Konur í kvikmyndagerð vilja svör frá menntamálaráðherra

Nýkjörin stjórn Wift á Íslandi, frá vinstri: Silla Berg, María Lea Ævarsdóttir, Anna Sæunn Ólafsdóttir, Þórey Mjallhvít Heiðar- og Ómarsdóttir og Helena Harsita. á myndina vantar Völu Þórsdóttur.

WIFT, samtök kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi, vilja róttækar aðgerðir til að rétta af sláandi halla í iðnaðinum á Íslandi. Þær harma að ný kvikmyndastefna sem á að styðja við greinina til ársins 2030 taki ekki mið af jafnréttismálum.

RÚV greinir frá:

„Það er ekki í takt við tímann og rosalega sorglegt,“ segir Helena St. Magneudóttir fyrir hönd samtakanna. Þær hafa sent Lilju Alfreðsdóttur erindi þessa efnis.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnti nýja kvikmyndastefnu til ársins 2030 og er það í annað sinn sem slík stefna er lögð fram. Stefnan inniheldur fimm meginmarkmið sem ætlað er að efla íslenskan kvikmyndaiðnað á næstu árum. Meðal annars er kveðið á um eflingu Kvikmyndasjóðs, stofnun fjárfestingarsjóðs fyrir sjónvarpsverkefni, háskólamenntun í kvikmyndagerð, starfslaun höfunda kvikmyndaverka og fjölskylduvænna starfsumhverfi.

Margir hafa lýst yfir mikilli ánægju með framtakið og fagna því að þarna sé búið að leggja til fjármagn til að styrkja innviði þessarar ört vaxandi greinar á Íslandi. Samtök kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi, WIFT, hafa hins vegar sent frá sér ályktun þar sem þær gera athugasemd við skort á jafnréttismarkmiði í þessari stefnu. Ályktunina hafa þær sent Lilju Alfreðsdóttur og bíða nú svara. „Við erum ánægðar með stefnuna almennt séð, þetta eru flott og göfug markmið og í þeim eru tíu aðgerðaáætlanir sem allar eru af hinu góða og vonandi ná þær að ganga. En við erum frekar súrar og finnst grátlegt að ekki sé einu orði minnst á kynjahalla í kvikmyndageiranum á Íslandi en hann er mjög mikill. Það vita allir að við erum frekar hissa á þessu,“ segir Helena St. Magneudóttir, meðstjórnandi í WIFT, í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2. Hún bendir á að þegar svipuð stefnumótun hafi verið gerð á árunum 2016-2019 hafi mjög skýrt verið tekið fram að það þyrfti að taka til í jafnréttismálunum, „en svo núna, árið 2020, er eins og þetta sé horfið út af borðinu. Það er ekki í takt við tímann og okkur finnst þetta rosalega sorglegt.“

Sem dæmi um augljósan kynjahalla nefnir Helena að í umsóknum sem berast kvikmyndasjóði séu konur um fjórðungur handritshöfunda og í aðeins 17% verkefna sem þiggi þaðan styrk séu konur í leikstjórasætinu. „Þetta á að vera 50/50 finnst okkur. Þetta eru ekki góðar tölur,“ segir Helena. Þróunin er allt of hæg að þeirra mati. Í öðrum greinum þyki sjálfsagt að stuðla að því að öll kyn hafi jafnan aðgang að störfum og kveðst hún eiga erfitt með að skilja hvers vegna ekki sé lögð áhersla á það sama í kvikmyndaiðnaðinum. „Það er ekki þannig lengur að konur eigi ekki að verða flugmenn og konur eigi ekki að verða læknar, við viðurkennum það öll, en í þessu tilfelli er bara sagt: Þið þurfið bara að redda ykkur og koma með betri hugmyndir,“ segir hún. Hún hrósar þó Kvikmyndamiðstöð fyrir að hafa brugðist við hallanum. Á meðal breytinga sem gerðar hafa verið er til dæmis að fyrsta umsókn um handritastyrk er nafnlaus svo ráðgjafinn sé ekki litaður af því hver stendur að umsókninni. „Það er til bóta og fyrir okkar tilstilli,“ segir Helena en betur má ef duga skal. „Kvikmyndamiðstöð lagði líka fram flotta aðgerðaáætlun í kjölfarið á þessari stefnumótun sem gerð var árið 2016 en nú þarf bara að koma fram reglugerð.“ Allir þurfi að taka höndum saman til að knýja fram breytingar. „Segjum sem svo að það sé skipt út í brúnni í Kvikmyndamiðstöð og þá ertu komin með allt annað fólk með allt aðrar áherslur,“ segir Helena sem leggur til kynjakvóta til að bregðast við hallanum. „Maður má auðvitað ekki segja orðið kvóti því það er svo mikið tabú en við erum alveg þar. Við sjáum þegar börn horfa á kvikmyndir að öll kynin finna ekki að þau hafi aðgang að þessum bransa því þetta er strákabransi. Því þarf að breyta.“

Lilja hefur enn ekki svarað erindi WIFT-kvenna en þær vonast til að fá viðbrögð frá henni í vikunni. „Þetta snýst um okkur, konurnar í bransanum. Við erum að gæta hagsmuna kvenna í þessum bransa en þetta snýst um svo miklu meira,“ segir hún. „Að fleiri kyn fái að segja sögur af samtímanum á þessum miðli sem er svona áhrifamikill fyrir unga fólkið. Ég vona að við heyrum frá henni sem allra fyrst því þetta er alvarlegt mál.

Sjá nánar hér: Konur í kvikmyndagerð vilja svör frá menntamálaráðherra

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR