Magnús Ragnarsson hættir hjá Símanum

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri Miðla hjá Símanum hefur óskað eftir að láta af störfum hjá Símanum. Þetta kemur fram í tilkynningu Símans til Kauphallar Íslands.

Þar segir ennfremur meðal annars að Magnús hafi setið í framkvæmdastjórn félagsins frá árinu 2014 auk þess að hafa áður starfað hjá fyrrum dótturfélagi Símans Skjánum á árunum 2004-2007. Magnús mun starfa hjá félaginu til mánaðamóta og í framhaldinu verða félaginu innan handar í verkefnum sem snúa að sjónvarpsþjónustu eins og þörf krefur.

“Magnús hefur verið í forystuhlutverki Símans á sviði íslenskrar miðlunar á undanförnum árum og leitt algera umbyltingu í rekstri sjónvarps okkar. Auk lykilhlutverks hans við umbreytingu og eftirtektarverðum vexti miðla Símans á undanförnum árum hefur Magnús einnig leitt vöruþróun og nýsköpun félagsins á fjölmörgum öðrum sviðum,“ segir Orri Hauksson forstjóri Símans í sömu tilkynningu.

Magnús segir síðasta áratig hafa verið ótrúlega krefjandi og skemmtilegan. „Það er óvíða sem samkeppni er eins virk og í fjölmiðlum og fjarskiptum og ég skil afar sáttur við frábæra stöðu mála hjá Símanum. Miðlun hefur vaxið frá því að vera lítil hliðarbúgrein yfir í að verða í árslok stærsta tekjustoð Símans. Ég kveð Símann því með söknuði og þakklæti en einnig tilhlökkun yfir því sem fram undan er.“

Í viðtali við Vísi segir Magnús að hann muni fylgjast spenntur með því sem gerist á fjölmiðlamarkaði á næstu misserum. „Ég tel þetta verði eins og flest ár, að það verði einhverjar miklar sviptingar þar.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR