
Vilius Petrikas kvikmyndagerðarmaður er einn þeirra sem fá tilnefningu til Daytime Emmy verðlaunanna bandarísku fyrir framúrskarandi kvikmyndatöku þáttanna Ocean Treks sem meðal annars voru myndaðir hér á landi.
Mannlíf ræðir við Vilius og þar segir meðal annars.
„Þótt ég sé nú mikill vinnuþjarkur og hugsa yfirleitt stórt þá skal ég viðurkenna að ég sá þetta bara alls ekki fyrir, þetta kom rosalega á óvart,“ segir Vilius Petrikas, hjá íslenska framleiðslufyrirtækinu Hero Productions, en hann hefur verið tilnefndur til Emmy-verðlauna (Emmy Daytime Awards) fyrir tökur (outstanding cinematography) á bandaríska ferðaþættinum Ocean Treks.
Tilnefningunni deilir Vilius með þremur úr erlendu tökuliði sem kom hingað til lands í fyrrasumar til að taka þáttinn upp en þetta mun vera í fyrsta sinn sem íslenskur tökumaður kemur til álita í þessum flokki.
Vilius, sem hefur starfað við leikstjórn, tökur, eftirvinnslu og fleira á Íslandi frá því hann útskrifaðist úr kvikmyndaskóla árið 2010, kveðst jafnframt hafa orðið hrærður þegar hann fékk fréttirnar. „Það er auðvitað skrítið að vera tilnefndur til stærstu sjónvarpsverðlauna í heimi fyrir eitthvað sem maður fæst við dagsdaglega. Að vinnan mín sé metin af svona virtri stofnun eins og The National Academy of Television Arts and Sciences í Bandaríkjunum, það er alveg magnað, svakalegur heiður,“ segir hann glaður. „Ég hef áður fengið verðlaun á minni kvikmyndahátíðum, en ekkert í líkingu við þetta!“
Þættirnir Ocean Treks eru framleiddir af bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC og njóta vinsælda vestanhafs en í þeim er hinum þekkta þáttastjórnanda Jeff Corwin fylgt eftir á ferðalagi hans með úrvals skemmtiferðaskipum um heimsins höf þar sem hann kynnir viðkomustaði sína fyrir áhorfendum.
Tveir þættir voru teknir upp á Íslandi, annar í Reykjavík og hinn í grennd við Akureyri og hafði Vilius, fyrir hönd Hero Productions, alfarið umsjón með svokölluðum drónatökum eða loftmyndum við gerð þáttanna. Þátturinn sem var tekinn upp í Reykjavík er sá sem Vilius og hinir þrír eru tilnefndir fyrir.
Daytime Emmy Awards hafa verið veitt síðan 1972, en verðlaunahátíðin fer yfirleitt fram á vorin. Emmy verðlaunin, þar sem veitt hafa verið verðlaun fyrir efni á kjörtímadagskrá allt frá 1949, eru veitt á haustin. Reglur Daytime Emmy Awards kveða meðal annars á um að tilnefndur þáttur skuli hafa verið á dagskrá milli 2 að nóttu og 18 á kvöldin.
Sjá nánar hér: „Skrítið að vera tilnefndur til stærstu sjónvarpsverðlauna í heimi“ – Mannlíf
Hér að neðan má sjá stiklu annars Íslandsþáttarins af Ocean Treks: