Heimildamyndin “Mirgorod, í leit að vatnssopa” verðlaunuð á Indlandi

Mirgorod, í leit að vatnssopa eftir Einar Þór Gunnlaugsson hlaut verðlaun fyrir bestu leikstjórn heimildamyndar á Global India International Film Festival sem fram fór í mars síðastliðnum. Þetta eru fyrstu alþjóðlegu verðlaun myndarinnar og jafnframt fyrsta hátíðin sem myndin er sýnd á.

Mirgorod, í leit að vatnssopa er alfarið tekin upp í samnefndri borg í mið Úkraínu, en klipping, hljóð og myndvinnsla fór fram í Ísafjarðarbæ, meðal annars með framlagi þeirra Jóhannesar Jónssonar og Önundar Pálssonar.

Tvær sýningar voru á myndinni í Bíó Paradís í janúarlok sl., en hún er nú aðgengileg á VOD. Þróun hennar og undirbúningur var styrkt af Utanríkissráðuneytinu og Kvikmyndasjóði, en framleiðsla var studd af Mirgorod borg og framlögum og aðstoð einstaklinga í kvikmyndagerð. Fleiri kvikmyndahátíðir munu vera í farvatninu síðar á árinu og þá er gert ráð fyrir að myndin muni ferðast víða um A-Evrópu og Úkraínu í sumar.

“Lengi var óvíst hvort úr þessu verkefni yrði heimildamynd, eða í besta falli kynningarvideo um friðvænlegt svæði í stríðshrjáðu landi en vegir sjálfstæðrar kvikmyndagerðar geta verið órannsakanlegir,” segir Einar Þór, en myndinni er lýst svo:

Í Úkraínu, um 300 km frá átakasvæðunum í austri, er smáborgin Mirgorod, heimasveit skáldsins Nikolaj Gogols. Kvikmyndagerðarmenn heimsækja borgina til að kynnast frægu vatni sem kennt er við hana og hvers vegna hún var einn helsti heilsubær fyrrum Sovétríkjanna. Á ferð þeirra hitta þeir heimamenn sem draga fram bæði staðreyndir sögunnar og andrúmsloft aldanna í stríði og friði. Á meðal viðmælenda eru flóttamenn frá átaksvæðunum í Donetsk, listamaður og borgarstjórinn sem rekur einstök gæði vatnsins í borginni sinni. Áhorfendur rekast líka á hóp fólks undirbúa útihátíð og reka nefið inn í leikhús. Myndin sýnir óþekktar hliðar á landi sem kennt er við stríð.

Frekari upplýsingar um myndina má nálgast hér.

Athugasemdir

álit

Um höfundinn
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ásgrímur Sverrisson.

Tengt efni