spot_img

Lestin um SKVÍZ: Býsna fyndnir og sæmilega raunsæir þættir

Brynja Hjálmsdóttir, sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1, rýnir í íslensku þættina Skvíz sem Sjónvarp Símans framleiðir.

Brynja segir:

Nú í mars var þáttaröðin Skvíz (stafsett með zetu, eins og rappplag frá tíunda áratugnum) frumsýnd á Sjónvarpi Símans. Þáttaröðin er kynnt sem svokölluð mini-sería, það er að segja þáttaröð sem býður ekki upp á framhald. Sjáum hvað setur með það.

Leikstjóri þáttanna er Reynir Lyngdal og handritshöfundar eru Tanja Björk Ómarsdóttir, Hlín Ágústsdottir, Ólöf Birna Torfadóttir og Silja Rós Ragnarsdóttir. Fram hefur komið að ýmislegt varðandi framvinduna og persónurnar byggist á sönnum sögum úr lífi höfunda eða vina þeirra og vandamanna. Þættirnir segja frá Sóley, Rúnu og Fríðu, ungum konum í Reykjavík. Rúna og Fríða eru samleigjendur sem lenda einn góðan veðurdag í því að þriðji leigjandinn í íbúðinni lætur sig hverfa án þess að borga leiguna. Þá eru góð ráð dýr, þær verða að finna nýjan meðleigjanda sem allra fyrst. Eins og gefur að skilja er næg eftirspurn, enda slegist um hvern fermetra á markaðnum. Rúna og Fríða bregða á það ráð að taka viðtöl við áhugasama leigjendur sem eru hver öðrum ómögulegri. Sóley er sú sem helst kemur til greina. Sóley er aðalpersóna þáttanna. Hún er prúð, sæt og ferköntuð, búin að eiga sama kærastann í átta ár. Þau búa heima hjá foreldrum hans og þau (eða Sóley það er að segja) eru með skothelt plan um að kaupa íbúð fljótlega og koma undir sig fótunum. Þetta góða plan fer allt uppnám þegar kærastinn stingur upp á að þau taki sér „pásu“, sem allir vita hvað þýðir. Hann lætur í veðri vaka að tengdaforeldrarnir séu þreyttir á að hafa hana alltaf inni á heimilinu, eitthvað sem stenst tæplega skoðun. Þannig að Sóley, meðvirk og í afneitun, ákveður að halda út á leigumarkaðinn og hún fer og forvitnast um íbúð Rúnu og Fríðu.

Rúna og Fríða eru töffarar, þær lifa forvitnilegu skemmtana- og félagslífi og ekki síst kynlífi. Sóley hins vegar er ekki töffari, hún er lítil rúsína. Þess vegna eru þær fyrst um sinn hikandi við að fá hana sem meðleigjanda en þegar þær rekast óvænt á Sóleyju á bar, þar sem hún brotnar saman yfir veseninu í persónulega lífinu, enda þær hálfpartinn óvart á því að bjóða henni herbergið. Þar við situr og hún flytur inn.

Eins og gefur að skilja verða árekstrar milli sambýlinganna fyrst um sinn, Sóley, sem vill gera öllum til geðs, treður bæði Rúnu og Fríðu um tær, án þess að beinlínis ætla það. Fljótlega kemst jafnvægi á sambúðina og þær ná að bæta hver aðra upp, sérstaklega ná þær Rúna og Fríða að kenna Sóleyju að sletta aðeins úr klaufunum. Sóley heldur að hún sé núll og nix en þarf að uppgötva að það er í raun talsvert í hana spunnið, það lítur í það minnsta út fyrir það miðað við að það eru alla vega tveir gaurar alveg sjúkir í hana.

Hluti höfundateymisins er menntaður í Ameríku og þekkir frásagnarmátann í amerísku sjónvarpi út og inn. Þættirnir eru að forminu til innblásnir af bandarískum þáttum, gamanþáttum um stelpur og konur, en endurspegla engu að síður íslenskan veruleika. Þetta er ekki alveg jafnglæst og lífið í Sex and the City og ekki alveg jafn óþægilegt og í Girls, þetta er einhvers staðar þarna á milli. Eins og oft í slíkum þáttum þá er það ekki endilega aðalpersónan sem er áhugaverðust, heldur aukapersónurnar. Ég þekki a.m.k. engan sem myndi halda því fram að Carrie væri uppáhaldspersónan sín í Sex and the City, þótt hún sé auðvitað nauðsynleg fyrir gangverk sögunnar og vandamál hennar, áþreifanlegustu vandamálin. Samantha og Charlotte eru miklu líklegri kandídatar sem uppáhaldspersónur, þær eru skrítnari og fyndnari. Þannig er þessu líka farið í Skvíz, milli þess sem við fylgjum aðalsögunni, sögu Sóleyjar, eru lítil innskot og útúrdúrar með Rúnu og Fríðu sem eru skemmtilegir. Rúna er glíma við hundleiðinlega yfirmenn í vinnunni og hún er skotin í strák. Fríða fæst við heilmiklar flækjur í persónulega lífinu, hún kann ekki að vinna eða taka ábyrgð og situr uppi með mikinn óuppgerðan pabbavanda sem hún reynir helst að gleyma með því að djamma rosalega mikið og stunda mikið og skuldbingingalaust kynlíf. Þegar hún hefur brennt allar brýr að baki sér grípur hún til örþrifaráða til að afla tekna.

Það er svona ákveðinn indíbragur á þessu, sem er ekkert endilega slæmt, og þættirnir eru að mörgu leyti vel gerðir, leikurinn er ágætur, hár og búningar og fleira. Þarna eru nýjar leikkonur í aðalhlutverkum, Silja Rós sem er nokkuð sannfærandi sem hin kassalaga Sóley, Tanja Björk er skemmtileg sem Fríða og Unnur Backman á verulega góða frammistöðu í hlutverki Rúnu. Það verður gaman að fylgjast með þessum leikkonum í framtíðinni. Þættirnir eru oft býsna fyndnir og ég myndi segja að þær væru sæmilega raunsæir að því leyti að margir gætu ábyggilega samsamað sig þeim aðstæðum sem upp koma í þáttunum.

Engu að síður verður að koma fram að oft finnur maður alveg fyrir því að sumt virðist áþreifanlega fljótfærnislega unnið, sagan er á köflum fyrirsjáanleg og sú tilfinning gerir alveg vart við sig að það hefði mátt skrifa senur betur út, byggja betur spennu og persónusköpun, og jafnvel taka eina eða tvær aukatökur af einhverju samtali. Fyrri hluti seríunnar er áberandi sterkari, þar sem grínið er í aðalhlutverki. Þar virðast allir frekar vera í essinu sínu, bæði handritshöfundar og leikarar. Í síðustu tveimur þáttunum, þar sem hið óhjákvæmilega drama sem byggt hefur verið upp skellur á öllum í einu og allir eiga lágpunkt, þá missir þetta aðeins dampinn. Það vantar einhvern fínleika í þessa alvarlegri hluta, sumt af því er einfaldlega ótrúverðugt. Í síðasta þættinum er samt sem áður allt leitt til lykta í ágætis lokahnykk.

Meginmarkmið þáttanna er að búa til skemmtiefni um ungar samtímakonur á Íslandi með smá gríni, smá rómantík og léttu drama. Það tekst nokkurn veginn stórslyslaust og það má vel hafa gaman Skvíz, með zetu.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR