Baltasar: „Maður er að segja sögur af því að mann langar að hreyfa við fólki“

Baltasar Kormákur ræðir við Kastljós um mynd sína, Snertingu, sem er frumsýnd 29. maí.

Segir á vef RÚV:

Snerting, nýjasta kvikmynd Baltasars Kormáks, var meðal annars tekin upp í Japan, á Englandi og Íslandi. Tökurnar voru allflóknar í framkvæmd en Baltasar segir flækjustigið vel þess virði því myndin hreyfi með ríkum hætti við áhorfendum. Baldvin Þór Bergsson ræddi við leikstjórann í Kastljósi á RÚV. 

Kvikmyndin Snerting er byggð á samnefndri skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar og segir sögu Kristófers, eldri manns sem stendur á tímamótum og leitar svara við áleitnum spurningum úr fortíð sinni: Hvað varð um stúlkuna sem hvarf sporlaust úr lífi hans 50 árum fyrr. Sagan teygir sig víða um heim og ber Kristófer þvert yfir hnöttinn. Á leiðinni rifjar hann upp sælar minningar frá sumrinu 1969 í London. Stúlkan er japönsk að uppruna og kynnist Kristófer henni þegar hann starfar á veitingastað föður hennar þetta örlagaríka sumar.

Myndin er tekin upp í Japan að hluta og teymið fékk mikla hjálp hjá japanska sendiráðinu á Íslandi, sem Baltasar þakkar fyrir. „Það var ótrúlega mikil jákvæðni sem mætti okkur. Þetta eru viðkvæm mál sem verið er að ræða og við fengum mikla hjálp frá þeim,“ segir Baltasar.

Við tökur komu upp alls kyns flækjur. Til að mynda skarst mafían í leikinn og bannaði þeim að taka upp á ákveðnum stöðum í Tókýó. Í Hiroshima reiddu þau sig alfarið á túlka þar sem enginn talaði ensku. „En þetta var ekki þannig að maður væri að bugast. Þetta var bara mjög mikið flækjustig og auðvitað jók þetta kostnaðinn verulega á myndinni.“

Baltasar er minnisstætt þegar hann leikstýrði rifrildi japanskra persóna án þess að skilja tungumálið. „Hvað er ég að gera? Út í hvað er ég kominn?“ hugsaði hann með sér. „Ég skildi náttúrulega ekki orð sem þau voru að segja, það þurfti að þýða allt fyrir mig og túlka. En á endanum kom þetta saman og við erum búin að vera með Japani í eftirvinnslunni að fara yfir allt, hvort textinn sé réttur og að þetta sé allt í samhengi.“

Sem fyrr segir fer Egill Ólafsson með hlutverk Kristófers þegar hann er kominn á sjötugsaldur en tvítugan Kristófer leikur Pálmi Kormákur, sonur Baltasars. Með hlutverk hinnar ungu Miko fer japanska stjarnan Kôki sem er þekkt fyrir fyrirsætustörf og þreytir nú frumraun sína á hvíta tjaldinu. Baltasar segir ekkert þeirra hafa áttað sig á hve fræg hún er í Japan fyrr en langt var liðið á ferlið.

„Það var nefnilega mjög áhugavert vegna þess að ég valdi hana bara út frá prufum og var ekkert mjög meðvitaður um hennar status í Japan. Ég var bara ofboðslega hrifinn af þessari stelpu,“ segir Baltasar. Hann komst síðar að því að hún er dóttir frægra leikara og meðan tökur stóðu kom í ljós hve þekkt hún er. Hún er til að mynda með milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum.

Kôki og Pálmi Kormákur í Snertingu.

Baltasar segist þegar hafa fengið mjög sterk viðbrögð við myndinni. „Þetta er svona framar vonum, getur maður sagt, en auðvitað vonar maður alltaf að fólk hrífist.“ Honum þykir mjög gaman þegar hann nær að hreyfa við fólki líkt og þessi mynd virðist gera. „Ég held ég hafi ekki gert mynd sem hefur hreyft svona mikið við fólki, við skulum orða það þannig. Þar sem ég sé bara að þetta hefur sterk áhrif á fólk.“

Þetta sé ástæða þess að hann gerir kvikmyndir. „Maður er að segja sögur af því að mann langar að hreyfa við fólki. Stundum langar mann að skemmta því, stundum stytta því stundir. En stundum langar manni líka að segja sögu sem hefur áhrif.“

Baltasar segist stundum hafa þótt vanta slíkar sögur í bíó. Nú séu myndir oft bara um einhverjar uppákomur í stað stórra sagna á borð við Rain Man og Mississippi Burning. „Myndir sem höfðu einhverja sögu að segja, það finnst mér mjög gaman og mér finnst Snerting hafa það.“

Sig hafi alltaf langað til að segja ástarsögu en hún þyrfti þá að hafa einhverja alvöru fyrirstöðu. „Mér fannst þetta vera mjög áhugaverð og sterk fyrirstaða sem kemur í ljós í þessari mynd. Af hverju var þeim meinað að elskast?“

Sjálfan sé hann farið að langa til að vinna meira út frá Íslandi og íslenskum brunni. Hann hefur byggt myndver og aðstöðu hér á landi til að geta tekist á við verkefni af þeirri stærðargráðu sem Snerting er. „Ég er búinn að vera úti um allan heim sem Íslendingur, það er minn innsti kjarni. Maður leitar alltaf í það þegar maður þarf að vera trúr sjálfum sér. En ég vil taka það fram að þessar Hollywood-myndir hafa gefið mér tækifæri til að geta gert svona mynd á þessum skala. Þetta væri ekkert til án hvors annars.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR