Íslenskar myndir í brennidepli á Nordatlantiske Filmdage í Kaupmannahöfn

Hin árlega hátíð Nordatlantiske Filmdage fer fram í sjöunda sinn dagana 29. febrúar til 10. mars í menningarhúsinu Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Í ár verður lögð sérstök áhersla á þá farsælu þróun sem átt hefur sér stað í íslenskri kvikmyndagerð upp á síðkastið.

Á síðastliðnum árum hefur átt sér stað mikil uppsveifla í íslenskri kvikmyndagerð, bæði hvað varðar fjölda kvikmynda, en einnig hvað varðar kvikmyndaleikstjóra – og hafa fjölmargar þeirra vakið eftirtekt á erlendum kvikmyndahátíðum víðast hvar um heiminn, segir dagskrárstjóri hátíðarinnar Birgir Thor Møller og bætir við: Við viljum hylla þessa velgengni með því að sýna fáeinar af myndunum, en einnig ræða við leikstjóra þeirra.

Íslensku kvikmyndirnar á dagskrá hátíðarinnar í ár eru Á ferð með mömmu eftir Hilmar Oddsson, Þorpið í bakgarðinum eftir Martein Þórsson, Svar við bréfi Helgu eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttir, Villibráð eftir Elsu Maríu Jakobsdóttir, Vasulka áhrifin eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttir og Soviet Barbara: The Story of Ragnar Kjartansson in Moscow eftir Gauk Úlfarsson.

Hilmar Oddsson, Marteinn Þórsson, Hrafnhildur Gunnarsdóttir og Elsa María Jakobsdóttir munu spjalla um kvikmyndir sínar að lokinni sýningu, en hinar kvikmyndirnar verða kynntar af Birgi Thor Møller, dagskrárstjóra og kvikmyndafræðingi.

Kvikmyndin 101 Reykjavík verður einnig sýnd. Hana gerði Baltasar Kormákur árið 2000 eftir samnefndri bók Hallgríms Helgasonar en Hallgrímur hefur nýverið opnað málverkasýningu á Norðurbryggju sem stendur út maí.

Þar að auki kemur kemur Helena Jónsdóttir og sýnir stutt myndverk og spjallar um Physical Cinema, sem hún mun einnig kynna á Stockfish-hátíðinni í Reykjavík í vor.

Eins og önnur ár verður einnig hægt að sjá kvikmyndir frá Grænlandi og Færeyjum á hátíðinni.

Kvikmyndahátíðin Nordatlantiske Filmdage er styrkt af Det Danske Filminstitut, NAPA í Grænlandi og sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn, og hún er unnin í samstarfi við m.a. Øst for Paradis, Film.gl, Filmshúsið í Færeyjum og Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR