„Hvítur, hvítur dagur“ valin á Nordic Distribution Boost

Hvítur, hvítur dagur, næsta kvikmynd leikstjórans Hlyns Pálmasonar í fullri lengd er nú í þróun og er eitt af aðeins sjö verkefnum sem valin hafa verið í nýtt átak hjá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum sem kallast „Nordic Distribution Boost“.

Þetta kemur fram á vef Kvikmyndamiðstöðvar.

Um er að ræða vinnustofu fyrir reynda framleiðendur og dreifingaraðila sem ætluð er til að styrkja dreifingu annarra og þriðju mynda leikstjóra erlendis og þá sér í lagi á milli Norðurlandanna.

Sjóðurinn býður framleiðanda og dreifingaraðila heimalands valinna mynda á vinnustofuna sem fer fram frá 16. -18. apríl í Helsinki, Finnlandi. Fyrir hönd íslenska verksins eru þangað mætt þau Anton Máni Svansson, framleiðandi hjá Join Motion Pictures og Lilja Ósk Diðriksdóttir, markaðsstjóri hjá Senu.

Hvítur, hvítur dagur vann til ARTE verðlaunanna á CineMart, samframleiðslumarkaði Rotterdam kvikmyndahátíðar og tók einnig þátt í samframleiðslumarkaði Berlinale kvikmyndahátíðar í Berlín, þar sem hún var eitt af einungis tveimur verkefnum sem voru valin í svokallaða Rotterdam-Berlinale Express.

Áætlað er að Hvítur, hvítur dagur fari í tökur í ágúst á þessu ári.

Fyrsta kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd, hin dansk/íslenska Vetrarbræður, var heimsfrumsýnd á Locarno kvikmyndahátíðinni í Sviss í ágúst síðastliðnum og hefur síðan þá unnið til samtals 27 verðlauna; 16 alþjóðlegra verðlauna á kvikmyndahátíðum ásamt níu Robert verðlaunum og tveimur Bodil verðlaunum í Danmörku.

Sjá nánar hér: Hvítur, hvítur dagur valin á Nordic Distribution Boost

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR