Eitt skemmtilegasta og fallegasta samstarf sem ég hef átt með leikara, segir Baltasar um Egil Ólafsson

Baltasar Kormákur ræddi við Frey Gígju Gunnarsson í Morgunútvarpinu á Rás 2 um kvikmyndina Snerting og samstarfið við Egil Ólafsson.

„Þetta er eitt skemmtilegasta og fallegasta samstarf sem ég hef átt með leikara,“ segir Baltasar Kormákur um Egil Ólafsson, sem fer með aðalhutverkið í kvikmyndinni Snerting sem byggð er á samnefndri skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar. Egill greindi frá því undir lok árs 2022 að hann væri með taugahrörnunarsjúkdóminn parkinson og því má leiða líkum að því að leikur hans í Snertingu sé með síðustu listrænu verkefni hans. „Mér fannst dásamlegt að vinna með Agli í þessu,“ segir Baltasar.

Veikindi Egils styrkja myndina

„Þetta er að mörgu leyti ólíkt því sem ég hef gert áður í kvikmyndum og ég hafði óskaplega gaman af þessu,“ segir Baltasar. Eitt af því sem stendur upp úr er samstarf við Egil Ólafsson, aðalleikara myndarinnar.

Egill greindist undir lok árs 2022 með taugarhrörnunarsjúkdóminn parkinson. „Ég vissi af því áður en ég castaði honum í þetta,“ segir Baltasar. „Við tölum um inngildingu, að vera ekki að setja fólk út í kuldann þó að það sé að fást við erfiðleika í lífinu eða sé ekki eins og við hin. Mér finnst það bara áhugavert og það kemur með flöt inn í myndina sem ég held að styrki hana.“

Listamaðurinn þreytist aldrei
„Karakterinn er að glíma við ákveðin vandamál, þó að þau séu ekki þau sömu eru þau að mörgu leyti hliðstæð. Mér fannst ekki ástæða til að ráða Egil ekki og að mörgu leyti fannst mér hann vera á stað sem var mjög áhugaverður fyrir hlutverkið,“ segir Baltasar. „Það er ákveðin lífsreynsla og auðmýkt. Hann er ólíkur því sem hann hefur oft verið. Þetta hefur breytt honum og mér fannst það áhugavert.“

Önnur orka yfir Agli Ólafs­syni sem henti mynd­inni vel

„Mér fannst eins og hann langaði að gera þetta,“ segir Baltasar um Egil. „Með listamann eins og Egil. Það er ekkert sem stoppar fólk sem hefur þessa þörf fyrir að skapa,“ segir hann. „Það er ekkert sem stoppar listamanninn Egil, líkaminn á honum er þreyttur en ekki listamaðurinn.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR