Heimildamynd um verkfallið 1955 í vinnslu

Í verkfallsátökunum 1955 voru meðal annars settar upp vegatálmanir.

Heimildamyndin Korter yfir sjö, um eitt hið lengsta og harðvítugasta verkfall í sögu landsins, verkfall 12 verkalýðsfélaga á höfuðborgarsvæðinu 1955, er nú í undirbúningi. Passport miðlun framleiðir.

Handritið skrifa Sigurður Péturson sagnfræðingur, ásamt Einari Þór Gunnlaugssyni sem einnig hefur umsjón með framleiðslunni.

Í undirbúningi verksins hafa komið fram filmur og fjöldi sjaldséðra ljósmynda úr einkasafni sem varpa nýju ljósi á einstakan atburð í sögu höfuðborgarinnar, verkalýðshreyfingarinnar og stjórnmála á Íslandi.

Áhrifa af árangri verkfallsins fyrir launafólk og almenning í landinu öllu á tímum sem félagsleg réttindi voru af skornum skammti, gætir enn í dag og er í fersku minni núlifandi Íslendinga sem tóku þátt. Saga verkfallsins, oftast kallað ”Verkfallið 55”, er krydduð litríkum persónuleikum, öfgum kalda stríðsins, vegatálmunum og oft ævintýralegum átökum stríðandi fylkinga.

Reykjavík, vaxandi menningarborg með nýju Þjóðleikhúsi, reglulegu tónleikahaldi og Tívolíi, úrvali kvikmyndahúsa með mannlífi sem einkenndist af innflutningi á áður óséðum munaði í húsbúnaði og afþreyingu, en einnig af hrörlegum braggahverfum og fátækt, var í herkví. Aldrei hefur borgin búið við slíkt umsátursástand þar sem varla var til mjólk í kaffið.

Fyrri heimildarmyndir Passports segja ma sögu íslenskra vita (Ljósmál), snjóflóða á Vestfjörðum 1995 (Norð Vestur) og hversdagslífs í Úkraínu í skjóli hernaðarátaka (Mirgorod, í leit að vatnssopa).

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR