Sjaldséðar íslenskar heimildamyndir í Bíótekinu

Bíótek Kvikmyndasafnsins fer í gang í Bíó Paradís sunnudaginn 24. september næstkomandi. Þá verða sýndar sex klassískar heimildamyndir og fimm af þeim eru íslenskar og hafa ekki verið á hvíta tjaldinu um langa hríð.

Þetta eru heimildamyndirnar Bóndi (1975) eftir Þorstein Jónsson, Eldsmiðurinn (1982) eftir Friðrik Þór Friðriksson og síðan þrjár stuttar heimildamyndir eftir Þorgeir Þorgeirson:  Maður og verksmiðja (1968), Róður (1972) og Grænlandsflug (1966).

Kvöldsýningin er svo heimildamyndin Louisiana Story eftir Robert J. Flaherty.

Dagskráin sunnudaginn 24. september er svona:

15:00
Íslenskar heimildamyndir

Bóndi (1975) – 29 mín
Heimildamynd eftir Þorstein Jónsson. Myndin fjallar um bónda í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp sem hefur alla tíð búið utan við alfaraleið, án rafmagns og véla, í hreinni og ósnertri sveit sem aðeins fáir hafa augum litið. Verið er að leggja til hans veg sem kemur sér vel þegar hann hættir hokrinu og flytur í þéttbýlið.

Eldsmiðurinn (1982) – 35 mín
Heimildamynd eftir Friðrik Þór Friðriksson. Myndin fjallar um Sigurð einsetumann á áttræðisaldri. Hann er járnsmiður og hugvitsmaður og hefur sjálfur smíðað flest þau verkfæri sem hann notar. Meðal sköpunarverka hans er til dæmis fyrsta gírahjólið sem smíðað var á Íslandi. Þá hefur hann breytt klukku í dagatal svo fátt eitt sé nefnt.

17:00
Heimildamyndir eftir Þorgeir Þorgeirson

Maður og verksmiðja (1968) – 10 mín.
Róður (1972) – 18 mín.
Grænlandsflug (1966) – 15 mín.
Sýndar verða stórmerkilegar heimildamyndir Þorgeirs Þorgeirsonar; Maður og verksmiðja, Róður og Grænlandsflug sem hann gerði á tiltölulega stuttum kvikmyndaferli skömmu eftir að hann sneri heim frá námi árið 1962. Þá þótti næstum ómögulegt að framleiða kvikmyndir fyrir fámennið á Íslandi hvað þá að ráðast í gerð tilraunakenndra heimildarmynda. Þorgeir vildi fanga hina raunsönnu áferð lífsins, hvort sem það var umfjöllunarefninu til framdráttar eða ekki, og úr varð eitthvað einstakt. Þegar hann ákvað að segja sig frá kvikmyndagerð bannaði hann sýningar á flestum myndanna. Í góðu samstarfi við fjölskyldu Þorgeirs verða nokkrar þeirra nú sýndar.
*Sérstakur viðburður, Hákon Már Oddsson kvikmyndagerðarmaður og persónulegur vinur Þorgeirs segir frá Þorgeiri og veitir okkur þannig enn frekari innsýn í kvikmyndalist hans og meiningar. Boðið verður upp á léttar veitingar.

19:30
Louisiana Story | Robert J. Flaherty, 1948
Þessi heimildamynd Flaherty er um dæmigert rólegt líf ungs sveitastráks og þvottabjarnar hans við árbakka í Louisiana. Þar leikur hann sér og veiðir alla daga og einu áhyggjur hans snúast um krókódíla. En þetta rólyndislíf tekur breytingum þegar pabbi stráksins gerir samning við olíufyrirtæki sem verður til þess að farið er að bora eftir olíu skammt frá heimili hans. Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna á sínum tíma og hlaut jafnframt fjölda annarra viðurkenninga. Kvikmyndasafn Íslands skannaði myndina af nítratfilmu og gerði upp.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR