spot_img
HeimGagnrýniFréttablaðið um GULLREGN: Ó­nýtt fólk

Fréttablaðið um GULLREGN: Ó­nýtt fólk

-

„Ádeilutónn Gullregns hljómar jafn skýrt tæpum áratug eftir að það sló í gegn í Borgarleikhúsinu,“ segir Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðinu um kvikmynd Ragnars Bragasonar.

Þórarinn skrifar meðal annars:

Persónan Indíana er ekki aðeins manneskja heldur gróteskur og útblásinn holdgervingur flestra okkar verstu hvata og tilfinninga; eigingirni, græðgi, öfundsýki, haturs. Hún er eyðileggingarafl, skrímsli sem má ekkert aumt sjá án þess að sparka í það, ekkert gott sjá án þess að reyna að eyðileggja það. Fyrir utan auðvitað gullregnið sem vex í garðinum hennar í Fellunum.

Gullregn eldist fyrst og fremst jafn vel og raun ber nú vitni í bíó vegna þess að í grunninn fjallar það fyrst og fremst um ónýtt fólk. Skemmda einstaklinga sem viðhalda fúnum stofni sínum með því að eyðileggja út frá sér.

Einangruð, ónýt og bitur hefst Indíana við í blokkaríbúð í Fellunum og lifir á bótum þótt ekkert sé að henni og Unnari, syninum sem hún breytti strax eftir fæðingu í féþúfu þegar hún tryggði sér áskrift að umönnunarbótum með því að klæða hann í fjölþættan vanda líkamlegra og andlegra kvilla.

Unnar og nágranninn Jóhanna Einarsdóttir, formaður húsfélagsins, eru helstu tengiliðir Indíönu við umheiminn um leið og þau eru handbendi hennar, þrælar og andlegir stuðpúðar sem hún fær útrás sinna ömurlegustu hvata á.

Átakanleg tragikómedía

Þessi óhappaþrenna er sorglega fyndin í allri sinni eymd og volæði og þegar persónur og leikendur ná hæstu flugi er Gullregn í raun drepfyndin gamanmynd. Ef hún væri ekki svona átakanlega raunsönn og dapurleg.

Það er svo auðvelt að hata og fordæma Indíönu en Ragnar sleppir manni ekki alveg svo auðveldlega vegna þess að auðvitað eru djúpstæðar ástæður fyrir því að hún er eins og hún er og vesalings Unnar er líklega í það minnsta þriðja kynslóð heimaræktaðs aumingja sem á aldrei séns í lífinu.

Jóhanna er síðan ljósið í myrkri félagslegrar eymdarinnar. Alger andstæða Indíönu, raunverulegur og sárþjáður öryrki sem þó horfir alltaf á björtu hliðarnar, sér spennandi möguleika í öllu og finnst meira að segja ofboðslega gaman þegar útlendingar flytja allan heiminn með sér í stigaganginn.

Vanir leikarar, vönduð vinna

Sigrún Edda Björnsdóttir, Hallgrímur Ólafsson og Halldóra Geirharðsdóttir skila öll sömu hlutverkum, Indíönu, Unnars og Jóhönnu, sem þau léku á sviðinu með sóma þótt Halldóra sýni magnaðan raðsenuþjófnað með kostulegum tilþrifum. Hún stígur stirðan listdans milli hins kómíska og tragíska framan af en setur undir lokin í fimmta gríngírinn þegar Jóhanna verður ofboðslega afhjúpandi hreyfiafl í sorgarsögunni.

Halldóra er þó ekki eini senuþjófurinn undir gullregninu þar sem pólska leikkonan Karolina Gruszka glansar í öllum sínum atriðum í hlutverki löndu sinnar, Daniellu, sem fangar hjarta Unnars með afdrifaríkum afleiðingum og auðvitað fyrst og fremst Indíönu til ómældrar óánægju.

Einhverjir geta sjálfsagt látið fara í taugarnar á sér að þess sjáist merki að Gullregn er selflutt af sviði í kvikmynd en í raun kemur þetta ekki að sök og þessi tilfinning gæti verið sprottin af vitneskjunni um þetta frekar en aðlöguninni sjálfri sem er til fyrirmyndar.

Jóhanna og Unnar koma inn í og út úr íbúðinni sem leiksvið væri og ekkert óeðlilegt við það í ljósi aðalleikkonunnar sem þar liggur í lazyboy og öll atburðarásin hverfist um.

Atburðarásin sem leiðir til hádramatískra endalokanna virkar ef til vill full hröð en þegar haft er í huga að stórskemmdar og varanlega skaddaðar manneskjur eiga í hlut er í raun og veru ekkert útilokað.

Sjá nánar hér: Ó­nýtt fólk

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

ÞAÐ NÝJASTA Á KLAPPTRÉ

Fáðu nýjasta efnið á Klapptré í pósthólfið þitt tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum.

Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

NÝJUSTU FÆRSLUR