spot_img

Lestin á Rás 1 um “Mannasiði”: Rýfur vítahring þöggunar

Heiða Jóhannsdóttir fjallar um Mannasiði, sjónvarpsmynd Maríu Reyndal, í Lestinni á Rás 1 og segir hana gott dæmi um fágaða kvikmyndagerð fyrir sjónvarp.

Úr umsögninni:

Vegur framleiðslu innlends sjónvarpsefnis hefur eflst og aukist á undanförnum árum. Ef litið er til RÚV, sjónvarps allra landsmanna, má sjá hvernig fjölbreytni hefur aukist í þróun og framleiðslu efnis fyrir ólíka hópa fólks, í virku samspili við samfélagslega umræðu og menninguna í landinu. Sjónvarpsmyndin Mannasiðir sem sýnd var á RÚV í tveimur hlutum á páskadag og annan í páskum er til marks um þessa jákvæðu þróun og jafnframt gott dæmi um fágaða kvikmyndagerð fyrir sjónvarp.

Í myndinni er tekist á við eitt erfiðasta málefni samtíma okkar og sögu, þ.e. kynferðisofbeldi, í þessu tilviki meðal ungs fólks, viðbrögð við því og áhrif þess á þá sem fyrir verða eða tengjast málum. Verkefnið er afrakstur vandaðrar þróunarvinnu á verki sem leikstjórinn María Reyndal hóf að skrifa fyrir nokkrum árum upp úr rannsóknum á kynferðisofbeldi í íslensku samfélagi. Hún leikstýrði leikriti út frá efninu fyrir Útvarpsleikhúsið í fyrravor sem tilnefnt var til Grímuverðlaunanna og nú hefur það verið þróað áfram og aðlagað sem sjónvarpsmynd. Þannig má segja að verkefnið hafi fylgt kynferðisofbeldisumræðunni í gegnum viðburðaríka tíma, þ.e. frá því að kröfur um réttlátari meðferð og opnari umræðu um kynferðisbrotamál fóru að eflast og þar til þær mótuðust í áhrifamikla umræðu- og viðhorfsbyltingu sem hefur fundið sér vettvang m.a. á samfélagsmiðlum í #höfumhátt og #metoo byltingunum.

Og einnig:

Handrit myndarinnar sem skrifað er af leikstjóranum Maríu Reyndal, með söguframlagi leikaranna Sólveigar Guðmundsdóttur og Sveins Ólafs Gunnarssonar sem fara með hlutverk foreldra Einars, er einkar vel unnið í nálgun sinni við efnið. Með því að skipta frásögninni milli afdrifa Einars og fjölskyldu hans annars vegar og Elínar hins vegar dregur myndin áhorfendur inn í persónuleika og umhverfi sögupersóna. Að sama skapi fær áhorfandinn það hlutverk að vega og meta það sem kemur fram, jafnt staðreyndir sem og þau viðhorf og þá heimssýn sem greina má hjá sögupersónum. En þegar á líður og eyðileggjandi áhrif málsins á líf Elínar verða æ ljósari, fara spurningarnar að dýpka og beinast inn á við.

Auk þess að gagnrýna tímalengd málsmeðferðarinnar varpar kvikmyndin jafnframt fram spurningum um það hvort samfélagið styðji nægilega við þolendur og aðra málsaðila. Í sögunni sem hér er sögð er einnig velt upp þeirri hugleiðingu hvort nægur sálrænn stuðningur og handleiðsla sé til staðar þegar ungt fólk á í hlut. Í áhrifamiklu lokaatriði myndarinnar stígur Elín fram eftir að hafa misst fótanna í því lífi sem hún átti fyrir atburðinn og spyr knýjandi spurninga á opinberum vettvangi.

Og loks:

Með nafngift Mannasiða má segja að María Reyndal tefli sínu verkefni fram til andsvars við þröngsýnum kennisetningum skaðlegra kynjaviðhorfa sem annað verk, bók og sjónvarpsþættir með sama nafni, hélt á lofti á undanförnum áratug og kennt var við Gillz. Mannasiðir Maríu minna á að umræðan um það hvaða skilning við leggjum í mannasiði er ekki aðeins mikilvæg, hún er dauðans alvara. Mannasiðir eru jú viðhorf og reglur sem við höfum sett okkur sem samfélag og grundvallarreglan er virðing fyrir allri mennsku og öllum í umhverfinu. Þessi viðmið birtast áhorfendum á þungvægum stað í mynd Maríu Reyndal. Á hurðinni að herbergi nemendafélagsins sem Einar og Elín hvefa inn í er að finna lista með yfirskriftinni Mannasiðir. Þegar hurðin skellur aftur blasa við nokkrar umgengnisreglur, en sú fyrsta sker sig úr, og þar stendur: „Respect fyrir öllu“. Það er að segja, virðing fyrir fólki eins og það er, og virðing fyrir mörkum og tilfinningum fólks. Sú vísa verður aldrei of oft kveðin og það er verkefni okkar samtíma að finna leiðir til þess að gera þessi grunngildi að hluta af hversdagslífi ungs fólks.

Sjá nánar hér: Mannasiðir Maríu rjúfa vítahring þöggunar

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR