Heim Fréttir Jón Gnarr segir íslenska handritshöfunda ekki fá verðskuldaða athygli

Jón Gnarr segir íslenska handritshöfunda ekki fá verðskuldaða athygli

-

Jón Gnarr (mynd: DV, birtist með tilvitnaðri frétt).

Jón Gnarr segir vinnuframlagi íslenskra handritshöfunda ekki gert nógu hátt undir höfði. Leikstjórar sjónvarpsþátta og kvikmynda fái yfirleitt allan heiðurinn af verkinu. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu sem stendur yfir mánuðum og jafnvel árum saman fá handritshöfundar varla nafns síns getið. DV fjallar um þetta og leggur út af Fésbókarfærslu Jóns.

Jón tjáir sig um stöðu íslenskra handritshöfunda í færslu á facebook síðu sinni og bendir á að handritagerð sé  ört vaxandi iðnaður í heiminum í dag enda mikil eftirspurn eftir vönduðu sjónvarpsefni. Hann segir handritshöfunda á Íslandi engu að síður ekki mæta sama viðhorfi og rithöfundar sem skrifa bækur.

„Það hefur verið tilhneiging til þess á Íslandi að líta niður á handritshöfunda, sem einhvers konar annars flokks höfunda, eins og þeir séu ekki alveg alvöru höfundar.

Ég minnist þess alltaf, fyrir mörgum árum, þegar einn forsvarsmaður Rithöfundasambandsins, stærði sig af því, við mig, að vera ekki með Stöð 2 og hefði því aldrei séð Fóstbræður, sem ég var að gera á þeim tíma. Honum fannst, og alls ekki einn um það, að þetta gerði hann kúltíveraðri, bókmenntafólki stendur oft stuggur af sjónvarpinu. Ég hef oft þurft að sitja undir yfirlætislegu háði og fordómum bókmenntafólks um eðli og gildi sjónvarps. Gjarnan gengur þá á með miklum alhæfingum og fordómum. Aldrei hefur þetta fólk neitt vit á sjónvarpi, hefur td. ekki séð Wire. Það er gaman að segja frá því að þetta er samt mikið af því fólki sem nú heldur ekki vatni yfir sjónvarpsþáttunum The Crown. Þetta er allt að koma.“

Eiga skilið virðingu og viðurkenningu

Jón rifjar upp þegar góður vinur hans sat mánuðum saman við handritsskrif á sjónvarpsþáttum. Á síðu KMÍ fékk leikstjóri þáttana allan heiðurinn fyrir þá vinnu og var hans nafn skrifað fyrir þáttunum. Jón skrifaði KMÍ harðort bréf vegna málsins og bendir á að leikstjórinn hafði verið ráðinn til að leikstýra verkinu, sem sé hið besta mál, en hann sé engu að síður ekki sá sem skrifaði handritið. Því sé ekki rétt að segja að þættirnir séu „eftir“ hann.

Þá bendir Jón á að íslenskum sjónvarpsstöðvum sé leikstjórum yfirleitt eignaður heiðurinn af verkunum en hvergi er minnst á þá sem sáðu fræjunum í byrjun og skrifuðu handritið.

„Það er bara eins og Enginn hafi gert það verk. Og hér er ég alls ekki að gera lítið úr verki leikstjóra en handritshöfundar eiga skilið þá virðingu og viðurkenningu sem þeim ber lögum samkvæmt og allrar sanngirni vegna.“

Sjá nánar hér: Segir íslenska handritshöfunda ekki fá verðskuldaða athygli: „Án handrits er ekkert. Það er grunnurinn að öllu“ – DV

Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ásgrímur Sverrisson.

NÝJUSTU FÆRSLUR

AGNES JOY framlag Íslands til Óskarsverðlauna

Kvikmyndin Agnes Joy verður framlag Íslands til Óskarsverðlauna 2021. Myndin var valin af dómnefnd Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, en í henni í sátu fulltrúar helstu fagfélaga íslenska kvikmyndaiðnaðarins, auk fulltrúa kvikmyndahúsa, gagnrýnenda og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Framsókn vill hækka endurgreiðslur í 35% og tífalda veltu

Stór tæki­færi fel­ast í því að styðja enn frek­ar við kvik­mynda­gerð í land­inu og hækka end­ur­greiðslur af fram­leiðslu­kostnaði í 35% líkt og gert er í lönd­um sem keppa við Ísland um verk­efni, segir Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, sam­gönguráðherra og formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Íslendingar að verða undir í samkeppni um þjónustuverkefni

Leifur B. Dagfinnsson hjá Truenorth segir í viðtali við Fréttablaðið að mörg stór verkefni hafi runnið Íslandi úr greipum undanfarið og að stjórnvöld hafi ekki gert nauðsynlegar breytingar til þess að tryggja samkeppnishæfni landsins. Íslendingar séu að verða undir í alþjóðlegri samkeppni um stór kvikmyndaverkefni út af lágri endurgreiðslu íslenskra stjórnvalda til kvikmyndaframleiðenda.

Wonder Woman, Ísland og framtíðin

Warner Bros. hefur tilkynnt að Wonder Woman 1984 verði frumsýnd samtímis í kvikmyndahúsum og á streymisveitu þeirra, HBO Max, þann 25. desember næstkomandi. Þetta eru enn ein tímamótin í sögu kvikmyndanna sem heimsfaraldurinn hefur ýtt undir. Hvað gæti þetta þýtt fyrir íslenskar kvikmyndir?