spot_img

Morgunblaðið um SNERTINGU: Fallegt ferðalag fortíðar

"Dregur upp trúverðuga mynd af ást og flóknum tengslum hennar við fortíðina," segir Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í Morgunblaðinu um Snertingu Baltasars Kormáks.

Jóna Gréta skrifar:

Eftir að Snerting kláraðist á hátíðarforsýningunni í sal fimm sátu allir áhorfendur áfram í sætum sínum, alveg hljóðir og leyfðu aðstandendalistanum að rúlla í algjörri þögn, þar á meðal undirrituð. Sumir þurrkuðu tárin á kinnum sínum á meðan aðrir biðu eftir því að sjá nafnið sitt á listanum. Það var enginn að flýta sér út heldur sátu allir ennþá að melta þessa fallegu og vönduðu kvikmynd sem var að klárast. Baltasar Kormákur leiddi áhorfendur af þvílíku öryggi í gegnum þessa mynd og sýndi hversu vel hann þekkir kvikmyndaformið.

Snerting er nýjasta kvikmynd Baltasars Kormáks og er byggð á samnefndri skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar. Þeir skrifa saman handritið en um er að ræða rosalegt tvíeyki enda báðir mjög virtir í sínu fagi. Sagan fjallar um aldraðan mann, Kristófer (Egill Ólafsson), sem leggur af stað í ferðalag í leit að fyrrverandi kærustu sinni, Miko (Kôki), sem hvarf sporlaust fyrir 50 árum. Ferðalagið hefst í London þar sem hann kynntist Miko og það ber hann síðan yfir hálfan hnöttinn eða alla leið til Japans. Meðan á ferðalaginu stendur rifjar hann upp sælar minningar frá sumrinu sínu í London 1969.

Myndin flakkar því fram og aftur í tíma. Kristófer er ýmist staddur í nútímanum á meðan heimsfaraldur stendur yfir eða í fortíðinni, árið 1969, þar sem hann er að læra að elda japanskan mat og fellur smám saman fyrir dóttur kokksins. Það er virkilega vel unnið úr þessu tímaflakki og alltaf klippt á réttum tímapunkti frá fortíð yfir í nútíð svo að spennan sem fylgir óvissunni viðhaldist.

Það er greinilegt að Baltasar Kormákur og teymið á bak við myndina hefur lagt mikla vinnu í leikmyndina og búningana, sérstaklega í atriðunum sem eiga að gerast í fortíðinni, en myndin nær alveg að sannfæra undirritaða um að fortíðin sé sjarmerandi. Allt virðist svo fallegt og einfalt en þannig er það líka að vera ástfanginn, eins og draumur á rósum, en síðar kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist. Með því að láta myndina gerast í fortíðinni tekst Baltasar Kormáki að stilla fortíðinni og nútíðinni upp sem enn meiri andstæðum og láta fortíðina líta enn betur út við hliðina á nútímanum. Eflaust eru flestir orðnir leiðir á þessari tilvitnun í heimsfaraldurinn en í Snertingu þjónar það tilgangi auk þess sem það býður upp á fyndin atriði eins og atriðið á hótelinu þar sem einn hótelstarfsmaðurinn gengur skrefi á eftir Kristófer í hringhurðinni og sótthreinsar glerið á eftir honum.

Það er ekki annað hægt en að hrósa leikaravalinu en undirrituð var örlítið skeptísk um það áður en hún sá myndina. Um leið og myndin byrjaði fuku allar efasemdir undirritaðrar út um gluggann. Egill Ólafsson var einfaldlega dásamlegur í hlutverki sínu sem öldruð útgáfa af Kristófer. Hann var ótrúlega sannfærandi og nálgaðist leikinn af mikilli ró og einlægni.

Sonur Baltasars, Pálmi Kormákur, stóð sig líka vel og jafnvel þótt leikur hans væri stundum flatur þá fyrirgaf maður honum það af því að hann var svo mikið krútt. Mótleikkonan hans Kôki var einnig virkilega sterk og Masahiro Motoki sem lék föður hennar, Takahashi, en eflaust kannast einhverjir við hann úr myndinni Okuribito eða á ensku Departures (2008) eftir leikstjórann Yôjirô Takita.

Eins og fram hefur komið kemur Baltasar Kormákur sögunni vel til skila en hins vegar eru nokkrir vankantar sem vert er að nefna. Einn þeirra er samband Kristófers við fyrrverandi konu og stjúpdóttur en það verður einfaldlega of flókið að ná utan um allt. Í einu atriði eru til dæmis Kristófer og fyrrverandi kona hans, Ella (María Ellingsen), hjá hjónabandsráðgjafa og þau eru spurð af hverju þau eignuðust aldrei börn og Kristófer útskýrði að Ella vildi bíða með að eiga næsta barn en hún átti sjálf dóttur fyrir. Biðin hafi síðan reynst of löng en í því í atriði er gefið í skyn að það sé önnur ástæða fyrir því að Ella eignaðist aldrei barn með Kristófer en áhorfendur fá aldrei að vita hver ástæðan sé eða það er allavega aldrei skýrt fyrir áhorfendum. Símaskilaboðin sem stjúpdóttir hans sendir á hann eru einnig ruglandi en hún kallar hann ýmist pabba eða Kristófer. Líklega var það eina sem áhorfendur þurftu að vita í tengslum við fyrra hjónaband að Kristófer á stjúpdóttur en ekkert blóðskylt barn og því hefði mátt koma til skila á skýrari máta.

Undirrituð saknaði þess líka að fá ekki fleiri skot og atriði af matargerðinni. Kvikmyndatakan hjá Bergsteini Björgúlfssyni er einstaklega falleg í myndinni og það hefði verið ótrúlega skemmtilegt að fá hann til þess að fanga betur með tökuvélinni matargerðina sem er svo stór hluti af þessari mynd. Með því að gefa japönsku matarmenningunni ennþá meira vægi í myndinni hefði atriði eins og það þegar Kristófer mætir snemma til að læra að gera hinn hefðbundna, japanska morgunmat orðið sterkara. Í raun er um að ræða tapað tækifæri.

Þrátt fyrir þessa örfáu fyrrnefndu vankanta er Snerting mjög góð mynd með sterkum leikurum og fallegri kvikmyndatöku. Hér er ekkert beinlínis nýtt af nálinni enda bara í grunninn einföld ástarsaga en Baltasar Kormákur fer virkilega vel með sögu Ólafs Jóhanns. Um er að ræða mannlega kvikmynd sem dregur upp trúverðuga mynd af ást og flóknum tengslum hennar við fortíðina. Þetta er mynd sem kvikmyndaunnendur ættu ekki að láta framhjá sér fara.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR