Stuttmyndin „Babes Roll Out“ lofsyngur ástalíf kvenna og hinsegin fólks

Rammi úr Babes Roll Out.

Kvikmyndagerðarkonurnar Brynhildur Þórarinsdóttir og Sanna Carlson frumsýndu stuttmyndina Babes Roll Out í Malmö í Svíþjóð síðastliðinn föstudag. Myndina, sem er um fjórar mínútur að lengd, má skoða hér.

Babes Roll Out er lofsöngur til ástalífs kvenna og hinsegin fólks, að sögn kvikmyndagerðarkvennanna. Markmið þeirra er að vekja athygli á því hversu lítið er fjallað um samkynja ást í fjölmiðlum og kvikmyndum ásamt því að opna fyrir frekari umræðu um kynhneigð og hinsegin veruleika.

-Mig bráðvantaði menningu sem ég sem samkynhneigð kona get séð mig sjálfa í. Okkar ást og líf verður að sjást meira, bæði vegna þess að við eigum að fagna fjölbreytileikanum en einnig vegna þess að fordómar gegn samkynhneigð þrífast best í samfélagi þar sem gagnkynhneigð er ráðandi norm,

segir leikstjóri Babes Roll Out Brynhildur Þórarinsdóttir.

Næstum einungis konur og hinsegin fólk komu að gerð myndarinnar og var það meðvituð ákvörðun Sönnu og Brynhildar, fyrst og fremst vegna þess þær vildu geta boðið leikurunum upp á tryggt umhverfi á meðan að tökum stóð.

-Kvikmyndin er að öllu leyti laus við svokallað „male gaze“, í staðinn gefst okkur tækifæri til þess að rannsaka kynhneigð og löngun í öruggu umhverfi, í friði fyrir utanaðkomandi áhrifum og áreiti,

segir kvikmyndatökukonan og klipparinn Sanna Carlson.  

Brynhildur og Sanna stunda báðar nám við Fridhems Folkhögskola á Skáni í Svíþjóð. Sanna er sænsk en Brynhildur er fædd og uppalin í Skagafirði og í Reykjavík og flutti til Svíþjóðar 2011. Brynhildur er leikstjóri og framleiðandi og er Babes Roll Out þriðja stuttmynd hennar, en áður hefur hún sent frá sér myndirnar That´s what friends are for og Like it´s up to you. Sanna hefur komið að vinnslu fjölda kvikmynda bæði innanlands og utan. Hún sérhæfir sig fyrst og fremst í klippingu kvikmynda og kvikmyndatöku.

Á næstunni munu sýningar á myndinni fara fram í Gautaborg og Stokkhólmi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR