Lestin um KULDA: Synd hvað sagan er mikil formúla

„Tekst, upp að vissu marki, að vekja hræðslu áhorfenda og sum atriði láta hárin rísa,“ segir Kolbeinn Rastrick gagnrýnandi Lestarinnar meðal annars um Kulda eftir Erling Óttar Thoroddsen.

Kolbeinn skrifar:

Kuldi er þriðja mynd Erlings Thoroddsen í fullri lengd en fyrri myndir hans, Child Eater og Rökkur voru einnig hryllingsmyndir. Myndin er byggð á samnefndri bók Yrsu Sigurðardóttur sem kom út hjá Veröld árið 2012 og er önnur bók Yrsu sem er aðlöguð stóra tjaldinu. Viðfangsefni Yrsu eru oft af yfirnáttúrulegum eða hryllilegum toga og því kemur ekkert á óvart að hryllingsmyndaleikstjóri hafi orðið fyrir valinu þegar ákveðið var að laga bókina að kvikmyndaforminu.
Kuldi fjallar um Óðin, leikinn af Jóhannesi Hauki Jóhannessyni, sem hefur rannsókn á dularfullum dauðsföllum sem urðu á unglingaheimili áratugum fyrr. Fyrrverandi eiginkona Óðins er látin og virðist hafa látið sig falla fram af svölunum í blokkinni sinni. Hann sér því einn um unglingsdóttur þeirra, Rún, sem leikin er af Ólöfu Höllu Jóhannesdóttur, á sama tíma og hann reynir að komast til botns í því sem gerðist á unglingaheimilinu. Þessi framvinda á sér stað í nútímanum og samhliða fáum við að sjá hvað gerðist áratugum fyrr þegar unglingaheimilið var enn starfandi. Í framvindu fortíðarinnar fylgjumst við með atburðum frá sjónarhorni ungu konunnar, Aldísar Önnu Agötudóttur, leikinni af Elínu Hall, en hún vinnur á heimilinu við þrif og tiltekt. Strákar undir lögaldri, sem hafa brotið af sér en eru ekki nógu gamlir til að sitja í fangelsi, eru sendir á unglingaheimilið. Lilja og Veigar, Selma Björns og Björn Stefánsson, reka heimilið með harðri hendi og andrúmsloftið þar er síður en svo upplífgandi eða uppbyggjandi. Ekki bætir úr fyrir Aldísi að óhugnanleg vera virðist ásækja hana. Hún vaknar um miðja nótt við að bankað er á gluggann hjá henni og gömul vísa, sem hún hélt að aðeins mamma sín þekkti, dúkkar upp á heimilinu, vísa um skugga sem ætlar sér að éta hana. Andrúmsloftið í framvindunni sem á sér stað í nútímanum er að sama skapi ekki glaðlegt. Rún á erfitt með að vinna úr áfallinu sem hún varð fyrir við andlát móður sinnar og virðist ásýnd hennar ásækja bæði Rún og Óðin.
Nú hef ég ekki lesið bókina sem myndin er byggð á en ég get ímyndað mér að hún fjalli ítarlegar um rannsókn Óðins á atburðunum en kvikmyndaaðlögunin. Það þarf ekkert að vera slæm ákvörðun þar sem það gefur aðlöguninni færi á að einbeita sér frekar að hryllingnum og andrúmsloftinu. Kulda tekst, upp að vissu marki, að vekja hræðslu áhorfenda og sum atriði láta hárin rísa, sérstaklega í fyrri hluta myndarinnar. Það að horfa út í myrkan móa eftir bank á gluggann eða að sjá einhverju bregða fyrir úti í skúr er hrollvekjandi og þegar myndin hægir á sér og leyfir andrúmsloftinu og skelfingunni að byggjast upp virkar hún mjög vel. Því miður gengur restin af myndinni ekki jafn vel upp.
Fyrir það fyrsta er það leikurinn. Frammistaða leikaranna er alls ekki slæm en samtölin eru mörg svo ónáttúruleg að það er erfitt að taka þau alvarlega. Orðræða sem virkar vel á blaði gengur ekki alltaf upp þegar fólk talar upphátt og samtölin virka því oft mjög stirð. Atriði þar sem Alda og Einar Eyjólfsson, leikinn af Mikael Kaaber, sitja og spjalla saman í fjárhúsinu sker sig úr restinni af myndinni því þar er leikurinn áberandi náttúrulegri. Þau hálf-hvíslast á eins og þau séu í alvörunni að tala saman frekar en að fara með línur fyrir áhorfendur líkt og á leiksviði.
Annað atriði sýnir vel hvað orð á blaði aðlagast oft ekki vel því að vera lesin upp. Það er atriði þar sem Kristbjörg Kjeld gefur frá sér óp sem í fyrstu virðist vera af sársauka en breytist svo í: Aldís Anna Agötudóttir. Þetta atriði er sprenghlægilegt en virðist alls ekki eiga að vera það í samhengi sögunnar. Þetta er heldur ekki eina atriðið sem kallar fram hlátur frekar en hræðslu eða spennu en myndin virðist þó staðráðin í að vera mjög alvörugefin í gegn. Á sama tíma og ekki nokkurt atriði á að vera fyndið í Kulda er fullt af kjánalegheitum innan sögunnar sem verða enn kjánalegri þegar hún tekur sig svona alvarlega.
Sumt af því virðist einfaldlega stafa af því að myndin er aðlögun. Það eru atriði sem virka án efa vel þegar þau eru ímyndun lesanda en þegar þau eru sett fram á sjónrænan hátt þarf að nota brellur kvikmyndamiðilsins og augnaráð myndavélarinnar til þess að passa að áhrifin sem þau eiga að hafa skili sér. Þetta er til dæmis sérstaklega áberandi í ákveðnum atriðum sem tengjast skugganum sem ásækir Aldísi á unglingaheimilinu.
Það er líka synd hvað sagan er mikil formúla því það glittir stundum í tækifæri til að láta söguna taka skref í skrítnari eða sjúkari átt. Unglingaheimili fortíðarinnar er til dæmis mun áhugaverðara sögusvið heldur en grálitaður nútíminn og samband feðginanna. Selma Björns og karakter hennar, Lilja, er virkilega skemmtileg persóna og baksaga hennar, sem var víst dýpkuð fyrir myndina, hefði getað fengið mun meiri fókus ásamt undarlega manninum hennar, Veigari, forstöðumanni heimilisins. Það er kerfisbundið alið á ótta Íslendinga við tröll, vætti og andlit á glugga frá barnsaldri svo það hefði verið virkilega áhugavert að einblína meira á hryllinginn sem fylgir því að vera algjörlega einangruð á unglingaheimili úti í sveit þar sem snarruglað par ræður ríkjum.
Kulda tekst þó vel að undirbyggja þá kröppu beygju sem myndin tekur í lokin. Atriði sem á undan koma, sérstaklega þau sem snúa að Rún, eru sett í annað samhengi þegar hulunni er svipt af dularfullum atburðum sögunnar og það er sérstaklega gaman að lesa myndina í því nýja ljósi sem endirinn varpar á hana. Það sama gildir þó í tilfelli nútímans og fortíðarinnar að það væri gaman að sjá meiri dýpt í sögunni. Rannsókn Óðins á unglingaheimilinu væri t.d. hægt að gera mun áhugaverðari með því að fara nánar út í hvernig hann kemst að upplýsingum um þessi dularfullu dauðsföll, í stað þess að sýna hann bara stundum sitjandi með gömul dagblöð í kringum sig áður en hann rýkur út að taka viðtöl við fólkið sem passar að hann tali við innan framvindunnar. Vandamálið felst í því að það er verið að segja tvær sögur samhliða sem ganga kannski upp í 300 blaðsíðna bók en eru alltof samþjappaðar í 90 mínútna bíómynd. Hvorug sagan fær að njóta sín og við það verður mun augljósara hvernig atriði eru sett saman einungis til þess að þjóna framvindunni frekar en til dæmis að rannsóknin vindi náttúrulega upp á sig.
Það sem er áhugaverðast við Kulda er þó viðfangið sem hún velur til þess að knýja áfram hryllinginn. Oft er talað um að hryllingsmyndir endurspegli ótta samfélags hvers tíma og í tilfelli Kulda virðist það vera ótti samfélagsins við ungmenni sem ræður ríkjum. Innan söguheimsins eru það börn og ungmenni sem valda ótta, nýfædd upp í 18 ára. Í fréttum raunveruleikans heyrum við af ungmennum sem fara um á rafskútum vopnuð hnífum og hrella heiðvirða borgara og virðist komandi kynslóð þessa lands ætla sér að leiða samfélagið til glötunar. Kuldi dregur þessar staðhæfingar ekki í efa heldur veltir fyrir sér hvort að þetta geti ekki bara staðist? Börn myndarinnar afsanna allavega ekki þessa kenningu.
Aftur, þá hefði verið virkilega skemmtilegt ef myndin hefði farið lengra með þessar hugmyndir um börn sem holdtekju illskunar en Kuldi nær ekki að brjótast út úr þessari hefðbundnu hrollvekjukvikmyndaaðlögun sem hún er föst í. Það er nefnilega margt sem virkar í Kulda og hún gengur upp að vissu marki sem venjubundin aðlögun. Stærsta vandamálið er bara að það glittir í svo margt sem væri hægt að fara lengra með, eftir áhugaverðari slóðum.
HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR