spot_img

Morgunblaðið um AFSAKIÐ MEÐANAÐ ÉG ÆLI: Hann sem vissi allt var ómálga

Þorgeir Tryggvason skrifar um Afsakið meðanað ég æli eftir Spessa í Morgunblaðið og segir meðal annars að myndin sé stórfín sem það sem hún er, en bankar ekki af neinum krafti í helgimyndina af einum af okkar helstu helgimyndabrjótum.

Þorgeir skrifar:

Einn af höfuðsnillingum íslenskrar nútímamenningar er lofsunginn í nýrri heimildarmynd Spessa sem frumsýnd var í Bíó Paradís fimmtudaginn 14. mars sl. Myndin fylgir kunnuglegu skapalóni heimildarmynda um listafólk, og tónlistarfólk sérstaklega. Byggð í kringum viðburð, í þessu tilviki stórtónleika með tónlist Megasar í Eldborg vorið 2019, með tóndæmum frá æfingum, smávegis af tónleikunum sjálfum og bútum úr viðtölum við samstarfsfólk í gegnum tíðina sem og tónlistarfólkið sem við sjáum undirbúa konsertinn. Að ógleymdu viðfangsefninu sjálfu sem við sjáum segja sögur af ferli sínum og tilurð einstakra platna og laga.

Þetta er ákaflega fagmannlega gert. Rammarnir fallegir, söguþráðurinn skýr og Megas sjálfur í banastuði sem sjarmerandi sögumaður, nýstiginn sem hann er upp úr heilablóðfalli. Það var mikið hlegið í stóra salnum í Paradísarbíóinu þegar ég sat þar sunnudaginn 17. mars, og ekki spillti einstaklega fallegur flutningur hans á „Tveimur stjörnum“ á tónleikunum sjálfum. Önnur tóndæmi eru sömuleiðis afbragð. Einvalalið hljóðfæraleikara skipar bandið, eins og svo oft á löngum og skrykkjóttum ferlinum: Guðmundur Pétursson, Daníel Friðrik Böðvarsson, Davíð Þór Jónsson, Matthías Hemstock og Skúli Sverrisson. Söngkonurnar líka úr framlínunni: Ágústa Eva Erlendsdóttir, Didda, Gyða og Kristín Anna Valtýsdætur, Magga Stína og Ólöf Arnalds. Meðal annarra viðmælenda má nefna Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur, sem hefur rannsakað textagerðina, Arnar Eggert Thoroddsen sem setur fram tónlistarsögulegt samhengið, og svo samstarfmenn frá fyrri árum á borð við Pál Baldvin Baldvinsson og Jóhann Pál Valdimarsson.

Innihaldið er mikið til kunnuglegt, og fylgir viðteknum söguramma ferilsins. Megas er maðurinn sem ræðst með hrossabresti óskammfeilinnar mælsku á heilagar kýr íslenskrar menningar og uppsker þöggun valdhafanna í menningarlífinu, þó alltaf eigi hann bandamenn sem hjálpa til við að koma efninu á framfæri. Missir stjórn á neyslunni og lystina á að harka í „bransanum“, en snýr síðan aftur í boði þeirra Morthens-bræðra þegar nýsköpunarbylgja pönksins rís loksins á Íslandi í upphafi níunda áratugarins. Breiðskífurnar eru orðnar hátt í þrjátíu, þar af ríflega tuttugu eftir upprisu, eftir að sess Megasar í tónlistar- og menningarsögunni er í raun tryggður.

Þetta þarf allt fyrr eða síðar að fá ítarlegri og krítískari skoðun en rúmast í þessu formi. Slík er óumdeild stærð Megasar og höfundarverks hans. Meðal þess sem þarfnast endurskoðunar er þessi viðtekna þunga áhersla á grínaktugar niðursallanir hins unga Megasar á Jónasi Hallgrímssyni og félögum, sem hér fær mikið pláss. Hún skautar yfir þá staðreynd að þetta „skeið“ er u.þ.b. hálf fyrsta platan og lýkur að mestu með lögunum um Jónas frá Hriflu og Ragnheiði biskupsdóttur á þeirri næstu. Og það nær ekki nokkurri átt að lýsa Spilverki þjóðanna sem einhverjum bjargvættum með aðkomu sinni að Á bleikum náttkjólum (1977), þegar árið á undan spilar algert landslið hljóðfæraleikara inn á Fram og aftur blindgötuna (1976), sem er augljóslega einn af sköpunarhátindum Megasar, og má jafnvel halda fram að rísi þeirra hæst. Er þar þó engu þjóðernisgoði steypt af stalli.

Fyrir utan rakningu sögunnar beinir Spessi sjónum myndarinnar að stórum hluta á tvö yrkisefni sem gerast plássfrek á síðari hluta ferilsins. Annars vegar kynferðisofbeldi, eins og það birtist t.d. í „Krókódílamanninum“ af The Boys from Chicago (1983) og „Partí/Elskhuganum“ af Hættulegri Hljómsveit og Glæpakvendinu Stellu (1990), og hins vegar á hinseginleikann í „Fílahirðinum frá Súrín“ af Loftmynd (1987) og „Litlum sætum strákum“ og „Tveimur stjörnum“ af Bláum draumum (1988).

Síðan efni myndarinnar verður til vorið 2019 hefur ýmislegt komið fram um þessi mál. Haustið sama ár er heimildarmyndin Svona fólk frumsýnd, en í ítarefni hennar er að finna langt viðtal við Megas um sinn hinseginleika, þar á meðal kynlífsferðir til Taílands og kynnin af Mú, ungum heimamanni sem Megas flytur seinna heim með sér og yrkir um stórkostleg lög. Enn síðar rannsakar Þorsteinn Vilhjálmsson sagnfræðingur þessa sögu og tónlistina sem hún er innblástur fyrir, og flytur um þetta allt fyrirlesturinn „Replasera kvenfólkið með litlum sætum strákum: Megas, hinseginleiki og friðhelgi listamannsins“. Viðtalið við Megas er að finna á Vimeo og fyrirlestur Þorsteins á YouTube.

Söguefnið kynferðisofbeldi er líka óhjákvæmilegt að skoða í ljósi frásagna Bergþóru Einarsdóttur í Stundinni í nóvember 2021 (sem nú er að finna á vef Heimildarinnar) af meintri nauðgun Megasar og annars manns sem seinna varð þeim að yrkisefni. Hvað svo sem segja má um samband raunveruleika og skáldskapar í verkum Megasar þá er það í það minnsta flóknara og sárara en kemur fram í viðtölunum í Afsakið meðanað ég æli.

Sjónarhorn myndarinnar er hefðbundið og lotningarfullt, þó því sé haldið fram í kynningartextum að viðmælendur „hlífi Megasi ekki“. Það eru vissulega sagðar af honum nokkuð hressilegar sukksögur, þar sem æla, eignaspjöll og fiskiflugur koma við sögu, en þetta er ekki myndin sem bankar af neinum krafti í helgimyndina af einum af okkar helstu helgimyndabrjótum. En stórfín sem það sem hún er, og tónlistin talar sínu máli sem fyrr, engu lík.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR