Fréttablaðið um VOLAÐA LAND: And­leg lífs­bar­átta í landi sem engu eirir

„Á­geng og eftir­minni­leg períóða með nettum frá­vikum og skálda­leyfi þar sem öflugir leikarar, frá­bærir búningar, mögnuð tón­list og kvik­mynda­taka á­samt ís­lensku lands­lagi fara með á­horf­endur í krefjandi en þakk­látan rann­sóknar­leið­angur um hinstu rök mann­legrar til­veru,“ skrifar Þórarinn Þórarinsson um Volaða land Hlyns Pálmasonar í Fréttablaðið.

Þórarinn skrifar:

Hlynur Pálmason er merkilega magnaður kvikmyndagerðarmaður og kannski má segja að hann sé býsna djarfur sem slíkur á vorum ömurlegu tímum merkingarleysunnar þar sem allt gengur út á að vaða á ofsahraða í gegnum brim­skafla stafrænnar kúadellu og falsfrétta og gleypa um leið sem mest í sig meðvitundar- og hugsunarlaust.

Hlynur þorir nefnilega ekki aðeins að gefa sér drjúgan tíma til þess að segja sögur sínar löturhægt heldur hikar hann ekki við að gera kröfur til áhorfenda sem hljóta mörg hver að upplifa myndir hans eins og æfingu í þolinmæði og núvitund.

Þetta sterka höfundareinkenni er ekki síður áberandi í Volaða landi en Hvítur, hvítur dagur, frá 2019, þótt önnur sé samtímasaga en hin gerist undir lok 19. aldar. Báðar eru myndirnar svo seigfljótandi að á köflum er eins og ekkert sé að gerast á meðan þær naga sig hægt, bítandi og af sívaxandi þunga djúpt í vitund áhorfenda. Það er að segja ef þeir hafa rænu á því að gefa sig myndunum á vald með opnum huga.

Volaða land er marglaga átakasaga ólíkra manna, manns og náttúru, Guðs og manns, mannsins við sjálfan sig, kvenna og karla, Íslendinga og Dana, orða og mynda og ekki síst hrjáðrar þjóðar við sitt volaða land sem gefur engin grið, molar fólk niður og drepur það hvort sem öldin er sú 19. eða 21.

Þessi átök kristallast og hold­gerast í unga, danska prestinum Lucasi og Ragnari, leiðsögumanni hans. Jarðnánu og alíslensku hörkutóli og sveitakarli sem hefur tekið á sig ótal myndir í íslenskum bókmennta- og menningararfi.

Presturinn er gerður út frá Kaupinhafn til þess að þjóna Guði í íslenskri sveit eftir að hafa látið reisa þar kirkju. Þótt hann sé varaður við því að Ísland sé þess eðlis að það geti snardrepið menn andlega og líkamlega mætir hann bjartsýnn til leiks með þungar ljósmyndagræjur á bakinu, fullur af vilja til þess að kynnast landi og þjóð.

Eitthvað sem hann hefði ef til vil betur látið ógert þegar upp er staðið enda stigmagnast spennan milli hans og Ragnars jafnt og þétt í fálmkenndum tilraunum þeirra til þess að spegla sig hvor í öðrum sem renna ítrekað út í sandinn í tragískum misskilningi á tilverunni, sjálfum sér og öllu þar á milli.

Hlynur hefur áður unnið með þeim Elliott Crosset Hove og Ingvari E. Sigurðssyni með góðum árangri og þeir glansa hér báðir í hlutverkum Lucasar og Ragnars sem Hlynur sérsaumaði fyrir þá.

Elliott skilar angist, vonbrigðum og andlegri hnignun prestsins átakanlega vel og Ingvar, sem aldrei klikkar, er hreint út sagt frábær sem leiðsögumaðurinn. Hann er svo öflugur að maður saknar hans eiginlega um leið og hann er ekki í mynd sem má teljast býsna gott í jafn öflugum leikhópi.

Hér er valin manneskja í hverju hlutverki og rétt eins og í Hvítum, hvítum degi er einhver galdur fólginn í samleik Ingvars og Ídu Mekkínar sem leikur yngri dóttur feðra- og nýlenduveldis fulltrúans sem Jacob Lohmann skilar fanta vel rétt eins og Vic Carmen Sonne sem eldri dóttirin.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR