Japanskar samúræjamyndir og íslenskt bransahark í Bíótekinu

Bíótekið verður með næstu sýningar í Bíó Paradís, sunnudaginn 25. febrúar. Þá verða sýndar tvær japanskar bardagamyndir, Ken og Kiru, eftir Kenji Misumi og um kvöldið heimildamynd Gríms Hákonarsonar, Varði fer á vertíð.

Dagskráin er sem hér segir:

15:00
Kiru (1962) – 71 mínúta

Stórmerkileg kvikmynd eftir Kenji Misumi sem var þekktur fyrir sérstakan stíl og næmni. Kvikmyndin er sú fyrsta í sverðatrílógíu Misumi sem samanstendur af Kiru, Ken og Kenki, þremur sjálfstæðum sögum sem eru á dagskrá Bíóteksins. Upprunalega titilinn má þýða bókstaflega sem „sverðskorinn“. Myndinni hefur verið lýst sem einlægu en líka grótesku listaverki, fyrstu sverðabardagamyndinni sem snertir á hálf-freudískum hneigðum samúræjamenningarinnar. Aðalleikari myndarinnar, Raizo Ichikawa, er nokkurs konar James Dean Japana. Vinsæll, fallegur, dularfullur og þunglyndur, en hann féll einnig frá ungur að aldri. Þunglyndi leikarans fagra er talið gefa þessari kvikmynd aukinn sannfæringarkraft í túlkun angistar aðalsöguhetjunnar. Kvikmyndin er sýnd í samstarfi við Sendiráð Japan á Íslandi.

Nökkvi Jarl Bjarnason, kennari í japönskum fræðum við Háskóla Íslands verður með kynningu fyrir myndina.

17:00
Ken (1964) – 94 mínútur

Ken er önnur kvikmyndin í sverða-trílógíu Kenji Misumi. Titilinn mætti þýða sem einfaldlega „sverðið“ en myndin er óvenjuleg af samúræjakvikmynd að vera vegna þess að sögusviðið er í samtímanum en ekki í fornöld eins og tíðkaðist. Hún þykir afar fallega gerð og er í sterkum svarthvítum tónum. Aðalleikarinn, Raizo Ichikawa, fer á kostum í stórkostlegum bardagasenum og svitastorknum nærmyndum. Í myndinni er nútíminn gagnrýndur fyrir of mikið frelsi og að bardagalistin sé síðasta vígið til að rækta með sér andlegan styrk. Kvikmyndin er byggð á stuttri sögu eftir frægan japanskan rithöfund, Mishima. Sagt hefur verið að myndin sé fullkomið samspil milli beggja höfunda hennar því á meðan Mishima fangar fegurðina í dauðanum fangar Misumi erfiðleika lífsins. Kvikmyndin er sýnd í samstarfi við Sendiráð Japan á Íslandi.

19:15
Varði fer á vertíð (2001) – 42 mínútur
Goðsagnakennd heimildamynd eftir Grím Hákonarson um Varða, atvinnulausan tónlistarmann í miðborg Reykjavíkur, sem ákveður að ganga til liðs við sveitaballahljómsveitina Tópaz frá Keflavík til að drýgja tekjurnar. Kvikmyndin veitir einstaka innsýn í harkið og tíðarandann í þessum kima íslenska tónlistarbransans.

Grímur Hákonarson og Hallvarður Ásgeirsson munu spjalla við áhorfendur eftir sýninguna.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR