Prufuþáttur af „Heimsendi“ gerður fyrir bandaríska sjónvarpsstöð

heimsendirBandaríska áskriftastöðin TBS hefur óskað eftir svokölluðum „pilot“ eða prufuþætti af amerísku útgáfunni af Heimsendi, íslenskri sjónvarpsþáttaröð í leikstjórn Ragnars Bragasonar. Þættirnir eru byggðir á handriti Jonathan Ames eftir íslensku þáttunum. Með aðalhlutverkin í „pilot“-þættinum fara leikararnir Hamish Linklater og Wanda Sykes.

RÚV greinir frá:

Afþreyingavefurinn Deadline greinir frá þessu í nótt. Fyrir tveimur árum kom fram að önnur áskriftastöð, Showtime, hefði hug á því að endurgera íslensku þættina. Forsvarsmenn stöðvarinnar fengu áðurnefndan Ames til að skrifa handrit upp úr þáttunum en hugmyndin virðist ekki hafa heillað nægjanlega og hefur TBS nú tekið við henni.

Í amerísku útgáfunni er aðalsöguhetjan enskukennari sem fær taugaáfall og er lagður inn á geðsjúkrahús. Þar fer honum að líða eins og „heilbrigðum“, hann fer að efast um kerfið og hvernig er komið fram við sjúklinga. Þetta verður síðan til þess að hann leiðir uppreisn sjúklinga á geðsjúkrahúsinu.

Á vef Deadline kemur fram að leikstjóri bandaríska þáttarins verði Alan Poul sem kom meðal annars að gerð sjónvarpsþáttaraðarinnar Newsroom.  Á vef Deadline er haft eftir dagskrárstjóra TBS að forsvarsmenn hennar geti ekki beðið eftir að sjá útkomuna.

Íslensku þættirnir hlutu mikið lof hér á landi og hrepptu meðal annars fern Edduverðlaun. Með aðalhlutverkin fóru þau Halldór Gylfason, Halldóra Geirharðsdóttir, Brynhildur Guðjónsdóttir og Jóhann Sigurðarson. Þættirnir voru sýndir á Stöð 2 og voru framleiddir af Saga Film.

Sjá nánar hér: Íslenskur Heimsendir í amerískt sjónvarp

Sjá eldri frétt Klapptrés um málið hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR