Morgunblaðið um GULLREGN: Myrk kómedía, afskaplega leikhúsleg

Sigrún Edda Björnsdóttir í Gullregni (mynd: Lilja Jóns).

„Bæði sprenghlægileg og nístandi harmræn,“ segir Brynja Hjálmsdóttir í Morgunblaðinu um Gullregn Ragnars Bragasonar.

Brynja skrifar:

Leikritið Gullregn eftir Ragnar Bragason var frumsýnt í Borgarleikhúsinu árið 2012. Það var frumraun Ragnars í leikhúsi, en hann hafði fram að því heillað land og þjóð upp úr skónum með sjónvarpsþáttum sínum um nætur-, dag-, og fangavaktina. Sýningin fékk góða dóma og Grímuverðlaun sem leikrit ársins. Nú hefur Ragnar gert kvikmyndaaðlögun af þessu fyrsta leikriti sínu og farið þar með í skemmtilega hringferð; hann kom inn í leikhúsið sem kvikmyndamaður og gerði sýningu sem margir höfðu orð á að væri „bíómyndaleg“ og hefur nú fært leikhúsið inn í kvikmynd sem er afskaplega leikhúsleg.

Ragnar er svo sannarlega „auteur“, hann hefur afgerandi stíl sem kemur fyrst og fremst fram í viðfangsefnum hans. Hann fjallar um hversdagslega Ísland, Ísland eins og það er undir öllu skrúðinu, Ísland óbaðað á náttbuxum og götóttum kvennahlaupsbol með rettu lafandi úr munnvikinu. Hann er þekktastur fyrir að skoða kómísku hliðina á þessari veröld, sem hann gerði með glæsibrag í Vaktaseríunum, en hann hefur líka staldrað við í dramanu, í myndunum Börn og Foreldrar . Ragnar vinnur undantekningalaust náið með leikhópum sínum og þróar persónur og sögu í gegnum samstarf og spunaferli. Þessi aðferð hefur gefist vel, enda er enn eitt einkenni verka hans eftirminnilegar og margslungnar persónur.

Gullregn fjallar um Indíönu Georgíu, sem býr í fjölbýlishúsi í Breiðholti. Líf hennar hverfist um tvo hluti; son hennar Unnar og gullregnstréð í garðinum hennar. Í upphafi myndarinnar kemur maður frá skipulagsyfirvöldum og tilkynnir henni að ákvörðun hafi verið tekin um að allur „óíslenskur“ gróður, þ.e. þær plöntur sem komu til landsins eftir 1900, skuli fjarlægður. Þetta er mikið reiðarslag fyrir Indíönu, sem býr sig undir að fara í harðan slag til að vernda tréð sem hún hefur hlúð að í öll þessi ár. Þessi slagur er allegorískur fyrir hinn slaginn sem hún þarf að taka í sögunni; slaginn um Unnar. Alla tíð hefur hún annast son sinn af svo miklu offorsi að hann er fullkomnlega meðvirkur og skortir allt sjálfstæði. Þegar hann fer að sýna aukna sjálfstæðistilburði og eignast pólska kærustu, sem er mikið áfall fyrir hina fordómafullu Indíönu, lítur út fyrir að Indíana sé að missa allt sem henni er kærast.

Indíana er mögnuð og margslungin persóna. Hún er skúrkur, hún þiggur ýmiss konar bætur sem hún hefur engan rétt á því hún er í raun fullkomnlega heilbrigð, á líkama í það minnsta, sálin er annað mál. Hún er svo stjórnsöm að það jaðrar við illkvittni, hún fer til dæmis afar illa með Jóhönnu nágranna sinn og bestu vinkonu. Þær vinkonur tákna tvenns konar andstæða afstöðu til lífsins; Indíana er ófær um að sjá birtuna og fegurðina í lífinu og því ófær um að vera hamingjusöm en Jóhanna lokar á allt ljótt og óþægilegt og er fyrir vikið óraunsæ og uppfull af bældum tilfinningum. Jóhanna er raunverulegur öryrki, hún er með skaddað stoðkerfi vegna slyss sem hún lenti í. Indíana lætur Jóhönnu samt snúast í kringum sig meðan hún liggur í hægindastólnum sínum sótbölvandi öllu og öllum og hunsar algjörlega viðstöðulausar tilraunir Jóhönnu til að benda á björtu hliðarnar. Indíana er sem sagt lygari, svikari og harðstjóri, með öðrum orðum hreinræktað illmenni. En allt hefur sínar rætur, eins og við komumst að um síðir.

Sigrún Edda Björnsdóttir er einhver merkilegasta leikkona landsins og hún gefur mikið í persónu Indíönu. Hún skiptir ógnvænlega vel á milli þess að vera spræk og útsmogin, sem við fáum á tilfinninguna að sé hin „raunverulega“ Indíana, yfir í að vera algjör hryggðarmynd, sýndaröryrki með hækju, úfið hár og ráma rödd. Halldóra Geirharðsdóttir er dásamleg í hlutverki Jóhönnu, sem á ömurlegt líf en lætur eins og allt sé í himnalagi. Maður hreinlega sér hugsunina „þetta er nú bara allt í góðu, er það ekki?“ spólast fram og aftur í augum hennar, feikilega vel gert. Hallgrímur er skondinn og skemmtilegur í hlutverki Unnars, þessa 39 ára gamla smábarns, og Karolina Gruszka er einnig stórfín sem Daniela.

Sviðsmyndin í Gullregni er skuggalega góð. Þetta er hálfgert stofudrama og lunginn úr myndinni gerist í íbúð Indíönu, sem er alveg einstök en samt er eins og maður hafi oft komið inn í þessa íbúð. Hún er uppfull af „kitsch“ skreytingum og munum og maður hreinlega finnur þefinn af jólaköku og gömlu tóbaki í loftinu. Birtan í stofunni er gul eins og gullregnið en samt er alltaf dimmt í íbúðinni, jafnvel um hásumar, sem er ansi sterkt og táknrænt.

Gullregn er afskaplega leikhúsleg kvikmynd, of leikhúsleg í raun og veru, því samtölin og takturinn í sögunni hæfa betur leikhúsi en bíómynd. Leikurinn er sömuleiðis nokkuð stíliseraður en það kemur ekki mikið að sök að mínu mati, það er bara nokkuð sem áhorfandinn þarf að taka í sátt. Leikhúsbragurinn á myndinni er ef til vill truflandi vegna þess að sagan er staðsett rækilega inni í raunveruleikanum. Vissulega er þetta nokkuð annarlegur heimur en það er ekki alveg nógu ljóst að þetta sé ýktur eða allegorískur veruleiki og þess vegna er ögn erfitt að taka suma hluti trúanlega.

Endir myndarinnar er ansi svakalegur og ekki beinlínis sannfærandi. Hann er ofurharmrænn, sem dregur úr harmleiknum sem er gegnumgangandi í sögunni. Endirinn segir: sjáið, allt hafði þetta skelfilegar afleiðingar, sem er óþarft því það er skýrt allan tímann, við erum búin að horfa á heiminn hrynja alla myndina.

Gullregn er myrk kómedía, hún er bæði sprenghlægileg og nístandi harmræn. Helsti styrkur hennar er frábær persónusköpun, persónurnar eru hver annarri áhugaverðari og sú eftirtektarverðasta er án vafa Indíana Georgía, sem mun seint líða áhorfendum úr minni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR