Minning | Erlingur Gíslason 1933-2016

Erlingur Gíslason leikari er látinn á 83. aldursári. Hann fædd­ist í Reykja­vík 13. mars 1933 og verður minnst sem eins helsta máttarstólpa íslensks leikhúss en hann kom einnig fram í fjölda kvikmynda og sjónvarpsverka.

Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1956 og nam leiklist í Vín, London og Berlín. Hann sótti einnig námskeið í gerð kvikmyndahandrita hjá Dramatiska Institutet í Svíþjóð.

Erlingur var leikari og leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu, leikhópnum Grímu og Leikfélagi Reykjavíkur. Þá fór hann með fjölda hlutverka í kvikmyndum og sjónvarpi. Meðal helstu verka á því sviði eru Punktur punktur komma strik, Hafið, Nonni og Manni, Foxtrot, MagnúsBlossi/810551, Stella í framboði og Hross í oss þar sem hann var jafnframt einn framleiðenda. Þá skrifaði hann handrit og lék aðalhlutverk í stuttmyndinni Símon Pétur fullu nafni sem hlaut áhorfendaverðlaun á Listahátíð 1988 sem besta stuttmyndin.

Árið 2008 sæmdi forseti Íslands, Erling riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskrar leiklistar.

Fyrri eiginkona Erlings var Katrín Guðjónsdóttir, f. 27.3. 1935, ballett- og gítarkennari. Þau skildu 1961, en hún lést 2.3. 1996. Synir þeirra eru Guðjón, f. 15.12.1955, verkfræðingur og Friðrik, f. 4.3.1962, rithöfundur og skáld.

Seinni eiginkona Erlings var Brynja Benediktsdóttir, leikstjóri, leikskáld og leikari, f. 20.2. 1938. Hún lést 21.6. 2008. Sonur þeirra er Benedikt, f. 31.5. 1969, leikari, leikstjóri og kvikmyndahöfundur.

Hér að neðan má sjá Erling flytja  ljóðið ,,Æviskeið“ eftir Pétur Fjeldsted Einarsson. Upptakan fór fram á heimili Guðmundar Emilssonar, 16. júlí, 2014.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR