Tökur hafnar á „Vargi“ Barkar Sigþórssonar

Börkur Sigþórsson.

Tökur eru hafnar á fyrstu bíómynd Barkar Sigþórssonar, Vargur (Mules). RVK Studios framleiðir.

Myndin segir frá tveimur bræðrum sem skipuleggja eiturlyfasmygl til Íslands og fá unga pólska stúlku til að gerast burðardýr.

Agnes Johansen og Baltasar Kormákur eru framleiðendur, Bergsteinn Björgúlfsson tekur og Elísabet Ronaldsdóttir klippir. Gert er ráð fyrir að myndin verði tilbúin í haust.

Gísli Örn Garðarsson og Baltasar Breki Samper fara með helstu hlutverk, en pólska leikkonan Anna Próchniak og hin danska Marijana Jankovic fara einnig með burðarrullur. Baltasar Kormákur og Ingvar E. Sigurðsson munu sömuleiðis koma fram í myndinni.

Kostnaðaráætlun hljóðar uppá um 220 milljónir króna en breska sölufyrirtækið West End Films fer með sölu myndarinnar á alþjóðavísu.

Fram kemur í frétt ScreenDaily að Börkur hafi einnig verið ráðinn til að leikstýra fjórum þáttum í næstu syrpu Ófærðar en tökur munu hefjast í haust. Börkur hefur nýlokið við að leikstýra einum þætti í seríunni Endeavour í Bretlandi.

Sjá nánar hér: Börkur Sigthorsson starts shoot for ‘Mules’; signs on for ‘Trapped’ series 2 | News | Screen

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR