Viðhorf | Íslensk sjónvarpsþáttagerð – Danmörk: 14 – Ísland: 2

Hvað var að ‘Hrauninu’? Og hvað var að flestum íslenskum sjónvarpsseríum sem við höfum framleitt til þessa? Svarið er skelfilega einfalt: Það skortir alla sannfæringu. Sannfæring verður til þegar maður veit hver maður er. Ef ætti að skilgreina þjóðina út frá íslenskum sjónvarpsseríum þá sést undir eins að við höfum ekki hugmynd um hver við erum, hvert við ætlum, og ennþá síður – og það er eiginlega sorglegast – hvaðan við komum.

Þetta á líka við allflestar íslenskar kvikmyndir undanfarinna ára, og reyndar obbann af þessum hlægilegu glæpasögum okkar, sem hafa gert það að verkum að nú eru fleiri morðingjar í Rithöfundasambandi Íslands en nokkurn tímann inni á Litla-Hrauni.

Skortur á sannfæringu – skortur á siðmenningu

Orsök þess að íslenskar sjónvarpsseríur skortir sannfæringu, er annar skortur: Skortur á siðmenningu. Við áttum siðmenningu á miðöldum, svo komu 3-400 ár af niðurlægingu, hafís, eldgosum, ömurleika, hungri, pestum, einangrun, vosbúð og vesöld, en það eru aðstæður þar sem siðmenning fær ekki þrifist. Svo urðum við sjálfstæð og snögglega moldrík og síðan sigruðum við heiminn, alveg þangað til við duttum á rassinn.

Og nú höfum við risið upp að nýju eins og ofurskrímsli í annars flokks hryllingsmynd sem fær ekki drepist, sama hvað reynt er. Og þá förum við að semja glæpasögur og framleiða glæpaseríur líkt og við búum í morðóðu glæpasamfélagi milljónaþjóðar, sneisafullu af geðsjúklingum – því auðvitað erum við milljónaþjóð með þúsund ára menningarsögu að baki, er það ekki? Nei, það er ekki svo. Raunveruleg menningarsaga okkar nær varla aftur að aldamótunum 1900. Fyrir þann tíma var ginnungagap í siðmenningu okkar og menningarsögu, alveg aftur til þess tíma að höfundur Njálu setti punktinn við verk sitt. Þetta er sorglegt – og það er erfitt að horfast í augu við það – en svona er það samt.

„Eins og best gerist erlendis“

Svo hvað var að sjónvarpsseríunni ‘Hrauninu’? Hún var innantómur, sannfæringarlaus þvættingur. Það var engin persónusköpun, ekkert drama, bara vandræðaleg eftirlíking af margþvældri eftirlíkingu, sem hefur fyrir löngu gengið sér til húðar. Jú jú, það var góður leikur hér og þar, fínar tökur osvfr, osvfr. En efnið, sagan, erindið og sannfæringin var hvergi. Erum við ennþá svo upptekin af því að rembast við að gera ‘eins og best gerist erlendis’ þegar þeir þarna úti gera þetta svo miklu betur en við? Hvers vegna erum við að berja höfðinu við steininn? Hvers vegna reynum við ekki að horfast í augu við það hver við erum – eða í það minnsta: Því getum við ekki hætt að þykjast vera það sem við erum ekki? Ég get á augabragði nefnt það sem vel hefur verið gert hér á landi í sjónvarpsþáttaröðum að mínu mati, það eru ‘Vaktaseríurnar’, ‘Ástríður’ og ‘Pressa’ – í þessari röð. Restin er langt undir meðallagi, flest af því lágkúra.

Himinhrópandi skortur á sannfæringu og erindi

Hvað veldur þessari skelfilegu útkomu þegar við eigum allt þetta frábæra hæfileikfólk í öllum greinum íslenskrar kvikmyndagerðar? Getur ástæðan verið sú að við vitum ekki hver við erum, hvaðan við komum, hvert við ætlum? Og þess vegna kunnum við ekki að segja sögur af okkur sjálfum? Því hvernig er öðru vísi hægt að útskýra þennan himinhrópandi skort á sannfæringu og erindi sem blasir við í nær öllum sjónvarpsþáttum sem hér eru framleiddir – og flestum kvikmyndum líka?

Á meðan skora Danir hátt, aftur og aftur og aftur. Þeir eru að skrifa sínar ‘Danasögur’ fyrir framtíðina og byrjuðu með bravúr á Matador, svo kom hvert snilldarverkið á fætur öðru: Taxa, Örnen, Nicolaj og Julia, Kröniken, Anna Pil, Sommer, Broen, Forbrydelsen, Borgen, Arvingerne og nú síðast hið stórbrotna verk 1864. Það er dagljóst að Danir eru ekki í tilvistarkreppu, né eru þeir í nokkrum vafa um sjálfsmynd sína. Þeir ganga hreint til verks, meðvitaðir um erindi sitt, ólgandi af sannfæringarkrafti – og skapa hvert stórvirkið á fætur öðru. Þykjumst við Íslendingar of góðir til að reyna að læra af þeim?

Hvers vegna er þetta svona andskoti gott hjá þeim en svona helvíti lélegt hjá okkur?

Augljóslega þykir okkur það ekki smart, eins ameríkanseruð og við sannarlega erum, okkur virðist líða betur að apa eftir lágkúrunni vestanhafs en að sækja fyrirmynd til Dana þegar kemur að sjónvarpsþáttagerð. Það er auðvitað leiðinlegt til þess að hugsa að á þessum 3-400 árum sem við vorum í skítnum þá vorum við undir krúnu Dana, og þeir hefðu svo vel getað útvegað okkur það sem okkur skorti mest – sem var ekki snæri – heldur siðmenning. En þeir létu það vera, því miður. Í raun og sannleika felst hin meinta danska kúgun ef til vill að stærstum hluta í þeirri staðreynd að þeir töldu það ekki svara kostnaði að færa okkur siðmenningu. Við megum sannarlega vera fúl út í Dani fyrir það, en sá tími er liðinn og engu verður breytt úr því sem komið er – nema ef vera skyldi að okkur fari að langa til að breyta sjálfum okkur úr siðmenningarlausu hyski í eitthvað örlítið aðdáunarverðara.

Ef okkur langar t.d. að skapa sjónvarpsefni sem er einhvers virði þá mættum við líta til þess sem Danir eru og hafa verið að gera. Og við gætum spurt okkur: Hvers vegna er þetta svona andskoti gott hjá þeim en svona helvíti lélegt hjá okkur? Við þessari spurningu eru nokkur svör, en eitt þeirra er vafalaust það, að við rembumst stöðugt við að gera sjónvarpsþætti sem við vonumst til að geta kannski selt til útlanda og grætt svolítið á og orðið svolítið merkilegri í augum okkar sjálfra fyrir vikið. Um leið erum við ekki að gera sjónvarpsþætti fyrir okkur sjálf, um okkur sjálf vegna okkar sjálfra – og þar liggur hundurinn grafinn.

Heimsmynd og sjálfsmynd

Ein ástæðan fyrir velgengni Dana í sköpun og framleiðslu sjónvarpsþáttaraða er sú, að þeir, fyrir margt löngu, fóru að hafa áhyggjur af áhrifum bandarískra sjónvarpsþáttaraða á menningu og sjálfsmynd þjóðarinnar. Þeir spurðu: Hvers vegna sjáum við aldrei okkur sjálf í sjónvarpi? Hvar eru okkar sögur, okkar tilvistarglímur, okkar sorgir og sigrar? Hvaða heimsmynd, og sjálfsmynd, eru börnin okkar að alast upp við, þegar þau sjá ekkert annað í sjónvarpi og kvikmyndahúsum en fjöldaframleidda bandaríska spennu-, glæpa – og lögguþætti, sem framleiddir eru í þeim höfuðtilgangi einum að auka sölu á auglýsingum? Ætlum við að sitja aðgerðarlaus hjá á meðan kynslóðir danskra ungmenna eru heilaþveginn af þessu rugli? Svar Dana var skýrt og skorinort: Næh, for helvede!

Framleiðendur og handritshöfundar hjá Danmarks Radio voru sendir í vígi óvinarins, til Hollywood, til þess að læra tæknina og vinnubrögðin að baki þróun og framleiðslu vel heppnaðra sjónvarpsþáttaraða, því þótt amerískt sjónvarp framleiði mikið af rusli þá geta þeir svo sannarlega framleitt vandað, gott og gegnheilt efni. Danirnir fóru með öðrum orðum í víking og komu heim með fulla sjóði af nýrri þekkingu og reynslu, sem þeir síðan beittu markvisst og meðvitað til þess að gera dönsku efni skil, með þeim hætti að Danir sjálfir fengju áhuga á því. Og það tókst, einmitt vegna þess að þetta var meðvituð og markviss aðgerð allra þeirra aðila sem að málum komu, langtímaáætlun, sem nú skilar ríkulegum arði í sagnasjóð Dana til allrar framtíðar – og ótal mörgum Emmy verðlaunum, merkilegt nokk.

RÚV hefur svikið lögbundið hlutverk sitt og um leið svikið hverja kynslóðina á fætur annarri

Hér á Íslandi hefði sambærileg aðgerð átt að vera á ábyrgð RÚV. En hvað gerði RÚV þegar Stöð 2 fór í loftið á sínum tíma? RÚV fór að kaupa sama draslið og keppinauturinn og fór í heimskulega samkeppni um auglýsingamarkaðinn; RÚV fór að þykjast vera rosa töff og smart og æðislega mikið með’etta, þegar það var í raun og veru með allt niðrum sig og hefur svo sannarlega ekki náð að gyrða sig sómasamlega síðan. RÚV hefur með öðrum orðum svikið lögbundið hlutverk sitt og um leið svikið hverja kynslóðina á fætur annarri um sjónvarpsefni sem hefði átt að færa þeim mynd og sögu þeirra sjálfra. Það verður ekki framhjá því horft að RÚV hefur fullkomlega brugðist því hlutverki sínu sem mestu máli skipti, að færa okkur sögur okkar sjálfra, um okkur sjálf, fyrir okkur sjálf, því RÚV  hefur fyrst og fremst verið upptekið af sjálfu sér, ekki okkur.

Stöð 2 áttaði sig á að hið egósentríska RÚV skapaði þeim óvænt sóknarfæri, sumsé í framleiðslu íslenskra sjónvarpsþáttaraða, en það var bókstaflega hungursneyð í landinu eftir slíku efni. Stöð 2 studdi við nokkrar virðingarverðar tilraunir og loks fór landið smám saman að lyftast, uns Vaktaþættirnir litu dagsins ljós. Betra sjónvarpsefni hefur ekki verið gert á Íslandi. Hvers vegna? Vegna þess að þættirnir eru skapaðir og framleiddir af sannfæringu, af fólki sem telur sig hafa erindi – af fólki sem virðist einhvers staðar hafa komist í kynni við siðmenningu – og síðast en ekki síst, þá sýna Vaktaþættirnir okkur sanna mynd af okkur sjálfum: Auðnuleysingjann, Vitleysinginn og Hrokagikkinn. Í allri sinni óhugnanlegu breidd og dýpt, með öllum þessum vel formuðu og túlkuðu persónum, þá eru Vaktaþættirnir – enn sem komið er – Njálan í íslenskri sjónvarpsþáttagerð.

‘Ástríður’ eru ágætlega heppnaðir þættir, ekki síst vegna frammistöðu aðalleikarans, Ilmar Kristjánsdóttur, en það eitt og sér myndi varla duga, ef ekki væri sú hugsun og hugmyndavinna að baki í handritinu sem sannarlega er til staðar. Persónur eru trúverðugar og mennskar, samskipti þeirra grátbrosleg og sannfærandi og leikarahópurinn þétt og trúverðug heild. Þótt þáttaröðin standi Vaktaseríunum langt að baki á mörgum mikilvægum póstum, er ‘Ástríður’ samt í öðru sæti, að mínu mati. Ég nefni ‘Pressu’ einnig á nafn, fyrst og fremst vegna góðrar persónusköpunar vissra lykilpersóna og frábærrar úrvinnslu á sumum aðstæðum. Til dæmis bara morgunfundir ritstjórans lyfta þessari þáttaröð upp úr náttmyrkrinu, sem og leikur ritstjóranna tveggja, Þorsteins Bachman og Kjartans Guðjónssonar, og þess vegna fær ‘Pressa’ að vera nefnd hér, þótt of margt í efni hennar hafi misst marks og verið bæði ótrúverðugt og tilgerðarlegt. Sumsé: Ísland: 2, Danmörk: 14 – og þeir eru enn að skora.

Staurblindir íslenskir kvikmyndaframleiðendur 

Íslenskir kvikmyndaframleiðendur virðast vera staurblindir þegar kemur að því að velja verkefni til framleiðslu – að minnsta kosti eru þeir að horfa á eitthvað allt annað en það sem skiptir máli, mögulega langar þá að reyna að slá í gegn fyrir utan landsteinana, í stað þess að gefa okkur, áhorfendum, þjóðinni, sögur sem skipta okkur máli, sögur sem sagðar eru af sannfæringu, af heilindum og einlægni – sögur sem eiga eitthvert erindi við okkur, fjandinn hafi það. Samsekir framleiðendum eru ráðgjafar Kvikmyndamiðstöðvar og sú reglugerð miðstöðvarinnar sem skammtar handritshöfundum skít úr hnefa til að koma hugmyndum sínum á blað.

Ég efast ekki um að allt það fólk sem stendur á bakvið þau starfsheiti sem ég hef nefnt hér er allt að reyna að gera sitt besta. Og það er einmitt sú staðreynd sem veldur því að sorgarferlið ristir hvað dýpst þegar maður hugleiðir íslenska sjónvarpsþáttagerð. Danmarks Radio tók af skarið og mótaði stefnu, sem unnið hefur verið eftir og lagt línurnar fyrir sjálfstæða framleiðendur sömuleiðis. Því er ekki að heilsa hér á landi. Hér er engin stefna, engin markmið hafa verið sett niður, ekkert langtímaplan um hvert við ætlum, hver við viljum verða þegar við erum orðin stór.

Ríkisútvarpið hunsar bæði íslenska kvikmyndagerðarmenn og áhorfendur – Kvikmyndamiðstöð flöskuháls á sköpun

Íslenskir kvikmyndagerðarmenn geta ekki treyst á RÚV í þessum efnum, eða nokkurn annan en sjálfan sig. Þess vegna er brýnt að þeir taki höndum saman, móti listræna stefnu til framtíðar og stofni svo sjálfstæðan sjóð – t.d. með því að koma á fót lottói, sem útdeili starfslaunum til handritshöfunda og standi straum af kynningu verkefnis fyrir erlendum meðframleiðendum. Væri það nú ekki göfugt markmið? Væri það nú ekki frábært ef íslenskir kvikmyndagerðarmenn gætu slitið sig lausa frá ríkissjóði og staðið á eigin fótum? Eru það draumórar? Nei, það er eina skynsamlega leiðin.

Ríkisútvarpið hunsar hvort sem er bæði íslenska kvikmyndagerðarmenn og áhorfendur sömuleiðis; Kvikmyndamiðstöð gerir meira í því að vera flöskuháls á sköpun og framleiðslu heldur en að styðja menn til góðra verka, enda hefur miðstöðin enga stefnu til að fara eftir; ráðgjafar miðstöðvarinnar hafa bara hver um sig sína ‘skoðun’ á handritum, án þess að geta uppfyllt neinn þekktan mælikvarða þegar kemur að reynslu eða þekkingu á handritsgerð – og það er leitun að ráðgjafa sem getur rökstutt álit sitt með faglegum hætti, því ‘persónulega skoðun’ er náttúrulega ekki hægt að rökstyðja.

Allir mega hafa ‘skoðun’ á verkum handritshöfunda

Og handritshöfundar þekkja það alltof vel að þeir eru eini skapandi aðilinn í kvikmyndagerð sem þarf að þola þá smán að allir mega hafa ‘skoðun’ á verki þeirra og fara með puttana í það á nær öllum vinnslustigum. Ekki er ég viss um að kvikmyndatökumenn eða hljóðmenn, hvað þá leikarar, myndu sætta sig við slíka framkomu. En þar er ef til vill komin skýring að hluta til á því hvers vegna íslenskar sjónvarpsseríur eru svo lélegar sem raun ber vitni.

Ég hef hvorki lausnir né svör, en ég leyfi mér að spyrja og ég leyfi mér að segja álit mitt umbúðalaust, út frá þeim þekkingar- og reynslugrunni í handritsgerð, sem ég hef komið mér upp í tvo áratugi. Menn geta hunsað það eins og þeir vilja, skellt skollaeyrum, móðgast, farið í fýlu osvfr. Ég fagna því ef menn móðgast, því þá er kannski von að Eyjólfur hressist; það versta sem við gerum hvort öðru er að þegja. Sjálfur hef ég engra hagsmuna að gæta enda hættur að starfa í þessum geira. En ef menn vilja rökræða íslenska sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu í alvöru, þá er tíminn núna – áður en þessi undarlegi sproti íslenskrar menningarsögu lognast útaf og deyr úr leiðindum.

Friðrik Erlingsson
Friðrik Erlingsson
Friðrik Erlingsson er fyrrverandi handritshöfundur.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR