Fréttablaðið um Á FERÐ MEÐ MÖMMU: Ó­vissu­ferð um heillandi hugar­heim

„Sér­lega á­ferðar­fögur vega­mynd sem gerist mikið til á seiðandi mörkum í­myndunar og raun­veru­leika,“ segir Þórarinn Þórarinsson meðal annars í Fréttablaðinu um Á ferð með mömmu eftir Hilmar Oddsson.

Þórarinn skrifar:

Áhugaljósmyndarinn Jón býr í fullkomnu fásinni ásamt aldraðri móður sinni á afskekktum sveitabæ fyrir vestan. Mamman er merkingarmiðja tilveru hans og slík eru áhrif hennar að þegar hún deyr kemur ekki annað til greina en að uppfylla hinstu ósk hennar með því að koma jarðneskum leifum hennar, í hennar fínasta pússi, fyrir í aftursæti lúinnar Ford Cortina og drösla henni á Eyrarbakka með viðkomu á Gullfossi og Geysi.

Eftir því sem kílómetrunum að baki fjölgar ferðumst við lengra inn í hugarfylgsni Jóns þar sem mamma lætur enn harkalega að sér kveða og þau gera í raun upp samband sitt og fortíð að henni látinni enda margt ósagt og enn á huldu.

Jón kemur áhorfendum og þeim sem á vegi þeirra mæðgina verða fyrir sjónir sem hálfgerður einfeldningur og minnir þannig um margt á garðyrkjumanninn Chance í Being There þar sem ólíklegustu og sjálfsögðustu hlutir virðast ofar þröngum lífsskilningi hans.

Eftir því sem lengra er ekið virðist hann þó einhvern tímann hafa lifað eðlilegra lífi og átt vonir og þrár sem mömmu tókst að kæfa niður með ofríki sínu. Hann minnir því einnig á annan þekktan mömmustrák, Norman nokkurn Bates, og áður en hann kemst á leiðarenda er maður kominn á hálfgerðan bömmer yfir að hann hafi ekki farið að dæmi þess í Psycho og komið þeirri gömlu í hel sjálfur.

Handrit Hilmars Oddssonar er ansi hreint sniðugt og leikstjórnin vitaskuld fáguð og öguð eins og hans er von og vísa. Tónlistin, kvikmyndatakan og hið sívinsæla íslenska landslag eru mikilvæg púsl sem falla fullkomlega að heildarmyndinni sem yfirburðaleikararnir Þröstur Leó Gunnarsson og Kristbjörg Kjeld virðast halda uppi fyrirhafnarlaust.

Þá eiga Hera Hilmar og Tómas Lemarquis bæði áhrifaríkar innkomur í merkingarþrungnum aukahlutverkum í eftirminnilegu ferðalagi sem leiðir áhorfendur á óvæntan áfangastað og skilur þau eftir með heilmikið til að hugsa um.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR