spot_img

Svona lítur RIFF 2023 út

Tuttugasta RIFF hátíðin hefst 28. september og mun standa til 8. október í Háskólabíói. Opnunarmyndin er Tilverur, frumraun Ninnu Pálmadóttur og lokamyndin er Poor Things eftir Yorgos Lanthimos sem hlaut Gullna ljónið í Feneyjum fyrr í mánuðinum.

Sýndar verða yfir 80 kvikmyndir í fullri lengd auk fjölda stuttmynda frá alls 63 löndum. Fjöldi Norðurlandafrumsýninga er á RIFF og margar myndanna koma hingað frá virtustu hátíðum í heimi s.s. Cannes, Feneyjum, Toronto og Rotterdam.

Frumsýningar

RIFF frumsýnir fjöldamargar myndir þetta árið og verður meðal annars Norðurlandafrumsýning á Anselm – kliður tímans (Ansem Das Rauschen Der Zeit) eftir Wim Wenders. Þá verður einnig Segulmagnaða heimsálfan (Antarctica calling) eftir Luc Jacquet, heiðursgest RIFF, frumsýnd á Norðurlöndunum.

Fjöldamargar myndir verða einnig sýndar í fyrsta skipti á Íslandi líkt og Inside the Yellow Cocoon Shell eftir Thien An Pham og Into the Ice eftir Lars H. Ostenfeld.

Nánar má kynna sér dagskrána á vef RIFF.

Heiðursgestir

Heiðursgestir RIFF árið 2023 eru:

Isabelle Huppert í Elle eftir Paul Verhoeven.

Isabelle Huppert

Isabelle Anne Madeleine Huppert (f. 1953) er stórstjarna í franskri kvikmyndagerð en ferill hennar spannar rúm 50 ár og á hún allt að 150 hlutverk í kvikmyndum og sjónvarpi að baki.

Ferill Huppert er stjörnum prýddur af viðurkenningum sem endurspegla einstaka hæfileika hennar. Hún vann tvisvar verðlaun sem besta leikkona á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir Violette Nozière (1978) og The Piano Teacher (2001). Huppert hlaut alþjóðlegt lof fyrir frammistöðu sína í Elle (2016), sem færði henni bæði Golden Globe verðlaun og Óskarsverðlaunatilnefningu.

Til marks um viðvarandi áhrif hennar, útnefndi New York Times Isabelle Huppert næstbesta leikara 21. aldarinnar og á 72. kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2022 hlaut hún heiðursgullbjörninn sem vitnisburð um ævilanga hollustu hennar við leiklistina.

Luc Jaquet.

Luc Jacquet

Franski heimildarmyndagerðarmaðurinn Luc Jacquet (f. 1967) er handhafi umhverfisverðlauna RIFF, Græna lundans. Með einbeittum vilja og brennandi ástríðu fyrir undrum jarðar, fara myndir Jacquets með áhorfendur í stórkostlegt ferðalag til villtustu vistkerfa plánetunnar.

Jacquet fékk snemma áhuga á náttúrunni og dýraríkinu sem leiddi til þess að hann tók meistarapróf í dýralíffræði og vistfræði. Í einum af leiðöngrum sínum tók Jacquet að sér hlutverk myndatökumanns fyrir kvikmynd Hans-Ulrich Schlumpf, Þing mörgæsanna (1993). Þetta markaði upphafið að ástríðu hans fyrir heimildarmyndagerð og kveikti áhuga hans á því að sýna hinn náttúrulega heim á hvíta tjaldinu.

Síðan þá hefur einlægur áhugi Jacquets á umhverfismálum verið áberandi í margverðlaunuðum heimildarmyndum hans, þar á meðal Once Upon A Forest (2015), Ice and the Sky (2015), og March of the Penguins (2005), sem hlaut Óskarsverðlaun sem besta heimildarmyndin.

Vicky Krieps.

Vicky Krieps

Í desember síðastliðnum var þýsk-lúxemborgska stórleikkonan Vicky Krieps (f. 1983) heiðruð sem besta leikkonan á 35. Evrópsku kvikmyndaverðlaununum sem haldin voru í Reykjavík fyrir túlkun sína á Elísabetu Austurríkiskeisaraynju í Corsage (2022) eftir Marie Kreutzer.

Ferill Krieps byrjaði að blómstra um miðjan síðasta áratug þegar hún hreppti hvert hlutverkið á fætur öðru í ýmsum stórum kvikmyndaverkefnum. Hún sýndi hæfileika sína í The Young Karl Marx (2017) og Gutland (2019), en það var mögnuð frammistaða hennar í Óskarsverðlaunamyndinni Phantom Thread (2017) eftir Paul Thomas Anderson sem skaut henni upp á stjörnuhimininn.

Hrífandi nærvera hennar á hvíta tjaldinu sást bersýnilega í myndunum Bergman Island (2021) og More Than Ever (2022), næstsíðustu mynd Gaspard Ulliels. Í nýjustu mynd sinni leitaði Krieps aftur til þýska upprunans, þegar hún fór með titilhlutverkið í Ingeborg Bachmann – Journey into the Desert (2023), í leikstjórn hinnar goðsagnakenndu þýsku kvikmyndagerðarkonu Margarethe von Trotta.

Luca Guadagnino.

Luca Guadagnino

Luca Guadagnino (f. 1971) er ítalskur kvikmyndagerðarmaður þekktur fyrir einlægar, hjartnæmar og listrænar kvikmyndir. Guadagnino sló í gegn með rómantísku dramamyndinni I Am Love (2009), með Tildu Swinton í aðalhlutverki, sem hlaut alls 14 mikils metin kvikmyndaverðlaun. Þetta markaði upphafið af farsælu samstarfi þeirra tveggja, sem hélt áfram með margrómuðum myndum eins og A Bigger Splash (2015) og endurgerð á Suspiria eftir Dario Argento (2018).

Eitt af frægustu verkum Guadagnino er rómantíska klassíkin Call Me By Your Name (2017), sem hlaut Óskarsverðlaun 2018 fyrir besta aðlagaða handritið. Kvikmyndin gegndi lykilhlutverki við að skjóta aðalleikaranum Timothée Chalamet upp á stjörnuhimininn, og hélt samstarf þeirra Guadagnino áfram í nýjustu mynd hans, Bones and All (2022). Guadagnino heldur áfram að færa áhorfendum hrífandi kvikmyndafrásagnir en nýjasta mynd hans, Challengers með Zendaya í aðalhlutverki, verður frumsýnd á næsta ári. Í millitíðinni er hann að leggja lokahönd á Queer, með Daniel Craig, á Ítalíu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR