Markelsbræður gera alþjóðlega þáttaröð um stolna list

Markels-bræður Þorkell Haðarson og Örn Marinó Arnarson við rætur Akrópólis. Í miðið er samstarfsmaður þeirra Alexandros J. Stanas.

Þeir Markelsbræður, Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson, eru þessa dagana í Aþenu að undirbúa tökur á heimildaþáttaröðinni Stolin list (Booty). Þáttaröðin mun fjalla um stöðuna á menningarlegum hornsteinum sem hafa verið teknir frá upprunaþjóðum og komið fyrir á höfuðsöfnum fyrrum nýlenduvelda. Líkt og gert var við miðaldahandrit Íslendinga á sínum tíma og Parthenon höggmyndirnar grísku.

Verkefnið er styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands og er framleitt í samvinnu við RÚV á Íslandi og grísku sjónvarpsstöðvarnar OTE og ERT. Tökur fara fram víða um heim – á Íslandi, Skandinavíu, Bretlandi, Þýskalandi, Grikklandi, Tyrklandi, Egyptalandi, Sýrlandi og Írak.

Markels-bræður eru að skoða tökustaði og ganga frá samningum við samstarfsaðila. Meðframleiðendur Markels í Grikklandi, Konstantinos Kontovrakis og Giorgos Karnavas hjá Heretic Creative Producers, skrifuðu undir samframleiðslusamning við grísku sjónvarpsstöðina OTE fyrir tveimur dögum og var meðfylgjandi ljósmynd tekin við það tækifæri.

Nýjasta mynd Heretic, Son of Sofia, er í keppni á Tribeca kvikmyndahátíðinni sem hefst þann 19. apríl næstkomandi. Mynd Markelsbræða, Fiðruð fíkn (Feathered Cocaine) var heimsfrumsýnd á sömu hátíð 2010.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR