spot_img

[Stikla] Verkföll kennara í brennidepli heimildamyndarinnar ENDURGJÖF

Heimildamyndin Endurgjöf eftir Einar Þór  Gunnlaugsson fer í almennar sýningar 1. nóvember næstkomandi í Bíó Paradís. Myndin segir frá kennaraverkföllum á Íslandi frá 1977 til 1995.

Regluleg kennaraverkföll í nærri fjóra áratugi eru mörgum kynslóðum í fersku minni, segir í tilkynningu frá Passport Pictures, framleiðanda myndarinnar. Þá raskaðist daglegt líf um fjórðungs þjóðarinnar og líf nemenda tók nýja stefnu á meðan þjóðfélagsátök einkenndust af baráttu við efnhagssveiflur. Orð var haft á að sökum tíðra kennaraverkfalla hafi “hver kynslóð átt rétt á sínu kennaraverkfalli”, en mörg dæmi eru um að nemendur hafi leitað á nýjar slóðir þegar kennsla féll niður svo vikum skipti og “fundið sig” á nýjum starfsvettvangi eða í nýju námi.

Endurgjöf er seinni mynd Passports um verkföll á síðustu öld og er hún systurmynd Korter yfir sjö (2021), sem segir frá verkfallinu mikla 1955. Uppbygging er þó ólík upp að vissu marki sem og efnistök, þar sem frásögnin í Endurgjöf byggir nokkuð á fréttatengdu sjónvarpsefni og rekur sögu fjölda verkfalla sem tengjast innbyrðis. Þá er rakin þróun stjórnmála og upphaf internetnotkunar á Íslandi á 9. og 10. áratugum síðustu aldar og áhrif þess á skólastarf.

Helstu viðmælendur eru Elna Katrín Jónsdóttir, Einar Már Guðmundsson, Eiríkur Jónsson, Karen Rúnarsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson og Óli Gneisti Sóleyjarson.

Einar Þór leikstýrir og skrifar handrit ásamt Sigurði Péturssyni. Birta Rán Björgvinsdóttir annast kvikmyndatöku og Jón Atli Magnússon tekur upp hljóð. Tónlist gerir Einar Sverrir Tryggvason. Jóhannes Jónsson sá um samsetningu og Gunnar Árnason vann hljóðblöndun.

https://www.youtube.com/watch?v=LsZRbAcyXcg&ab_channel=EinarThor-Passport

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR