Spurt og svarað sýning á heimildamyndinni KORTER YFIR SJÖ

Sérstök sýning á heimildarmyndinni Korter yfir sjö verður laugardaginn 23. október kl. 15 í Bíó Paradís, þar sem rætt verður um myndina eftir sýningu.

Korter yfir sjö er nú á fimmtu sýningarviku í Bíó Paradís. Myndin segir frá einu harðvítugasta verkfalli sem háð hefur verið á Íslandi og sem hafði víðtæk áhrif á íslenskt samfélag fram eftir 20. öldinni. Myndin rekur atburði í aðdraganda þess, upprisu verkalýðs, og vaxandi og litríkt menningar- og mannlíf borgarinnar sem einkenndist af innflutningi á áður óséðum munaði en einnig af braggahverfum og mikili fátækt.

Verkalýðsfélögin lögðu áherslu á félagsleg réttindi en pólitískir straumar réðust oft af kalda stríðinu. Reykjavík var sett í herkví, hafnir lokaðar og vegatálmanir settir upp við alla vegi til borgarinnar. Oft var hart tekist á, bæði á götum úti og í fjölmiðlum og varð borgin mjólkurlaus, kaffilaus og bensínlaus í nærri sex vikur. Verkfallsverðir tóku olíuskip í gíslingu til að stöðva dælingu í Keflavík, á Faxaflóa og í Hvalfirði og líkkistur meðal annars notaðar undir smygl á vörum til borgarinnar. Smygl var daglegt brauð en mörg heimili þó nánast matarlaus áður en yfir lauk.

Spurt og svarað hefst að lokinni sýningu um kl 16.30. Þátttakendur verða Sigurður Pétursson sagnfræðingur, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Gunnar Smári Egilsson.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR