Helena Stefánsdóttir um NATATORIUM: Mikilvægt að sjá ekki bara það sem er á yfirborðinu

Lóa Björk Björnsdóttir og Bjarni Daníel Þorvaldsson ræddu við Helenu Stefánsdóttur, leikstjóra og handritshöfund Natatorium, í Lestinni á Rás 1.

Segir á vef RÚV:

Helena segist hafa fengið mun meiri viðbrögð við myndinni en hún átti von á. „Fólk er alveg svakalega ánægt og það er svo gaman fyrir mig að fá svona gott feedback,“ segir hún. Myndin hefur fengið góða dóma hér á landi og erlendis. „Myndin situr eftir í fólki og fólk talar mikið og er að spá og spekúlera,“ segir hún um hinn almenna áhorfanda sem hefur gefið sig á tal við hana.

Langaði ekki neitt að vera á sviði

Helena lagði snemma fyrir sig dans og var í atvinnudanshópi þegar hún flutti til Parísar til að stunda nám við École de Théatre Jacques Lecoq sem lagði áherslu á líkamsvinnu í spunaleikhúsi. „Svo kom ég heim og ætlaði að byrja að gera leikhús en fattaði strax að mig langaði ekki neitt til að vera á sviði og fór eiginlega bara fyrir tilviljun að vinna með vinkonu minni sem er kvikmyndaleikstjóri,“ segir hún. „Þá fékk ég bakteríuna.“

Hún er einnig með meistaragráðu í myndlist og lærði við Valand listaháskólann í Gautaborg þar sem hún gerði miðlatengda myndlist.

Þá fóru púslin að raðast

Kveikjan að Natatorium var senan þar sem fjölskyldan situr saman að kvöldverði. „Þrjár kynslóðir af fjölskyldu í æðislega fallegu umhverfi og allir eiga að vera glaðir og það er verið að halda upp á eitthvað en svo er eitthvað undir niðri sem kraumar.“

Þessa senu skrifaði Helena fyrir löngu en vissi ekki hvað hún ætlaði að gera við hana. „Svo var ég með aðra sögu um hálfsystkini sem eru ekki alin upp saman og verða hrifin af hvort öðru. Það átti að verða stuttmynd.“ Síðan rambaði hún á drukknunarfíkn í gegnum smásögu og fór að kynna sér þann sjúkdóm. „Þá fóru púslin að raðast saman og úr varð þessi saga. Þetta eru ímyndir og myndir sem ég sá fyrir mér. Alls konar persónur sem ég klæddi í alls konar dysfunction.“

Væri skrítið hefði hún upplifað allt þetta sjálf

Í myndinni má finna ríkt persónugallerí og segist Helena hafa velt mikið fyrir sér hvaðan allt þetta fólk kom. „Þetta er blanda af persónulegri reynslu hjá mér, í sjálfsvinnu og þerapíu og hafa sjálf verið meðvirk og vera meðvirk,“ segir hún.

Hún lagðist í mikla rannsóknarvinnu og kynnti sér hlutverk innan fjölskyldna með óheilbrigt samskiptamynstur. Hún lærði að í fjölskyldum þar sem langveikir einstaklingar eru taki börnin eða makarnir oft að sér einhvers konar hlutverk. „Að vera trúðurinn, vera týnda barnið, vera sá sem heldur utan um allt, vera hetjan og allt þetta.“ Einnig líti hún til samfélagsins í kringum sig og fái innblástur frá öðrum kvikmyndum og bókum.

Sagan er ekki öll byggð á hennar eigin reynslu. „Enda væri það líka bara mjög skrítið ef ég hefði upplifað þetta allt. Ég þekki enga konu sem er með þetta heilkenni sem amman er með,“ segir Helena og á við Munchausen by Proxy sem felur í sér að viðkomandi ýkir eða framkallar veikindi hjá börnunum sínum til að fá sjálft athygli, ást og umhyggju.

Helena segir sig og Elínu hafa rannsakað þetta heilkenni til hins ítrasta. „Því mér finnst svo mikilvægt að sjá ekki bara það sem er á yfirborðinu heldur fara inn í manneskjuna,“ segir hún. Áróra, amman, sé mjög einmana vegna þess að hún geti ekki hleypt neinum að sér þar sem hún þurfi að hafa öll völdin.

Húsið hálfgert skrímsli

Húsið er í lykilhlutverki í myndinni og Helena segist hafa séð það fyrir sér í smáatriðum löngu áður en framleiðsla myndarinnar hófst. Eftir að hafa skoðað fjöldann allan af húsum og ekki fundið neitt sem passaið við hugmyndir hennar var ákveðið að byggja tveggja hæða einbýlishús inni í myndveri. Snorri Freyr Hilmarsson hannaði leikmyndina og bætti sinni sýn ofan á hugmyndir Helenu og lyfti þeim upp. Henni þótti það mögnuð tilfinning að sjá rými sem hún hafði hugsað upp verða að veruleika.

Helenu þykir gaman að heyra að fólk upplifi húsið eins og persónu í myndinni því það sé nákvæmlega það sem hún hafi reynt að gera. „Fyrir mér er húsið orðið hálfgert skrímsli. Þegar krakkarnir sem eru orðnir fullorðnir koma inn í þetta hús líður þeim strax illa.“

Lesa má allt viðtalið með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR