Pistill Friðriks Erlingssonar um stöðu íslenskra sjónvarpsþáttaraða, sem Klapptré birti s.l. þriðjudag hefur vakið mikla athygli og fengið gríðarlegan lestur. Margir af stærri miðlum landsins á borð við Vísi, RÚV, DV og Kjarnann hafa fjallað um hann og þess verður óneitanlega vart á Fésbók að töluverðar umræður hafa skapast bæði um pistilinn sem og viðfangsefni hans; leikið sjónvarpsefni.
Klapptré tínir hér til ummæli úr ýmsum áttum þar sem útgangspunkturinn er fyrrnefndur pistill. Tilfærð ummæli eru samtíningur þess helsta sem borið hefur fyrir augu.
Fyrst skal hlekkjað á viðbrögð Skarphéðins Guðmundssonar dagskrárstjóra sjónvarps í viðtali við Síðdegisútvarp Rásar 2.
Hér er og viðtal við Laufeyju Guðjónsdóttur forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar Íslands af sama tilefni og á sama stað.
Svartagallsraus?
Ari Matthíasson leikari og núverandi framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins gagnrýnir Friðrik fyrir svartagallsraus á Fésbókarþræði sínum:
Merkilegt hvað “Við erum ömurleg”-pistill á Klapptré hefur vakið mikinn fögnuð, en þar er verið að sanna að Íslendinga skorti siðmenningu og uppi sé hér algert getuleysi RÚV og kvikmyndaframleiðenda.
Þetta er á sama tíma og einn okkar leikstjóra hefur komið myndum sínum tvívegis í röð á toppinn í Bandaríkjunum, nokkuð sem engum skandinavískum leikstjóra öðrum hefur tekist. Þetta er á sama tíma og við eigum leikara sem er hægt og bítandi að festa sig í sessi í Hollywood og aðra sem hafa verið í slíkum myndum. Þetta er á sama tíma og nú stendur fyrir dyrum að framleiða stærstu alþjóðlegu sjónvarpsseríu sem Íslendingar hafa komið að og er sú skrifuð og framleidd af íslenskum.
Þetta gerist í kjölfar þess að hér hafa verið teknar upp margar erlendar stórmyndir þar sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa borið mikla ábyrgð og vinnu. Þetta er á sama tíma og í farvatninu er mjög stór Hollywood mynd sem er skrifuð, framleidd og leikstýrt af Íslendingum og mun koma með milljarða inn í íslenskt hagkerfi í formi erlendrar fjárfestingar.
Hvernig væri að við hættum að leggja eyrun við svartagallsrausi þeirra sem alltaf upplifa sólarlausa daga og færum að horfa stolt á það sem vel er gert og njóta sigranna um leið og lögð verða drög að þeim næstu?
Að skrifa með rassgatinu
Á þræði Ara leggur Sigurjón Kjartansson, handritshöfundur fjölmargra sjónvarpsþátta, orð í belg:
„Friðrik skrifaði þessa grein með rassgatinu. Held hann hefði mátt gefa sér nokkrar mínútur í viðbót, jafnvel einn dag, áður en hann ýtti á send – blessaður maðurinn.“
Sveinbjörn Baldvinsson handritshöfundur Hraunsins, hlekkjar á grein Kjarnans þar sem lagt er út af pistli Friðriks Erlingssonar og endurbirt grein frá því í vor um velgengni Dana í gerð sjónvarpsþátta og aðferðafræðina þar á bak við.
Sveinbjörn segir:
„Hér er skynsamlega tekið á mikilvægu málefni og án þess að hrækt sé framan í kollega í leiðinni. En það er kannski ekki eins kúl.“
Þess má geta að hin ágæta yfirferð Kjarnans frá því í vor um danskar seríur vakti nákvæmlega engar umræður á sínum tíma – ólíkt pistli Friðriks nú.
Ómálefnalegar upphrópanir?
Ari Kristinsson, ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð, hlekkjar án orða á sömu grein Kjarnans á Fésbókarsíðu sinni. Páll Baldvin Baldvinsson, fyrrum dagskrárstjóri Stöðvar 2, leggur þar orð í belg:
„Já þetta var athyglisvert. Ekki ætla ég að ræða við Friðrik Erlingsson um Hraunið, kosti þess og galla. Enn síður vil ég elta ólar við stórkarlalegar og almennar yfirlýsingar hans hvernig á að framleiða seríur. Danskar eða einhverjar aðrar.
Statusinn er bara þessi. þegar Danir ákváðu að gera eitthvað í sínum málum eftir Matador og Húsið í Nýhöfn, sem báðar voru sýndar hér fyrir áratugum, sendu þeir menn vestur til Ameríku og létu þá sitja í nokkrar vikur í verksmiðjunni sem spjó út Hill Street Blues. Það voru þá búnar að vera margar slíkar á ferðinni: Streets of San Francisco, Baltimore-serían hans Barry Levinson sem ég man nú bara ekki í svip hvað heitir.
Allt var þetta formúluafþreying með skvettu af mannlegu drama. Við erum búin að sjá skilgetin afkvæmi þessa iðnaðar í áratugi. Þetta byggir allt á sömu verkferlunum: góðu skrifarateymi, sterkri persónuritstjórn sem heldur lausum þráðum áfram. Stórum hópi starfsmanna sem vinnur myrkrana á milli árum saman og síðast en ekki síst: peningum, meiri peningum en íslenskar sjónvarpsstöðvar hafa yfir að ráða að jafnaði.
Munum að eftir að dagar hinna stöku sjónvarpsleikrita sem byggðust á Play for Today BBC (liðu undir lok) þá tók við tímabil Hrafns á sjónvarpinu. hinar stöku lengri sjónvarpsmyndir sem teygðu sig meira í átt að kvikmyndinni. En ráðamenn sáu fljótt að það var betra að fylla dagskrár með ódýrari þáttaefni: þannig varð það snemma á Stöð 2, síðar á Skjánum og líka á RUV.
Þegar hingað komu Danir á vegum leikskálda til að halda kynningu á vegum Óla Hauks og Sveinbjarnar Baldvins með fjármögnun RUV, Stöðvar 2 og Kvikmyndasjóðs þá mættu þangað nokkrir menn. Fáir þeirra eru enn að enda höfðu þeir sumir meiri áhuga á sketsa þáttum en lengri strípum.
Mér leiðast svona upphrópanir eins og hann Friðrik er með, þær eru ómálefnalegar, líta ekki af neinni sanngirni [á það] sem menn hafa verið að reyna að gera hér í leiknu sjónvarpsefni nú í nær hálfa öld. Skoða þessa áratugasögu ekki af neinni sanngirni heldur hleypidómum. Hraunið var ekki gallalaust, jafnvel ekki innan þess þrönga genre sem því var greinilega steypt í. En það náði þó því máli að það fékkst á grundvelli hugmyndar fjármögnun og var gert og hjá sumum féll það í góðan jarðveg.
Fyrir bransann hef ég lengi talið að stjórnvöld ættu að virða tilraunir af þessu tagi með auknu fjármagni í Kvikmyndasjóð og endurmeta hlutfall leikins sjónvarpsefnis þar í td. 5 ár á kostnað kvikmynda í fullri lengd og þeir menn sem hafa menntað sig með dýrum dómum í leikstjórn taki þann bikar og tæmi hann í botn og ráðist í að leikstýra nokkrum klukkutímum fyrir almenna sjónvarpsáhorfendur frekar en að koma saman bíómyndum sem færri sjá á margra mánaða tímabili í bíó, dvd, voddi og kvikmyndahátíðum en horfa á stakan þátt í sjónvarpi á einni kvöldstund.”
Björn Br. Björnsson kvikmyndagerðarmaður segir á sama þræði:
„Til að framleiða vandað íslenskt sjónvarpsefni sem getur orðið alvöru útflutningsvara, auk þess að verða íslenskri menningu lyftistöng, þurfum við stjórnmálamenn sem hafa trú á verkefninu og eru tilbúnir til að fjárfesta í greininni. Þá þarf sérstaklega að setja peninga í skrif og þróun handrita. Því eins og allir (eiga að) vita er ekki hægt að gera gott kvikmyndaefni nema með góðum handritum.“
Og Þráinn Bertelsson leikstjóri og handritshöfundur segir á sama stað:
„Kannski er það hluti af vandanum hversu fáum það er gefið að þekkja “góð” handrit frá “vondum”. Og í landi með svipaða íbúatölu og Coventry-hreppur á Englandi er kannski ekki um marga að ræða sem það geta, fyrir nú utan það gamla vandamál að það sem einum finnst gott finnst of öðrum alveg ömurlegt.“
Af hverju skjóta sendiboðann?
Jón Þór Hannesson framleiðandi sendi Klapptré eftirfarandi línur:
Af hverju skjóta sendiboðann, það þarf ekki þessa viðkvæmni þegar kemur að íslenskri kvikmyndagerð, er hún yfir alla gagnrýni hafin? Lengi vel þorði enginn gagnrýnandi að gefa íslenskum myndum lélega dóma, allar myndir fengu góða dóma og fyrir það eitt að þær voru yfirleitt bara gerðar. Við eigum að taka því fagnandi að einhver stendur upp og bendir okkur á að við erum ef til vill ekki á réttri leið, er eitthvað að því?
Jóhann Ævar Grímsson handritshöfundur hlekkjar á pistil Friðriks á Fésbókarsíðu sinni:
Eitt það magnaðasta við eldmessuna hans Friðriks Erlingssonar er að hann undirritar hana sem “fyrrverandi handritshöfundur” #micdrop
Jón Páll Eyjólfsson leikari og leikstjóri stingur þar inní:
Þarf ekki að kalla fólk saman til samtals um þetta? Staðfesta kröfuna um breytingar við Kvikmyndamiðstöð? Óska eftir samstarfi geirans heilt yfir í stefnumótun með menntamálaráðuneyti? Svona þegar þeir sem að girt var niður um í greininni hafa náð að jafna sig.
Jóhann Ævar svarar:
Það þarf.
Fagna gagnrýninni umræðu um fagið
Þórir Snær Sigurjónsson framleiðandi hlekkjar á pistil Friðriks á Fésbókarsíðu sinni og segir:
Já, margt hressandi hér og ég fagna gagnrýninni umræðu um fagið þó ég sé nú ekki sammála öllu í þessari grein og hef einmitt ekki séð Hraunið enn. Hafandi meira og minna búið og starfað í DK undanfarinn áratug hef ég lært ýmislegt af Dönum. Stóri lærdómurinn er hvað þeir eru lausir við alla meðvirkni þegar kemur að gagnrýninni umræðu um kvikmyndir og sjónvarp. Það er ekkert í þessu fagi hafið yfir krítík og hér er fólk óhrætt við að tjá sig. Það er tekist á um kvikmyndirnar, sjónvarpsefnið (heldur betur verið að bauna á 1864 þessa dagana, dýrasta sjónvarps drama sem DR hefur ráðist í), stefnu kvikmyndasjóðsins og stefnu kvikmyndaskólans. Ritdeilur um þessi mál eru tíðar í Politiken, Ekko og fleiri miðlum. Og ég held að það sé nákvæmlega þetta viðhorf og óttaleysi sem kemur Dönum í fremstu röð í faginu. Er einhver möguleiki fyrir okkur á Íslandi að opna á líflega umræðu á sama hátt? Eða erum við einfaldlega of fá og meðvirk þannig að það er bara best að þegja til að særa ekki frænda frænku vinkonu þinnar?
Valdimar Örn Flygenring leikari skrifar við þráð Þóris Snæs:
Gott hjá honum…. en Ísland er lítið klíkusamfélag þarsem umbúðirnar skipta miklu meira máli en innihaldið… þetta kristallast því miður í menningunni sem í eðli sínu afhjúpar það góða og slæma í hverju samfélagi, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Það væri hægt að takast á við það sem miður hefur farið í þessu samhengi en þá tekur við samtrygging klíkusamfélagsins sem stendur í vegi fyrir raunverulegri framþróun til að tryggja stöðu sína. Þetta er kanski svona slæmt hérna útaf fámenninu og einangruninni en í nútímanum verður þetta enn meira áberandi þegar einangrunin minnkar. En engin þorir að segja neitt af hræðslu við að missa spón úr aski sínum…. fólk stagnerast fram að eftirlaunum vitandi held ég samt uppá sig skömmina. Um þetta á ekki að þegja. þá erum við samsek.
Þórir Snær bætir við sama þráð:
Já almennt séð sé ég ekki ástæðu til að útiloka einn genre frekar en annan en vandamálið liggur ekki í hvað er gott og hvað ekki. Það er ómögulegt og óáhugavert að deila um smekk. Auðvitað er hægt að segja áhugaverðar sögur í hvaða genre sem er.
Það þarf miklu frekar að fókusera á grunnstoðirnar. Kvikmyndasjóð, kvikmyndaskóla og öflugt sjónvarp.
Það er alltaf verið að vitna í “dönsku leiðina” sem er farin að hljóma eins og einhver þjóðsaga sem enginn kann eða skilur almennilega. Það er erfitt að tala konstruktift þegar fleygt er fram að það vanti siðmenningu, sannfæringu og vision. Þetta þarf alls ekki að vera svona fluid og óljós umræða. Þetta er í raun frekar basic.
Það vantar head of drama á Rúv og fólk sem hefur alvöru reynslu af kvikmyndagerð og þekkingu á drama til þess að koma að þessum stofnunum og vera með í að móta stefnu þeirra.
Mér þætti vænt um að sjá einstakling með alvöru reynslu af kvikmyndagerð og listrænar ambisjónir ráðinn undir dagskrástjóra RÚV og viðkomandi hefði eingöngu umsjón með leiknu efni og að móta stefnu Rúv hvað það varðar.
Þórir Snær hlekkjar jafnframt á grein á vef Dönsku kvikmyndastofnunarinnar þar sem farið er yfir “dönsku leiðina” svokölluðu. Hana má lesa hér.
Ásgrímur Sverrisson kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés leggur orð í belg á þræði Þóris Snæs:
Sammála með að RÚV vantar Head of drama en það starf þarf að byggjast á hugmyndafræðilegum grunni og þar kemur hin margnefnda danska leið sterk inn sem fyrirmynd þó sjálfsagt sé að skoða einnig önnur sjónarmið. Forsendum dönsku leiðarinnar er ágætlega lýst í þessari grein sem þú linkar á – sem og af Sven Clausen framleiðanda hjá DR sem kom hingað fyrir átta árum og lýsti hugmyndafræðinni fyrir íslenskum kvikmyndagerðarmönnum. Lykilpunktar hans voru (auk “One Vision”): – Leiknar seríur séu flaggskip dagskrárinnar. – Efnisinnihald miðist við þjónustuhlutverk sjónvarps í almannaþágu; að fjallað sé um samfélagsleg efni sem eiga víða skírskotun og þannig boðið uppá efni sem veki áhuga og skapi umræðu meðal almennings. – Áhersla verði lögð á að ná inn nýjum (yngri) áhorfendum og rannsóknir gerðar á viðhorfum sjónvarpsáhorfenda almennt til nálgunar og framsetningar leikins sjónvarpsefnis.
Jón Steinar Ragnarsson handritshöfundur og leikmyndahönnuður segir á sama stað:
Sammála hverju orði. Finnst þetta hugað og þarft innlegg og komst ekki hjá því að hugsa með nepotískan og innræktaðan bransann í huga að Friðrik minn hafi nú sennilega komið sér illa með hreinskilninni.
Umræðan hér er annars aðdáunarverð, sé tekið mið af þeirri umræðuhefð sem er dóminerandi í samfélaginu. Hér eru athygliverðar og vel hugsaðar vangaveltur um þessa tivistarkreppu iðnaðarins hér. Það fyllir mig bjartsýni á framhaldið. Orð eru til alls fyrst og Friðrik hefur komið með tímabært innlegg til að opna þessa umræðu.
Talandi um “Head of Drama” hjá RUV, þá dettur mér raunar enginn hæfari í hug þar en Friðrik Erlingsson.
Skortir skilgreiningu á siðmenningu?
Ásdís Thoroddsen leikstjóri og handritshöfundur hefur þetta að segja á þræðinum:
Það vantar skilgreiningu á siðmenningu hjá höfundi og þess vegna er ekki hægt að ræða mikið út frá greininni. Hann skrifar: ,,Raunveruleg menningarsaga okkar nær varla aftur að aldamótunum 1900. Fyrir þann tíma var ginnungagap í siðmenningu okkar og menningarsögu, alveg aftur til þess tíma að höfundur Njálu setti punktinn við verk sitt.” – Er hann að meina að borgaraleg19. aldar menning sé eina siðmenningin sem telja má? Er fátækt fólk minna siðmenntað en þeir sem eru ríkari? Var grimmur aðall Danmerkur siðmenntaður? Mig vantar skilgreininguna.
Fjárhagslegt bolmagn RÚV þarf að bæta
Ragnar Bragason leikstjóri og handritshöfundur hefur þetta að segja á þræði Þóris:
Ég tel að mikið framfaraskref hafi verið stigið þegar Magnús Geir var ráðin útvarpsstjóri í vor. Það gaf fyrirheit um öflugri framleiðslu leikins efnis. Sama þegar Skarphéðinn Guðmunds var ráðinn dagskrárstjóri í fullu starfi sem var eitthvað sem í mörg ár var eingöngu hlutastarf með öðru. Hann bar ábyrgð á flestu því góða sem varð í gerð leikins efnis á Stöð2. Hvort sé þörf á sérstökum Head-of-Drama veit ég ekki, amk er öll þessi umræða mikilvæg og ég held að það sem hægt er að taka frá dönunum er einmitt hið opna platform um stefnu og innihald. Að það sem framleitt sé skipti máli út frá samfélagi og sögu. Ég vona að blásið verði til þess samtals. (og sú umræða má alveg eiga sér stað í kringum Kvikmyndasjóð líka). Hin sorglega staðreynd er að fjárhagslegt bolmagn RUV til metnaðarfullrar þróunar og framleiðslu leikins efnis er afskaplega lítið og þarf að bæta hið snarasta.
Pólitíska ákvörðun þarf til
Ásgrímur Sverrisson bætir við:
Já, danska leiðin er einnig sterk fyrirmynd að því leyti að fyrir um aldarfjórðungi eða svo var tekin pólitísk ákvörðun þar í landi um langtíma uppbyggingu kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar, með áherslu á markvissa eflingu menntunar, opinberrar fjárfestingar í greininni og skýrrar dagskrárstefnu almannasjónvarps. Þetta er í öllum megninatriðum það sama og við þurfum að gera. Þetta snýst um ákvarðanir á hinu pólitíska sviði og fyrir þeim þarf að berjast. Það væri afar æskilegt ef bransinn einhenti sér af fullum þunga í að berjast fyrir þessu afar mikilvægu málum – og fá þar almenning í lið með sér. Hluti af því er einmitt að taka hressilega og hreinskilna umræðu.
Jón Steinar Ragnarsson svarar:
Kannski mætir íslensk kvikmynda og dagskrárgerð ekki mikilli gagnrýni af því að hér er svo lítið gert og fólk tekur þessu öllu með jákvæðni og gefur A+ fyrir viðleytni. Fólk er sátt og þakklátt fyrir það litla sem það fær og stillir kröfunum ekki hátt fyrir litla Ísland.
Kannski vantar uppbyggilega gagnrýni í fjölmiðlum en ekki eitthvað hvítvínsmarínerað frumsýningarskjall, eins og oft vill verða. Allir þekkja alla í þessum bransa og enginn er tilbúinn að styggja neinn í þessum þröngu kreðsum af ótta við úthýsingu.
Með gagnrýni á ég við eiginlega merkingu orðsins, sem er að rýna til gagns en ekki gegn verkinu. Það þarf að vera gert af þekkingu og innsæi en ekki á hálfkæringslegum nótum álitsgjafa, (lesist kverúlanta) sem oftar en ekki eru æði sjálfmiðaðir í umsögnum sínum.
Man þá tíð er Egill Helga skrifaði hárbeitta gagnrýni, sem var undirbyggð af þekkingu hans á bókmenntum og kvikmyndum. Það þótti ekki gott og menn linntu ekki látum fyrr en hann var einfaldlega rekinn fyrir hreinskilnina.
Menn mega þó ekki missa sig í að finna eitthvað alfa og ómega með yrkisefnið. Við þurfum ekki að einblína á stórslegnar ættarsögur og aldaannála eins og danir. Þá erum við bara komnir út í kópíeringar hinumegin við hafið.
Ég held að okkar akkilesarhæll sé trúverðugleiki sagnanna. Þá helst þrívíð og trúverðug persónuaköpun. Eitthvað sem fæðist innanfrá og út en ekki utanfrá og inn. Það finnst mér ekki takast oft.
Við erum annars í soldið öðruvísi aðstæðum en danir vegna smæðarinnar. Fjárhagslega getum við tæpast keppt við þá og fjármagnið ræður oft metnaðinum, eða allavega niðurstöðunni, þrátt fyrir metnað.
Ég vildi gjarnan sjá meira af teymisvinnu í handritagerð, þar sem margir samhentir höfundar leggjast á eitt.