Ragnar segir í stuttu spjalli við Klapptré að tökur hafi verið skipulagðar síðasta haust og gert ráð fyrir að þær myndu hefjast í apríl. Síðan hafi þessi staða komið upp og Jón Gnarr nú kominn í framboð til forseta Íslands.
“Jón er auðvitað þekktur maður og þarf kannski ekki mikið að kynna sig,” segir Ragnar. “Þetta hefur ekkert truflað undirbúninginn og ég á ekki von á því að svo verði á tökutímanum. Ég vona það allavega, en maður auðvitað veit aldrei, þetta er óvissutímar,” bætir hann við og má greina glott gegnum símann. “Mig grunar að hann hafi undirbúið þetta vel og ég veit að hann er með gott fólk með sér.”
Tökudagar eru 60 og tökutímabil er frá 23. apríl til 19. júlí. Persóna Jóns, Felix, er í hverri senu og Jón því upptekinn 12 tíma á dag í tökum. Tökur fara fram að mestu leyti á höfuðborgarsvæðinu. Leikmynd hefur verið byggð í stúdíói True North við Fossaleyni. Þættirnir verða tíu talsins og um 30 mínútur hver.
Ragnar segir svo frá á Facebook um verkefnið:
Nú eru að bresta á tökur á stærsta verkefni sem ég hef leikstýrt til þessa. Þáttaröðina FELIX & KLARA skrifaði ég með eðalmenninu og snillingnum Jóni Gnarr, en hann leikur annað titilhlutverkið á móti þjóðargerseminni og engli verkefnisins Eddu Björgvinsdóttur.
Þá lýkur fimm ára þróun í góðri samvinnu við RÚV og meðframleiðendur okkar Lumiere í Belgíu. Kostnaðurinn við þetta verk er vel yfir hálfan milljarð og skapar á annað hundrað manns atvinnu tímabundið fram eftir ári. Mun það – ef vel tekst til – bera hróður íslenskrar menningar, samfélags og tungu víða um heim en verkið hefur nú þegar verið forselt til tíu alþjóðlegra sjónvarpsstöðva.
Hvert verkefni í íslenskri kvikmyndagerð er nýsköpun. Hugmyndin er neistinn og handritið útsæðið. Kvikmyndasjóður leggur til áburðinn og sparkar því á ráspól. Svo er það framleiðandans að laða að erlent fjármagn og selja, sem Davíð Óskar Ólafsson hefur gert af stakri prýði. Með okkur er einvala lið listrænna stjórnenda, leikara og tökuhóps og getum við ekki beðið eftir að sýna ykkur afraksturinn á RÚV um eða eftir næstu áramót
Áfram íslensk kvikmyndagerð!