Anna Karín Lárusdóttir hélt að allir væru jafn helteknir af kvikmyndum og hún

Anna Karín Lárusdóttir hlaut nýverið tvenn Edduverðlaun fyrir stuttmyndina Sætur, auk þess sem hún var valin uppgötvun ársins. Rætt var við hana í þættinum Svipmyndin á Rás 1.

Segir á vef RÚV:

Anna Karín Lárusdóttir er kvikmyndagerðarmaður uppalin í Breiðholti og á Egilsstöðum. Hún heillaðist snemma af kvikmyndaforminu, þá í gegnum föstudagskvikmyndir RÚV og á vídeóleigu Kidda vídeóflugu á Egilsstöðum. Hún skráði sig í Kvikmyndaskóla Íslands eftir að móðir hennar ráðlagði henni að leggja fagið fyrir sig. Í skólanum framleiddi hún stuttmyndina XY, kvikmynd sem kannar upplifanir unglingsins Lísu af því að vera intersex. XY vakti þónokkra athygli þegar hún kom út og hlaut Sprettfiskverðlaunin á Stockfishhátíðinni 2019.

Næsta stuttmynd Önnu Karínar, Felt Cute eða Sætur, kom út á síðasta ári og fjallar um Breka, ellefu ára dreng sem prófar sig áfram með farða systur sinnar og föt þegar hann er einn heima. Felt Cute hlaut einnig Sprettfisk-verðlaunin 2024 og tvö Edduverðlaun, ein í flokki stuttmynda og önnur í flokki barna- og unglingamynda.

Íhaldssamt umhverfi og lítið skapandi

Anna Karín flutti til Egilsstaða níu ára og segist eiga í ástar-haturssambandi við staðinn. Henni hafi þótt æðislegt að vera í náttúrunni og búa í nálægð við stórfjölskylduna. Henni þótti hins vegar samfélagið á þeim tíma ekki mjög skapandi. „Mér fannst þetta dálítið íhaldssamt og mér fannst það mjög erfitt. Ég fann hvað mig langaði að vera skapandi en það var ekki bíó eða neitt alvöru leikhús.“

Hún segir RÚV hafa spilað stórt hlutverk í að kveikja áhuga hennar á kvikmyndum, sem og vídeóleiga Kidda vídeóflugu. Hún tók upp myndir sjálf á spólur úr sjónvarpinu og teiknaði myndir og setti í hulstur. Hún hafi því snemma verið forfallin kvikmyndaáhugamanneskja.

Hélt að allir væru með kvikmyndir á heilanum eins og hún

„Ég fattaði ekki fyrr en mjög seint að það væri hægt að búa til bíómyndir,“ segir Anna Karín. „Fyrir mér voru kvikmyndir bara partur af lífinu og ég hélt að allir væru jafn obsessed með þetta eins og ég.“

Þegar Anna Karín var 23 ára upplifði hún sig hálftýnda í lífinu, búna með menntaskólann og hafði ekkert eiginlegt fyrir stafni. „Mamma, sem er námsráðgjafi, sagði við mig einn daginn: Anna Karín, ég held að þú gætir orðið góður leikstjóri. Ég fattaði að ég vissi ekki einu sinni hvað leikstjóri gerði.“

Þá hafi móðir hennar útskýrt fyrir henni að leikstjóri þurfi að hafa skoðun á öllu sem við kemur leik, búningum, hljóði, tónlist og litum. Það sé hans hlutverk að segja sögur. „Eitthvað sem hún veit að ég hef haft áhuga á síðan ég var pínulítil.“

Gott að finna samkennd í gegnum bíómyndir

Önnu Karín þykir kvikmyndin vera góður miðill til að takast á við flókin og jafnvel pólitísk málefni. „Það er svo oft bara gott að sjá það gerast, til þess að einhvern veginn skilja þá. Mér finnst besta leiðin fyrir mig að skilja fólk sem er öðruvísi en ég, skilja aðra menningarheima, vera að horfa á myndir um fólk, helst ef það er búið til af einhverjum sem þekkir til eða er jafnvel partur af þeim hópi. Í staðinn fyrir að það sé alltaf verið að segja: svona er þetta. Að bara sjá það og upplifa, þá finnur maður oft þessa samkennd.“

Eins og kvikmyndabransinn væri að bjóða hana velkomna

Anna Karín segist hafa verið í áfalli eftir að hljóta tvö Edduverðlaun nú á dögunum. „En ótrúlega skemmtilegt og mikil hvatning. Maður finnur alveg að maður fyllist af eldmóð og vill fara gera næsta verkefni. Mér fannst ég upplifa þetta svolítið eins og kvikmyndabransinn á Íslandi væri að bjóða mig velkomna og ég er mjög þakklát fyrir það.“

Myndin Sætur segir frá hinum ellefu ára Breka sem lítur rosalega upp til fimmtán ára systur sinnar. „Hún er bara á þessum aldri þar sem hún svolítið mikið í sjálfhverfunni og er bara frekar, mjög leiðinleg við hann.“ Þetta byggir hún á eigin sambandi við yngri bróður sinn, hvernig hún sjálf kom fram.

Einn daginn þegar Breki er einn heima stelst hann í herbergi systur sinnar og prófar sig áfram með dótið hennar. „Við förum að hugsa um alla þessa kassa sem samfélagið setur okkur í. Hvað þýðir það að vera strákur og vilja vera með hálsmen? Þýðir það endilega að hann er eitthvað og ekki annað?“ Myndin skoði þessar hugmyndir án þess að segja hreint út hver merkingin sé.

„Ég vildi ná þessari tilfinningu að vera séður og samþykktur bara fyrir það sem þú ert,“ segir Anna Karín. Það þurfi ekki að spyrja hvað hann sé núna fyrir það eitt að vilja mála sig. „Ég vildi alls ekki gera það.“

„Mér finnst skemmtilegt að fólk getur svolítið bara túlkað það eins og það vill. Mér finnst oft pirrandi þegar fólk segir þetta, en mér líður samt eins og alls konar fólk geti horft og tengt við þetta á sinn eigin hátt.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR