spot_img

Guðný Halldórsdóttir: Þú þarft að skemmta fólki en ekki bara vera með tóma hægðatregðu og leiðindi

Guðný Halldórsdóttir ræddi við Lestina á Rás 1 um Karlakórinn Heklu og mikilvægi þess að gera myndir sem skemmta fólki. Myndin verður sýnd á sérstakri samsöngssýningu í Bíó Paradís 19. mars kl.17.

Segir á vef RÚV:

Í desember árið 1992 flykktust Íslendingar í Háskólabíó, veltust um af hlátri og felldu jafnvel nokkur tár þegar kvikmyndin Karlakórinn Hekla var frumsýnd. Myndin, sem á stóran sess í hjörtum þjóðarinnar, fjallar um samnefndan karlakór sem leggur land undir fót eftir sviplegt fráfall söngstjórans. Guðný Halldórsdóttir skrifaði handritið og leikstýrði myndinni sem sló í gegn hér á landi og vakti líka mikla lukku á Írlandi og í Noregi.

Myndin er tekin upp í Hveragerði og þaðan hélt tökulið til Svíþjóðar og Þýskalands, auk þess sem hluti myndarinnar var tekinn um borð í skipi. Guðný segir í samtali við Lestina á Rás 1 að það sé margt eftirminnilegt við tökurnar. Á milli landa og landshluta ferðaðist þrjátíu manna kvikmyndatökulið auk þess sem leikarahópurinn var afar stór, þrjátíu manna kór og fullt af leikurum. „Þetta var flókin framkvæmd en hún gekk upp,“ segir Guðný sem leit í baksýnisspegilinn í tilefni þess að það á að sýna myndina í Bíó Paradís á sunnudag.

Besta ákvörðun sem Kristján Jóhannsson hefur tekið varð til þess að Garðar Cortes fékk hlutverkið

Upprunalega stóð til að Kristján Jóhannsson færi með aðalhlutverk myndarinnar. Það var búið að gera tökuáætlun í kringum hann, sem þá var að syngja í óperuhúsum um heim allan, en viku fyrir tökur dró Kristján þátttöku sína til baka vegna annríkis. Þá var brugðið á það ráð að hringja í Garðar Cortes sem þáði hlutverkið. „Þessi elska stekkur í þetta og þetta var einhver besta ákvörðun sem Kristján Jóhannsson hefur tekið. Garðar fékk rulluna,“ segir Guðný sem segir þetta hafa verið gæfulega þróun mála. „Hann gerir þetta svo vel og er svo sætur maður.“

Breytti handritinu í að Kristján væri veikur og karlakórinn kæmi í staðinn
Kristján Jóhannsson ber þó á góma í myndinni. Glöggir áhorfendur minnast senu sem tekin er Þýskalandi þar sem hópurinn er á leið á tónleika með söngvaranum sem svo er veikur og kemst ekki.

Atriðinu var breytt í myndinni eftir að Kristján dró sig úr verkefninu en undirbúningur sem hafði átt sér stað krafðist þess að handritinu væri breytt án þess að skrifa hann alveg út. „Það kemur þarna kona sem segir: því miður er Kristján veikur en þið munið heyra í íslenskum karlakór,“ segir Guðný um lausnina. „Ég varð að breyta handritinu því þetta var of knappur tími. Við vorum búin að undirbúa svo mikið, búa til stórt skilti sem á stóð: Kristján Jóhannsson, sem tók yfir óperuhúsið í Achen í Þýskalandi svo ég bætti bara inn í. Maður reddar sér.“

„Ég var svo hrædd um að þeir yrðu fullir allan tímann“

Að velja saman kórinn var vandasamt verk en þar á meðal eru vinir foreldra Guðnýjar, þeirra Halldórs og Auðar Laxness, faðir Diddúar sem kemur fram í myndinni og svo fleiri menn sem Guðný lýsir sem yndislegum körlum sem sungu vel og hún treysti. En Guðný var dálítið hrædd um að þeir myndu líta á tökuferðina sem skemmtiferð. „Þegar það eru margir karlar saman í útlöndum þá eru þeir dálítið fullir og ég var svo hrædd um að lenda í því að þeir yrðu fullir allan tímann.“

„Ég brotnaði saman og hugsaði: ég get þetta ekki“

Þegar hópurinn mætti á tökustað í sænska smábænum Tomelilla, sem Guðný segir að sé mjög púkalegur staður í Svíþjóð, voru söngvararnir flestir við skál. „Þá voru þeir of fullir allir, þeir stóðu ekki sumir,“ rifjar Guðný upp. Henni leist alls ekki á blikuna þegar þarna var komið við sögu. „Ég brotnaði saman og hugsaði: ég get þetta ekki, ég bara get þetta ekki sko. Ef ég ætla að vera með þrjátíu karla hérna á skallanum þá get ég þetta ekki. En síðan kom þetta ekki fyrir aftur.“ Eftir þetta mættu allir allsgáðir á tökustað.

Slekkur þegar karlakór hljómar í útvarpinu

Þó að myndin fjalli um karlakór er það alls ekki tónlist sem leikstjórinn hlustar sjálf á. „Mér finnst hún í raun alveg hrikalega leiðinleg og ég alveg slekk ef ég heyri í karlakór,“ segir hún.

Kveikjan að sögunni kom því ekki frá dálæti hennar á störfum karlakóra heldur sögu sem Þorkell Jóelsson, fyrrum nágranni hennar, sagði henni. „Hann varð veðurtepptur heila nótt, hafði verið í karlakóraferð með karlakórnum Stefni og sagði mér alla ferðasöguna á held ég átta klukkutímum. Þar fékk ég humyndina,“ segir hún.

Í þeirri ferð týndist stjórnandinn vegna drykkju og Guðný notaði þann hluta sögunnar í handritið. „Það er það eina sem ég tók beint upp í þessari ferð,“ segir Guðný sem slekkur ekki endilega á útvarpinu lengur þegar kóratónlist hljómar. „En svo hefur mér þótt tiltölulega vænt um kóratónlist síðan.“

Sorg og drama í bland við útflippaðar gamanmyndir

Guðný hefur gert ódauðlegar gamanmyndir eins og Karlakórinn Heklu, Stellu í orlofi og Stellu í framboði en þess á milli glímir hún við alvarlegri efnistök í til dæmis Ungfrúnni góðu og húsinu og Veðramótum. Hún segir jafnvægið í brosi og alvöru henta sér vel. „Mín vinna hefur verið svolítið þannig að ég geri hræðilega sorglegar myndir og útflippaðar gamanmyndir. Það fer eftir því hvernig maður er stemmdur,“ segir hún en bætir því við að það geti verið fjárhagslega hagkvæmt að fá fólk til að hlæja. „Maður tapar yfirleitt á alvarlegu myndunum og þá gerir maður gamanmynd til að eiga upp í skuldirnar.“

„Þú þarft að skemmta fólki en ekki bara vera með tóma hægðatregðu og leiðindi“
Guðný segir auk þess nauðsynlegt inn á milli að skemmta fólki. Húmor segir hún að sé á undanhaldi í samfélaginu og það sé miður að sjónvarpið bjóði ekki upp á neina skemmtiþætti nema Áramótaskaupið. Það mættu fleiri grínistar íhuga að gera sjónvarpsefni eða kvikmyndir.

„Þetta er ofboðslega skrýtið, ég veit ekki hvers vegna alvarlegir menn hafa ekki valið að verða kvikmyndaleikstjórar. Þú þarft að skemmta fólki en ekki bara vera með tóma hægðatregðu og leiðindi.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR