einnig lék eitt aðalhlutverkið. Aðalleikarar voru flestir danskir nema Guðmundur Thorsteinsson, betur þekktur sem myndlistarmaðurinn Muggur, en hann lék aðalsögupersónuna, Ormar Örlygsson, og þótti fara á kostum í myndinni.

Hér má sjá eina senu úr myndinni, tekna í Kaupmannahöfn, fyrir og eftir viðgerð hjá Kvikmyndasafni Íslands.

Saga Borgarættarinnar vakti gríðarlega athygli, ekki síst vegna íslenska landslagsins, og var sýnd í allt að fimmtán löndum þegar hún kom út. Hérlendis var hún frumsýnd snemma árs 1921 og hefur allar götur síðan verið hjartfólgin Íslendingum. Löngu eftir tilkomu talmynda var hún sýnd reglulega í Nýja Bíói fyrir fullu húsi þar til Sjónvarpið tók við sýningarkeflinu um 1970.

Til að fagna 100 ára afmæli myndarinnar hefur Kvikmyndasafn Íslands í samvinnu við Dansk Film Institut endurgert myndina á stafrænu formi í háskerpu.

Þórður Magnússon tónskáld hefur samið tónlist við myndina en hann hefur helgað sig tónsmíðum í rúman aldarfjórðung og hlotið margvíslegar viðurkenningar. Tónlistin var tekin upp hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og hljóðblönduð af Grammy-verðlaunahafanum Steve McLaughlin.

Myndin verður sýnd samtímis í Bíó Paradís í Reykjavík, í Hofi á Akureyri og í Herðubíó á Seyðisfirði. Miða má nálgast hér.

Að neðan má sjá innslag frá N4 á Akureyri sem fjallar um nýja tónlist myndarinnar og upptöku hennar. Þar fyrir neðan er svo stikla vegna sýningarinnar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR