Ný kvikmynd, „Taka 5“, væntanleg frá Magnúsi Jónssyni

Hrund Atladóttir og Magnús Jónsson við tökur.

Magnús Jónsson er þessa dagana að ganga frá sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Verkið kallast Taka 5 og fóru upptökur fram síðsumars í fyrra.

Þetta er er svört gamanmynd um Ragnar Árnason, ungan bónda sem hefur alist upp í einangrun á afskekktum bæ úti á landi. Hans eini félagsskapur er sjónvarpið og persónur kvikmyndanna. Æðsti draumur Ragnars er að vera leikari og að fá að leika í alvöru bíómynd. Dag einn ákveður hann gera eitthvað í málunum. Hann rænir fimm listamönnum úr borginni, leikstjóra, leikkonu, myndlistarmanni, tónskáldi og rithöfundi og neyðir þau til að búa til bíómynd með sér upp úr gamalli sögu sem hann fann í bók.

Leikarahópurinn.

Upptökur fóru fram í Fljótshlíð, Rangárvallasýslu á 9 dögum. Magnús segir verkið í anda Dogma myndanna, starfslið hafi verið fámennt og farið framhjá styrkjum og sjóðum. Stefnt er á að frumsýna myndina í vor.

Hilmir Jensson, Þóra Karítas Árnadóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Margrét Kristín Sigurðardóttir, Halldór Gylfason, Ólafur Ásgeirsson, Kári Hjaltason, Edda Björg Eyjólfsdóttir og Magnús Jónsson fara með hlutverk myndarinnar.

Magnús semur handrit og leikstýrir, Hrund Atladóttir stjórnar kvikmyndatöku, Árni Þorbjörn Gústafsson sér um hljóðhönnun en hljóðmenn auk hans voru Ari Rannveigarson og Kári Haraldsson, sem einnig sá um almenna aðstoð.

Stikla er væntanleg um næstu mánaðamót.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR