Frá stjórn ÍKSA vegna mönnunar valnefnda

Stjórn ÍKSA hefur sent frá sér tilkynningu vegna gagnrýni WIFT á kynjahlutföll valnefnda Eddunnar 2023. Tilkynningin er svohljóðandi:

Stjórn ÍKSA tekur til greina gagnrýni hvað varðar kynjahalla í valnefndum árið 2023. Konur í valnefndum í ár voru 14 en karlar voru 24 þrátt fyrir að upphafleg mönnun valnefnda hafi verið með jöfnum kynjahlutföllum.

Við mönnun valnefnda horfir stjórn ÍKSA samkvæmt starfsreglum til faglegrar þekkingar, kynjahlutfalls og að viðkomandi sé ekki með innsent verk í þeim flokki sem valnefnd mun skoða. Þá má viðkomandi ekki hafa persónuleg tengsl við þá sem eru tilnefndir. Reynt er að manna nefndirnar þannig að fólk sitji ekki lengur en í 2-3 ár í senn.

Þegar verið er að manna valnefndir er valnefndafulltrúum gert að fara yfir vinnureglur valnefnda og innsend verk í sínum flokki og staðfesta að ekki sé um persónuleg tengsl að ræða. Á þeim knappa tíma sem líður frá því að innsendingar liggja fyrir og þar til valnefndir hefja störf verða oft breytingar á valnefndum, bæði vegna persónulegra tengsla og einnig vegna tímaskorts mögulegra valnefndafulltrúa. Á lokaspretti þessarar vinnu í ár fór því miður svo að kynjahlutfall raskaðist töluvert, mun meira en stjórn hefði kosið.

Kynjahlutföll hafa sannarlega verið höfð til hliðsjónar við mönnun valnefnda síðustu ára.

2023 sátu 14 konur og 24 karlar í valnefndum.
2022 sátu 23 konur og 17 karlar í valnefndum.
2021 sátu 22 konur og 15 karlar í valnefndum.
2020 sátu 23 konur og 15 karlar í valnefndum.

Alls eru þetta 153 valnefndafulltrúar, þar af 82 konur (54%) og 71 karlar (46%).

Nú er yfirstandandi rýnivinna varðandi starfsreglur og umgjörð Edduverðlaunanna þar sem fyrirkomulag á mönnun valnefnda er meðal þess sem verið er að skoða. Fulltrúi WIFT hefur verið boðuð á fund rýnihóps til að fara betur yfir málið.


Rétt er að geta þess að ritstjóri Klapptrés situr jafnframt í stjórn ÍKSA sem fulltrúi Samtaka kvikmyndaleikstjóra.

HEIMILDEddan.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR