Fullt hús á VARÐI FER Á VERTÍÐ

Bíótekið sýndi síðasta sunnudag heimildamynd Gríms Hákonarsonar, Varði fer á vertíð (2001). Húsfyllir var á sýningunni og komust færri að en vildu.

Bíótekið segir á Facebook síðu sinni:

Varði fer á vertíð sló einnig rækilega í gegn og komust færri að en vildu. Hallvarður Ásgeirsson og Grímur Hákonarson voru í lokin með spurt og svarað og margar spurningar brunnu á áhorfendum. Útkoman var bæði einlæg og skemmtileg og það var frábært að sjá hljómsveitina Tóbaz í salnum.

Grímur Hákonarson segir svo frá á Facebook síðu sinni í tengslum við sýninguna:

Það var um sumarið árið 2000 sem ég gerði heimildamyndina Varði fer á vertíð með Hallvarði vini mínum. Við vorum báðir atvinnulausir, ungir listamenn og vissum ekki hvað við áttum að eyða sumrinu í. Varði fékk þá hugmynd að ganga til liðs við popphljómsveit frá Keflavík og spila á böllum yfir sumarið. Ég fylgdi honum eftir með myndavélina og úr varð þessi kvikmynd sem verður sýnd á sunnudaginn í Bíó Paradís.

Þetta var á þeim tíma þegar digitaltæknin var að ryðja sér til rúms. Hægt var að fá tiltölulega ódýrar, litlar myndavélar en myndgæðin voru boðleg fyrir sjónvarp og kvikmyndahús. Sjónvarpsstöðin Skjár einn hafði nýlega verið stofnuð og fjöldi ungs fólks var að framleiða ódýrt sjónvarpsefni með þessum litlu vélum, m.a. margir af mínum kollegum. Dogma-hreyfingin hafði komið fram á sjónarsviðið nokkrum árum fyrr þar sem handheldur og hrár tökustíll var í algleymingi og áhersla lögð á innihaldið fremur en umbúðirnar. Varði fer á vertíð varð til í þessu umhverfi; myndin er mjög hrá og kostaði nánast ekki neitt og styrkleikar hennar felast í sögunni og persónunum.

Á þessum tíma skiptist íslenski tónlistarbransinn í tvær fylkingar. Annars vegar voru það “listrænu” böndin í Reykjavík og hinsvegar popphljómsveitir eða sveitaballahljómsveitir. Listrænu böndin stunduðu nær eingöngu tónleikahald í borginni og reyndu síðan að koma sér á framfæri erlendis. Bönd eins og Sykurmolarnir og Sigur Rós spruttu upp úr þeirri senu. Popphljómsveitirnar spiluðu á böllum hringinn í kringum landið og stóluðu eingöngu á innanlandsmarkað. Vænlegasta leiðin til að lifa á tónlist á Íslandi var að ná árangri á þeim markaði. Það var ákveðinn rígur á milli þessara tveggja sena og skilningsleysi á báða bóga. Við Varði tilheyrðum báðir þessari Reykjavíkursenu og vorum með ákveðnar skoðanir á sveitaballabransanum sem að koma vel fram í myndinni.

Þegar við vorum að gera myndina þá datt okkur ekki í hug að hún myndi vekja svona sterk viðbrögð. Ég var 23ja ára óþekktur og ómenntaður leikstjóri og var ekki einu sinni viss um hvað ég ætlaði að gera í lífinu. Þetta var fyrsta myndin mín sem var sýnd í Ríkissjónvarpinu og í raun og veru myndin sem að kom mér á sporið í kvikmyndaheiminum. Þrátt fyrir að hún hafi bara verið sýnd í tvö skipti á Rúv (þetta var á þeim tíma þegar maður þurfti að vera mættur fyrir framan sjónvarpið á réttum tíma og ekki hægt að horfa á neitt eftirá) þá vakti hún mikla athygli og mikið umtal. Fólk tók hana upp á VHS-spólur og deildi á milli sín og hún hefur öðlast ákveðinn “cult-status” í samfélaginu.

Í öll þessi ár hefur fólk verið að hafa samband við mig og spyrja hvar það geti séð myndina. En vegna samkomulags sem ég gerði við meðlimi hljómsveitarinnar Tópaz á sínum tíma þá hefur hún ekki verið aðgengileg. Þó ég sé stoltur af myndinni þá er ég ekki stoltur af þeim vinnubrögðum sem ég viðhafði á sínum tíma og sérstaklega gagnvart hljómsveitinni Tópaz. En stundum helgar tilgangurinn meðalið í listinni og gerir hana betri og ég vil meina að það sé stór þáttur í góðri útkomu myndarinnar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR