Nýuppgert eintak af MORÐSÖGU, FITZCARRALDO og Ham í Bíótekinu

Síðustu sýningar Bíóteksins þennan veturinn bera heitið Brjálæði í frumskógi og efri og neðri byggðum Reykjavíkur.

Dagskráin sunnudaginn 21. apríl er svona:

14:30
Fitzcarraldo (1982) – 158 mínútur
Werner Herzog leikstýrir og skrifar handrit þessarar stórhuga kvikmyndar um óperuelskandi nýlenduherra í Perú. Kvikmyndin segir frá ótrúlegu basli hans við að safna peningum til að stofna óperuhús í Iquitos, bæ í frumskógi Perú. Aðalhlutverkið er í höndum Klaus Kinski og fara margar sögur af stormasömu sambandi hans við leikstjóra og aðra meðleikendur á meðan á tökum stóð. Jafnvel svo að foringi Machiguenga-ættbálksins, sem skipaði stóran hluta af leikarahópnum, bauð Herzog að drepa Kinski fyrir hann. Það var þó afþakkað sem betur fer.

17:30
Morðsaga (1977) – 90 mínútur
Morðsaga er sálfræðilegur spennutryllir um fjölskylduharmleik en hún markaði tímamót í íslenskri kvikmyndasögu sem síðasta óháða íslenska kvikmyndin þar sem hún var gerð árið fyrir stofnun Kvikmyndasjóðs. Hún er því afar hugrakkt og áræðið höfundarverk sem deilir á alþjóðlegan og aldargamlan fjölskyldudjöful. Kannski mætti líta á kvikmyndina sem vorboða íslenska kvikmyndavorsins. Myndin er byggð á handriti eftir Reyni Oddsson og er jafnframt í hans leikstjórn og fjallar um óhugnanlega atburði á heimili efnaðrar fjölskyldu í Reykjavík. Kvikmyndasafn Íslands hefur látið færa myndina á stafrænt form.

19:30
HAM, lifandi dauðir (2001) – 85 mínútur
Heimildamynd eftir Þorkel Harðarson, Örn Marino Arnarson og Þorgeir Guðmundsson um hina goðsagnakenndu hljómsveit Ham sem hefur verið starfandi frá árinu 1988. Tilefnið að gerð myndarinnar var endurkoma hljómsveitarinnar sumarið 2001 eftir nokkurra ára hlé, til að hita upp fyrir þýsku hljómsveitina Rammstein í Laugardalshöll. Heimildamyndin spannar langt tímabil í sögu hljómsveitarinnar því hún byggist einnig að hluta til á viðtölum úr annarri heimildamynd, Ham í Reykjavík, sem kom út í 100 eintökum á VHS-spólum árið 1991. Óttar Proppé og Sigurður Björn Blöndal munu segja örlagasögur frá hljómsveitarbrölti og kvikmyndagerð ásamt því að svara spurningum áhorfenda eftir sýninguna.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR