Þessi eru tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir kvikmyndalist

Leikarahópur Hjartasteins.

Tilnefningar til Menningarverðlauna DV voru kynntar í dag en verðlaunaafhendingin fer fram þann 15. mars næstkomandi. Eftirtalin eru tilnefnd fyrir kvikmyndalist.

Jóhann Jóhannsson fyrir tónlistina við kvikmyndina Arrival

Arrival er mynd sem fjallar um tungumálið og takmarkanir þess, um hve erfitt er að eiga samskipti við aðra þegar orð eru eina verkfærið sem við höfum. Leitast er við að segja söguna með öðrum leiðum, og eins og gefur að skilja leikur tónlistin veigamikið hlutverk í slíkri mynd. Eiginlega er ómögulegt að hugsa sér hana án tónlistar Jóhanns, sem tekur við þar sem orðunum sleppir.

Heimir Sverrisson og Morten Jacobsen fyrir gervi í kvikmyndinni Eiðurinn

Heimir Sverrisson og Morten Jacobsen eru tilnefndir fyrir sérhæfð leikgervi (e. prosthetics) í kvikmyndinni Eiðinum. Líkamspartasmíð og áverkagerð er starf sem ekki er auðvelt að koma auga á en gegnir lykilhlutverki í kvikmynd sem þessari. Morten og Heimir unnu hér glæsilega vinnu sem er nánast hulin áhorfandanum og er þá einmitt tilganginum náð.

Kvikmyndahátíðin Stockfish

Fátt hefur gert meira til að bæta kvikmyndamenningu þjóðarinnar á undanförnum árum en Bíó Paradís og Stockfish hátíðin henni tengd. Auk þess að bjóða upp á úrval þess helsta í kvikmyndagerð heimsins fær hátíðin til sín góða gesti og heldur umræðufundi þar sem ýmsar hliðar kvikmyndalistarinnar eru ræddar. Stockfish gerir þannig sitt til að gera Íslendinga að betri kvikmyndagerðarmönnum og unnendum.

Leikhópur Hjartasteins

Leikarar kvikmyndarinnar Hjartasteins hafa fengið mikið lof fyrir leik sinn í myndinni enda ekki að ástæðulausu. Bæði eldri og yngri kynslóð leikara myndarinnar er feiknasterk og ógerlegt væri að taka einn út fyrir annan. Persónusköpunin er vönduð og leikararnir gæða Hjartastein þeirri dýpt sem myndin þarfnast. Leikstjóranum hefur tekist að skila vönduðu verki þar sem allir þættir hjálpast að við að auðga persónurnar lífi.

Heimildamyndin Keep Frozen

Keep Frozen heimildamynd Huldu Rósar Guðnadóttur og Helgu Rakelar Rafnsdóttur varpar sjaldséðu ljósi á hetjudáðir sem drýgðar eru við -35°C við höfnina í Reykjavík. Löndunarstarfið er viðfangsefni þessarar ljóðrænu heimildamyndar, þar sem myrkur, kuldi, karlmennska og 25.000 níðþungir fiskikassar reynast búa yfir furðumiklu og seiðandi aðdráttarafli. Í meðförum kvikmyndatökumannsins Dennis Helm verður hver rammi við höfnina að sannkölluðu listaverki. Og hver drekkhlaðinn fiskitogari að einstöku og áhættusömu kapphlaupi upp á líf og, stundum, dauða.

Í dómnefnd sátu: Vera Wonder Sölvadóttir (formaður), Valur Gunnarsson og Ísold Uggadóttir.

Sjá nánar hér: Menningarverðlaun DV 2016: Tilnefningar í kvikmyndalist – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR